Stemning Kristján Steingrímur vinnur verk sín á afar óvenjulegan hátt.
Stemning Kristján Steingrímur vinnur verk sín á afar óvenjulegan hátt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján Steingrímur sýnir hátt í tuttugu verk á sýningunni Héðan og þaðan í Berg Contemporary, málverk á striga og pappír, og teikningar. Listamaðurinn vinnur verkin á afar sérstakan og áhugaverðan hátt því hann málar með litum sem hann vinnur sjálfur

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Kristján Steingrímur sýnir hátt í tuttugu verk á sýningunni Héðan og þaðan í Berg Contemporary, málverk á striga og pappír, og teikningar.

Listamaðurinn vinnur verkin á afar sérstakan og áhugaverðan hátt því hann málar með litum sem hann vinnur sjálfur. Hann sækir jarðefni og steinefni á mismunandi staði á jörðinni, duftar steinefnin og er þá kominn með litaduft og setur síðan bindiefni út í litinn og er kominn með málninguna.

„Oft og tíðum fer ég á staði sem hafa ákveðna skírskotun og skipta manninn máli í einhverjum skilningi,“ segir Kristján. „Á sýningunni er til dæmis verk sem ég kalla „Koma og brottför tveggja spámanna“. Litina gerði ég annars vegar úr jarðvegi frá Betlehem og hins vegar úr jarðvegi frá Musterishæðinni í Jerúsalem. Þetta er ekki beint trúarverk en samt hugleiðing um trú og trúarkenningar og í því samhengi getur maður velt fyrir sér ýmsu, til dæmis af hverju maðurinn hefur þurft að njóta svo mikillar handleiðslu frá æðri máttarvöldum í gegnum tíðina og af hverju þessir miklu spámenn yfirgáfu okkur. Annar þeirra reyndar ekki sporlaust því undir moskunni á Musterishæðinni sést far á kletti sem menn vilja meina að sé fóspor Múhammeðs þegar hann yfirgaf jörðina.“

Fór að rýna í svörðinn

Alls kyns sögur og viðburðir heilla listamanninn, en hvað varð til þess að hann fór að sanka að sér jarðefnum víðs vegar að úr heiminum? „Ég hef gert þetta töluvert lengi,“ segir hann. „Á tímabili vann ég við að stofna Listaháskólann ásamt góðu fólki. Ég þvældist mikið um borgir og fór víða og hafði ekki mikinn tíma til að vinna að myndlist en fór að velta fyrir mér stöðunum sem ég var á. Ég gerði sýningu sem fjallaði um borgir sem ég kom til og þá notaði ég olíuliti til að fanga stemningu og liti viðkomandi staða. Þetta þróaðist í að ég fór að rýna ofan í svörðinn og taka með mér sýnishorn af jarðvegi. Það endaði með því að ég fór að teikna jarðveginn. Síðan leiddi eitt af öðru, ég fór að búa til liti úr jarðveginum og ferðatöskurnar fóru að þyngjast.“

Stærra samhengi

Eitt verkanna á sýningunni byggist á litadufti frá Siena á Ítalíu. „Ég keypti þar þennan fræga Siena-lit sem uppgötvaður var á endurreisnartímanum og tók líka steinefni í Siena og tefli þessu tvennu saman. Annars vegar er verkið í einhverjum skilningi skírskotun í heim listasögulegra lita en það sýnir einnig umhverfið í Siena. Annað verk nefnist „Gestur“ og er gert úr akrýl og litadufti úr loftsteini sem féll til jarðar í Marokkó árið 2008. Það setur þetta allt í stærra samhengi,“ segir listamaðurinn.

Verkið „Aðfall“ er gert úr jarðefnum frá Seychelles-eyjum. „Mér voru færðar skeljar frá þessari fallegu eyju og ég gerði litaduft úr þeim. Eyjarnar rísa ekki hátt úr hafi og ef okkur tekst ekki að stöðva hlýnun jarðar þá gætu þær horfið en þá er þetta verk til,“ segir Kristján.

Agnir af Austurvelli

Á sýningunni eru einnig þrjár blýantsteikningar af ögnum sem listamaðurinn hefur stækkað. „Ég tek litlar agnir, næstum því ósýnilegar, af götunni eða einhvers staðar úr umhverfinu, set þær í víðsjá og stækka og geri þær sýnilegar með því að teikna þær. Ég kalla þessi verk „Stórt í smáu“. Þarna er til dæmis korn frá götuhorni í Hollywood sem ég stækkaði upp. Líka smáagnir sem ég tók af Austurvelli 2009 daginn sem kveikt var í jólatrénu. Ég geymdi agnirnar í mörg ár en stækkaði þær og teiknaði verkið fyrir stuttu.“

Sýning Kristjáns Steingríms í Berg Contemporary stendur til 25. febrúar.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir