Stjörnustríðsaðdáandinn Elsa hulin annars konar hlífðarfatnaði en hún er í búningaklúbbnum Rebel Legion.
Stjörnustríðsaðdáandinn Elsa hulin annars konar hlífðarfatnaði en hún er í búningaklúbbnum Rebel Legion.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég fór þessa algjörlega klassísku leið, MR, náttúrufræðideild eitt og svo læknisfræði í háskólanum, eins og meira en helmingurinn af mínum bekkjarfélögum,“ segir Elsa Björk Valsdóttir, skurðlæknir á Landspítalanum, sjósundgarpur og…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Ég fór þessa algjörlega klassísku leið, MR, náttúrufræðideild eitt og svo læknisfræði í háskólanum, eins og meira en helmingurinn af mínum bekkjarfélögum,“ segir Elsa Björk Valsdóttir, skurðlæknir á Landspítalanum, sjósundgarpur og forfallin Stjörnustríðsáhugamanneskja, í samtali við Morgunblaðið.

Sem Vesturbæingur á Elsa hefðbundna grunnskólagöngu að baki, Melaskóla og Hagaskóla, fram að Menntaskólanum í Reykjavík, þangað sem leið hennar lá beint, enda ítök hverfisskólanna upp á sitt sterkasta á skólaárum Elsu sem lauk stúdentsprófi vorið 1989. „Á þessum tíma fóru ekkert margir út fyrir hverfið sitt,“ segir hún.

Elsa kveðst hafa orðið hugsi yfir því, er blaðamaður bauð henni upp á viðtal, að meðal boðaðra umræðuefna væri hvernig það hefði komið til að hún varð skurðlæknir.

„Fólki finnst þetta stundum merkilegt, þegar það spyr mann hvað maður starfi, en fyrir mér er þetta bara vinnan mín,“ segir Elsa, „og þá fer maður að velta því fyrir sér hvernig fólk nær markmiðum sem eru fyrir utan og ofan það sem flestir setja sér. Það hefur í raun rosalega lítið með mann sjálfan að gera þegar maður fer að hugsa um það.“

Gerist löngu fyrir fæðingu

Telur hún það sem höfuðmáli skipti þegar mannskepnan kýs sér örlög á vinnumarkaði að detta inn í ákveðnar kringumstæður. „Það gerist í raun löngu áður en maður fæðist. Fæðist maður til dæmis í landi þar sem er aðgangur að menntun og þar sem er sjálfgefið að stúlkur geti leitað sér menntunar? Fæðist maður inn í fjölskyldu þar sem ekki eru fíknisjúkdómar eða misnotkun, lendir maður í umhverfi þar sem krakkar eru hvattir til að læra og því er sýndur skilningur og virðing að þeir þurfi rými til að læra heima til dæmis?“ veltir Elsa upp sem þáttum sem hvetja til menntunar í mannlegum samfélögum.

Pólitísk seinkun náms

Sjálf kveðst hún hafa verið ótrúlega heppin. Hún hafi borið gæfu til að fæðast á Íslandi og komast í menntaskóla þar sem áherslan hafi verið á að búa nemendur undir ákveðnar greinar í háskólanámi. „Meira en helmingurinn af bekknum mínum í náttúrufræði eitt fór í læknisfræði og þeir sem fóru ekki í hana fóru í tannlækningar eða sjúkraþjálfun eða hjúkrunarfræði eða eitthvað af þessum heilbrigðisgreinum,“ segir Elsa.

Í hennar tilfelli hafi það legið þráðbeint við að feta framangreinda slóð þar sem hún hafi um árabil verið staðráðin í að nema læknisfræði.

Elsa slapp gegnum gamla fjöldatakmörkunarkerfið numerus clausus í annarri tilraun en seinkaði sér um ár á miðri leið í náminu til að standa í fylkingarbrjósti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í hinni annáluðu stúdentapólitík Háskóla Íslands. Óinnvígðir stúdentar taka einna helst eftir henni í kringum gríðarlegan kosningaslag á vorönn með tilheyrandi stofukynningum, blóðheitum kosningaloforðum og blautum kosningavökum.

Þrjú ár í fyrirlestrum

„Ég hef, síðan ég man eftir mér, verið á kafi í öllu sem heitir félagslíf. Ég var forseti [málfundafélagsins] Framtíðarinnar í MR og í ræðuliðinu og svo datt maður náttúrulega inn í stúdentapólitíkina í háskólanum,“ rifjar hún upp af öndverðum tíunda áratug síðustu aldar.

