Bátasmíði Einar Jóhann við sveinsstykki sitt í Tækniskólanum, opnanlegt fag í Sæbjörg BA 59 á Reykhólum.
Bátasmíði Einar Jóhann við sveinsstykki sitt í Tækniskólanum, opnanlegt fag í Sæbjörg BA 59 á Reykhólum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Ég vonast til að geta helgað mig bátasmíðum og bátaviðgerðum, en til öryggis ákvað ég að taka líka próf í húsasmíði,“ segir Einar Jóhann Lárusson, 28 ára, sem í gær lauk sveinsprófi sem bátasmiður frá Tækniskólanum í Hafnarfirði, síðastur manna til að leggja stund á þessa gömlu iðngrein sem nú nýtur ekki lengur lögverndunar og verður framvegis sameinuð námi í húsasmíði. Hann útskrifast formlega ásamt fleiri iðnsveinum í vor, en húsasmíðaréttindin hefur hann þegar öðlast. Bátasmíðanámið stundaði hann undir handarjaðri meistara síns, Hafliða Aðalsteinssonar, sem smíðað hefur fjölda tréskipa og unnið að viðgerð eldri báta. Hrafnkell Marinósson hafði umsjón með námi Einars í Tækniskólanum.

Sameinuð húsasmíði

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið breytti í fyrrasumar reglugerð um löggiltar iðngreinar og felldi niður nokkrar greinar og sameinaði aðrar. Bátasmíðar, sem höfðu notið lögverndar frá því á þriðja áratugnum, voru í þessum flokki. Voru þær felldar undir húsasmíðar. Sérstakir bátasmiðir munu því framvegis ekki útskrifast. Þetta var umdeilt og bárust mótmæli víða að, m.a. frá Vitafélaginu, íslenskri strandmenningu. Einar Jóhann var í hópi þeirra sem gerðu athugasemdir við áformin.

Einar Jóhann bendir á að ekki sé hægt að spyrða þessar tvær iðngreinar saman. „Hús standa kyrr á sínum grunni en bátar þurfa að sigla sinn sjó,“ segir hann. „Þetta veldur því að mikla sérþekkingu þarf við smíði trébáta sem ekki er þessum tveimur iðngreinum sameiginleg. Þar má meðal annars nefna frágang og þéttingu byrðings við kjöl, hnoðun á festingum og skeytingu á stefni, kili og byrðingi. Þetta er einungis brot af þeirri sérkunnáttu sem búa þarf yfir til þess að smíða báta og er ekki kennd í húsasmíði.“

Sérhæfð verkkunnátta

Einar Jóhann nefnir einnig að innan húsasmíði sé takmörkuð kennsla á þau sérhæfðu handverkfæri sem tilheyra tréskipasmíði sem og takmörkuð not á þeim. „Lærður sveinn í húsasmíði hefur þannig ekki vald á þeirri verkkunnáttu né þekkingu sem þarf á að halda til þess að smíða trébáta. Mitt persónulega álit er því að auðveldara sé fyrir tréskipasmið að smíða hús en húsasmið að smíða bát. Þessar tvær iðngreinar eiga heima hvor í sínu lagi þótt þær nýtist hvor annarri,“ segir hann.

Einar Jóhann hefur undanfarnar vikur starfað með Hákoni og Eggerti Björnssyni að smíði áttærings fyrir Grindvíkinga og er stefnt að því að báturinn verði tilbúinn fyrir sjómannadaginn. Hann segist hafa unnið við bátasmíðar og viðgerðir frá 2019 og vonist til þess að geta haldið því áfram. Talsverð verkefni hafa verið við viðhald gamalla trébáta sem eru í eigu sjóminjasafna og einstaklinga.

Menningarverðmæti

Starf íslenskra tréskipasmiða felst einkum í nýbyggingu og viðhaldi á súðbyrtum og plankabyggðum bátum. Einar Jóhann bendir á að súðbyrðingurinn, eins og hinn hefðbundni útróðrabátur við Íslandsstrendur er jafnan kallaður vegna byggingarlagsins, sé byggður á aldagamalli hefð sem nái meira en 2.000 ár aftur í tímann. „Vegna sérstöðu sinnar komst súðbyrðingurinn inn á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf árið 2021. Það er því ljóst að súðbyrðingurinn og sú verkþekking sem smíði hans byggist á er menningararfur sem okkur sem Íslendingum ber að hlúa að og varðveita til komandi kynslóða,“ segir hann.

„Þessi sjónarmið eiga ekki síður við um plankabyggðu vertíðarbátana sem alla jafna eru stærri en súðbyrtu bátarnir,“ bætir hann við. „Smíði og viðhald þeirra krefst ekki síður sérþekkingar og kunnáttu.“

Talsverður áhugi er á gömlum íslenskum bátum og viðhaldi þeirra. Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur boðið upp á námskeið þar sem réttu handtökin eru kennd og var eitt slíkt haldið í október síðastliðnum. Þá eru ferðamenn forvitnir um gamla báta og allnokkur aðsókn að sýningum sjóminjasafnanna um land allt.