Trissubogi Þorsteinn Halldórsson fær í sumar tækifæri til þess að tryggja sér sæti á Ólympíumóti fatlaðra í París, sem fer fram sumarið 2024.
Trissubogi Þorsteinn Halldórsson fær í sumar tækifæri til þess að tryggja sér sæti á Ólympíumóti fatlaðra í París, sem fer fram sumarið 2024. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorsteinn Halldórsson varð árið 2016 fyrstur til þess að keppa í bogfimi fyrir Íslands hönd á Ólympíumóti fatlaðra er hann tók þátt á mótinu í Ríó. Þorsteinn, sem keppir í trissuboga, tók ekki þátt á mótinu í Tókýó sumarið 2021 en stefnir nú…

Bogfimi

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Þorsteinn Halldórsson varð árið 2016 fyrstur til þess að keppa í bogfimi fyrir Íslands hönd á Ólympíumóti fatlaðra er hann tók þátt á mótinu í Ríó.

Þorsteinn, sem keppir í trissuboga, tók ekki þátt á mótinu í Tókýó sumarið 2021 en stefnir nú ótrauður á að tryggja sér sæti á Ólympíumóti fatlaðra í París á næsta ári. Sætið hefur hann ekki tryggt að svo stöddu en fær tækifæri til þess síðar á árinu.

„Það eru tvö mót í sumar þar sem ég get tryggt mér keppnisrétt. Það er ekki nóg að ná lágmörkum, þú þarft að vinna þér inn sæti með því að vera í verðlaunasæti á þessum mótum. Gallinn við þetta er að ég er einn í mínum flokki.

Ef ég væri með annan karl eða konu með mér þá væri þetta mikið auðveldara fyrir mig af því að þá kæmist maður inn í gegnum lið með karli eða blandað lið með konu. Ég er búinn að reyna og reyna að finna einhvern og bjóða fólki að prófa,“ sagði Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið.

Hann er í fremstu röð í flokki karla með skerta hreyfigetu, hafnaði til að mynda í 9. sæti á EM fatlaðra í ágúst síðastliðnum og er í 21. sæti á heimslistanum og 16. sæti á Evrópulistanum.

Í yngri kantinum 52 ára

Þorsteinn kveðst boðinn og búinn til þess að hjálpa fólki sem vilji prófa bogfimi, einungis þyrfti að hafa samband við Íþróttasamband fatlaðra til þess að koma slíkri heimsókn í kring.

„Ég er með góða aðstöðu og með öll tæki og tól. Fólk þyrfti bara að gefa sér tíma en það er meira en að segja það að byrja á þessu. Það er nóg af þroskaskertu fólki sem vill taka þátt en flokkast ekki með mér.

Ég er í flokknum með skerta hreyfigetu og það þyrfti að vera í sama flokki. Svo má ekki segja mér frá neinum sem gæti haft áhuga vegna persónuverndar. Ég er búinn að tala við Össur og athuga hvort það séu einhverjir, til dæmis með gervifætur, sem hefðu áhuga en það er svolítið erfitt að ná til þeirra.

Ég er orðinn 52 ára og er tiltölulega í yngri kantinum á mótum. Menn eru alveg yfir sextugu þar og eiga nóg eftir. Þannig að aldur er afstæður í þessari íþrótt. Það er ekki mikil hreyfing í þessu og flestir í hjólastólum,“ útskýrði hann.

Hundfúlt að missa af Tókýó

Þorsteinn byrjaði ekki í bogfimi fyrr en árið 2014 og var aðeins tveimur árum síðar kominn á Ólympíumótið í Ríó. Hvað kom þá til þess að hann tók ekki þátt á mótinu í Tókýó?

„Það er nú saga að segja frá því! Vegna Covid var bara eitt mót haldið fyrir Tókýó og innan þess móts voru þrjú mót. Þannig að það voru þrír möguleikar til þess að tryggja sætið á þessu móti.

Nema hvað að Icelandair týndi töskunum mínum á leiðinni út og þóttist vera að gera allt fyrir mig til þess að ná í þær, en gerði að ég held ekki neitt. Ég vissi alveg hvar þær voru, þær voru í Frakklandi þar sem ég millilenti.

Það var hjálparleysi að redda því ekki þannig að ég varð bara að horfa á hina og gat ekki tekið þátt. Þá missti ég af Tókýó. Ég var ekki með föt, ekki neinn búnað, ekki neitt. Ég beið í fimm daga. Ég hafði fimm daga til þess að stökkva inn í mótið, en töskurnar komu ekki. Þær komu bara til Íslands þegar ég var kominn heim.

Þá var ég búinn að taka mér frí frá vinnu í þrjá mánuði til að æfa, var búinn að leggja svakalega mikið á mig og hafði gengið afskaplega vel. Ég taldi mig 90% öruggan á því að tryggja mig inn en það fór eins og það fór, sem er hundfúlt,“ sagði Þorsteinn.

Viss um að komast til Parísar

Þrátt fyrir vonbrigðin með Tókýó kvaðst hann líta björtum augum til framtíðar og taldi góðar líkur á því að tryggja sér sæti á Ólympíumótinu í París.

„Já, ég er eiginlega viss um það. Það er erfitt af því að ég er einn í mínum flokki en ég tel mig allavega vera líklegri til þess að ná því heldur en ekki,“ sagði Þorsteinn að lokum í samtali við Morgunblaðið.