Töluvert vatnsmagn hefur runnið til sjávar síðan Elsa sat á skólabekk í læknisfræðinni og tengingin við atvinnulífið þá var ekki svipur hjá sjón miðað við það sem nú er. „Það var á fjórða árinu minnir mig sem við fengum fyrst að fara eitthvað inn á spítala. Þetta hefur sem betur fer breyst alveg gríðarlega síðan og læknanemarnir, og nemar í heilbrigðisgreinum, eru farnir að koma miklu fyrr inn í klíníkina. Í gamla daga sat maður bara í þrjú ár í fyrirlestrum í lífeðlisfræði og meinefnafræði og ég man að ég hugsaði „guð minn góður, hvað er ég búin að koma mér út í?“, kennslan var öll í formi fyrirlestra og verklegra tilrauna en maður sá ekki sjúkling fyrstu þrjú árin,“ segir skurðlæknirinn af læknanámi fyrir þremur áratugum.

Á fjórða árinu hafi læknanemar farið í eina viku fyrir áramót og aðra eftir áramót og verið inni á deild í nokkra daga. Eðlilega hafi þá nýjar dyr opnast – en þær opnuðust ekki endilega að draumkenndum ævintýraheimi framtíðaratvinnulífs. „Ég var næstum því hætt í læknisfræði!“ segir Elsa með því tónfalli að stafrænt símtækið nötrar í hendi blaðamanns. „Ég lenti þá inni á lyflæknisdeild og ég spurði sjálfa mig hvort ég væri búin að þrauka í þrjú og hálft ár til að fara að gera þetta það sem eftir væri ævinnar,“ rifjar hún upp af eldskírn starfskynningarinnar.

En öll él birtir upp um síðir og kviðarholsskurðdeildin tók Elsu opnum örmum eftir áramótin. „Í fyrsta skipti sem ég gekk inn á skurðstofu var þetta bara eins og í bíómyndunum, með ljóssúlunni sem barst inn um gluggann og öllu tilheyrandi og þá fannst mér ég vera komin heim. Þar með var það ákveðið,“ segir Elsa sem kaus að taka kandídatsár sitt á Akureyri.

„Kandídatar á Landspítalanum þá höfðu mjög takmarkað aðgengi að skurðstofunni. Þetta var meira pappírsvinna og deildavinna og ekkert mikið verið að hleypa kandídötum í aðgerðir, svo ég flutti með karlinum mínum norður. Hann var akkúrat að skrifa lokaritgerðina sína í lögfræði þann vetur svo þetta hentaði honum ágætlega,“ segir Elsa en maður hennar er Hörður Helgi Helgason lögmaður.

Íslendingar ruddu leiðina

Þetta var veturinn 1997 til '98 en eftir það starfaði Elsa á Landspítalanum í tvö ár á meðan hún undirbjó framhaldsnám í Bandaríkjunum. Þangað hafði hún hugsað sér að fara, hvað sem straumum og stefnum leið, en fjöldi íslenskra lækna heldur til Svíþjóðar í framhaldsnám enda vel af náms- og starfsumhverfi þar látið.

„Ætli það sé ekki um fjórðungur sem er með þessa mótþróaþrjóskuröskun að fara til Bandaríkjanna þótt það kosti að maður þurfi nánast að byrja upp á nýtt, bara eins og maður hafi verið að útskrifast úr náminu í gær. Þarna er allt á þeirra forsendum,“ segir Elsa sem hélt til Dartmouth í New Hampshire til náms.

Þar höfðu nokkrir Íslendingar verið við nám á undan henni og kveður hún alltaf auðveldara að komast að í námi þar sem stjórnendur kannist við bakgrunn nemenda, einhverjir hafi verið á undan og rutt leiðina eins og Elsa orðar það. „Ég var svo heppin að gott fólk hafði verið í Dartmouth og líka sérfræðingar sem höfðu unnið með Íslendingum annars staðar,“ segir Elsa sem varði næstu sex árunum í Dartmouth, þá einu ári í Philadelphia og sneri að lokum heim að fósturjarðar strönd og hlíðum árið 2008.

