Torræð Kynningarmynd fyrir sýningu Loga Leós í D-sal Hafnarhúss.
Torræð Kynningarmynd fyrir sýningu Loga Leós í D-sal Hafnarhúss.
Sýningin Allt til þessa höfum við ekki skilið það dulmál sem berst frá þessum hljóðgjöfum, með verkum eftir Loga Leó Gunnarsson, verður opnuð í D-sal Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi í kvöld kl

Sýningin Allt til þessa höfum við ekki skilið það dulmál sem berst frá þessum hljóðgjöfum, með verkum eftir Loga Leó Gunnarsson, verður opnuð í D-sal Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi í kvöld kl. 20.

Logi Leó er 47. listamaðurinn sem tekur þátt í sýningaröð safnsins í D-sal en röðin hófst árið 2007. Þar er listamönnum, sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu, boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni. Segir í tilkynningu að Logi Leó vinni með hljóð, skúlptúra og vídeó í óvæntum samsetningum og innsetningum sem gjarnan yfirtaki sýningarrýmið á kankvíslegan hátt. Hann noti hversdagslegan efnivið í bland við tónlist, upptöku og hljóðbúnað og fái þannig áhorfendur til að horfa og hlusta á kunnuglega hluti á nýjan hátt.

Logi Leó er fæddur árið 1990 og býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og hafa verk hans verið sýnd í Grikklandi, Noregi, Sviss og Rússlandi, svo nokkur lönd séu nefnd. Logi tók þátt í sýningu Listasafns Reykjavíkur Abrakadabra fyrir tveimur árum og hefur auk hennar tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar, bæði hér heima og erlendis.

Verk og feril Loga má kynna sér á vefsíðu hans, logileo.info.