Hún lætur vel af dvölinni sem hún vissi þó fyrir fram að yrði hörkuvinna frá fyrsta degi. „Bandarískt samfélag er allt öðruvísi skipulagt og uppbyggt en það sem við þekkjum á Norðurlöndum. Þú færð ekki sex vikna sumarfrí, það er ekkert jólafrí eða páskafrí, fæðingarorlofið er tólf vikur en ekki tólf mánuðir og vinnudagarnir eru langir, frítími allur miklu minni svo þetta tók alveg á,“ rifjar Elsa upp af námsdvölinni vestanhafs.

Þegar hún hafði lagt að baki tvö ár í Dartmouth voru settar reglur um hámarksvinnutíma lækna í sérnámi. Áður mátti þræla þeim út í hið óendanlega, nánast. „Með þessum reglum var vinnuvikan takmörkuð við 80 stundir, tíu tíma hvíld milli vakta gerð að skilyrði og maður varð að fá frí eina helgi í mánuði. Þetta þótti náttúrulega alveg hræðilegt, nú ætti bara að fara að ala upp einhverja kynslóð af aumingjum og hvernig ætti fólk að læra ef það væri bara alltaf sofandi heima hjá sér? Gegn þessu var rosaleg mótstaða hjá mörgum eldri sérfræðingum,“ segir Elsa.

Ís í matinn og sofið í fötunum

Í fyrstu hafi nýju reglurnar ekki verið haldnar í sérstökum heiðri en þar hafi komið að eftirlitsstofnanir gripu inn í og sjúkrahúsum settur stóllinn fyrir dyrnar hvað ráðningar læknanema snerti, þau fengju einfaldlega ekki að ráða þá nema þau væru með allt sitt á þurru. „Ég var þá í þannig stöðu að það var í mínum verkahring að setja upp vaktaáætlanir og fylgja þessum reglum og þá vildi það svo til að maðurinn minn er mjög lunkinn í Excel því þetta var bara Tetris-æfing dauðans,“ segir Elsa og vísar þar í tölvuleik sem að minnsta kosti lesendur á miðjum aldri og þaðan af eldri ættu að hafa heyrt um.

Á þessum tíma, og kannski enn, segir Elsa að vaninn hafi verið að stúdentar sem voru skammt á veg komnir, á fyrsta og öðru ári, hafi mætt í vinnuna klukkan fjögur eða fimm á morgnana til að vera búnir að ganga stofugang á alla sjúklingana áður en sjálfur stofugangurinn hófst um klukkan sex. „Þetta var kallað að „pre-rounda“ og þá var búið að tékka á öllum, eru þeir á lífi, hvernig líður þeim, ef einhver hafði verið í hjartarita yfir nótt, hvað kom út úr því og svo framvegis, þannig að maður var kannski að mæta á sumum deildum, sem voru þyngstar, klukkan fjögur-fimm á morgnana og vinna til átta-níu á kvöldin. Svo kom maður heim, borðaði ís í kvöldmat, svaf í öllum fötunum og fór í vinnuna aftur,“ segir Elsa af þessari gallhörðu skólun, „kannski ekki alveg besta umhverfið,“ bætir hún við kankvíslega.

Á þessum tíma var Hörður Helgi yfirlögfræðingur Persónuverndar. Hann kom út ári á eftir Elsu og sinnti þá mikið rannsóknarvinnu auk þess að vinna töluvert af verkefnum heiman frá Íslandi. Hann hélt svo heim til Íslands ári á undan konu sinni og gekk þar til liðs við lögmannsstofu sem hann starfar á enn í dag.

Þeim Elsu hafði þá fæðst dóttir og kom móðir Elsu út til hennar og dvaldi um nokkurra mánaða skeið dóttur sinni til halds og trausts á lokasprettinum en Elsa sneri, svo sem áður segir, á heimaslóðir árið 2008, búin að sérhæfa sig í ristilaðgerðum með kviðsjá og hóf störf sem skurðlæknir á Landspítalanum en vann töluvert við afleysingar í Neskaupstað fyrst um sinn sem hafi verið skemmtileg lífsreynsla.

Svigrúm til slíkra aukastarfa á landsbyggðinni hafi þó minnkað hratt eftir að önnur störf tóku að bætast við á höfuðborgarsvæðinu en Elsa er lektor við læknadeild háskólans og kennslustjóri sérnáms lækna á Landspítalanum auk síns helsta hlutverks á skurðstofunni, alls 107 prósenta starfshlutfall.

Frá gyllinæð upp í krabba

„Það sem höfðaði til mín við ristilskurðlækningarnar er hvað þær eru fjölbreyttar. Þetta eru alls konar sjúkdómar, hvort tveggja góðkynja og illkynja, og þetta er allur skalinn, frá ungu fólki upp í eldra fólk, og mér finnst það dálítið heillandi, öll kyn, allur aldur og allt litrófið í sjúkdómunum líka, frá gyllinæð upp í ristilkrabbamein,“ segir læknirinn. Þannig haldi starfið henni á tánum þar sem það snúist ekki um að gera sama hlutinn dag eftir dag.

Hún kveður stöðuna almennt góða í skurðlækningum á Íslandi, ekki skorti skurðlækna nema innan örfárra sérgreina og endurnýjun í greininni með ágætum. „Við erum ágætlega stödd,“ segir Elsa.

Hún virðist þó þurfa minnst 30 klukkustunda sólarhring til að sinna sínu þrískipta starfi svo vel sé. Eða hvað?

„Já, maður myndi alveg þiggja að sólarhringurinn væri aðeins lengri, en maður þarf líka bara að kunna að takmarka sig og segja þegar nóg er komið: „nei takk, nú get ég ekki meira“ og láta eitthvað frá sér. Ég hef verið að minnka við mig starfshlutfall síðustu ár og þá fækkar vöktunum þannig að ég er í raun að vinna minna núna en þegar ég var bara skurðlæknir,“ útskýrir Elsa sem er ekki með hnífinn á lofti daglega, enginn skurðlæknir er það.

„Aðgengið að skurðstofunni er ákveðinn flöskuháls og hefur verið það síðastliðin eitt til tvö ár, allt er búið að vera svolítið á hliðinni bæði vegna Covid og manneklu og annarra þátta. En þegar allt er eðlilegt á ég skurðstofudag aðra hverja viku og flestir sem eru í fullu starfi eru með skurðstofudag einu sinni í viku. Svo er maður kannski með deildina einn dag í viku, það er göngudeild einn dag í viku, föstudagarnir fara yfirleitt í samráðsfundi eða teymisfundi og svo sinnir maður pappírunum sínum og fylgir eftir rannsóknum einn dag í viku,“ segir Elsa af gangi mála í atvinnulífi sínu.

Heilbrigðiskerfið óseðjandi hít

Allir skurðlæknar á Landspítalanum eru að hennar sögn með biðlista og hafa þeir sennilega aldrei verið lengri en einmitt núna. „Þegar maður tekur færri vaktir og vinnur minna hittir maður færra fólk þannig að ég held að biðlistinn minn sé hlutfallslega alveg á pari við það sem aðrir eru með,“ segir Elsa.

Hins vegar sé staðan í hennar sérgrein þannig að þegar hún hitti sjúkling á göngudeild og hann er ekki með krabbamein eða óvinnufær af einhverjum góðkynja sjúkdómi þurfi einfaldlega að horfast í augu við viðkomandi og tjá honum að hann megi reikna með sex og allt upp í tólf mánaða bið eftir aðgerð. „Svona er þetta norræna módel, allir hafa jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu og þá bíða allir jafnlengi,“ segir Elsa. Einfalt mál.

Freistandi er að spyrja Elsu út í margumtalað ástand á Landspítalanum sem farið hefur hátt í fjölmiðlum og annarri þjóðfélagsumræðu síðustu misseri. Er við sérlega ramman reip að draga núna eða er þetta bara sá raunveruleiki sem gengur og gerist?

„Það koma náttúrulega alltaf álagspunktar. Við erum samt sem áður að keyra allt heilbrigðiskerfið á fullum afköstum og vel það og fólk þreytist, það getur enginn hlaupið alltaf og eins þarf alltaf að staldra við og spyrja spurninga. Hvað erum við að gera? Hvernig þjónustu erum við að veita hérna? Er þetta rétt þjónusta á réttum stað? Enginn hefur tíma í einhverjar framtíðarpælingar og að vera að skoða heildarmyndina þegar verið er að slökkva elda allan daginn,“ útskýrir skurðlæknirinn og segir vissulega þurfa að draga úr álagi.

„Heilbrigðiskerfið er náttúrulega bara óseðjandi hít,“ heldur Elsa áfram og tekur sér málhvíld til að fá sér vatnssopa, ljóstrar því upp að hún hafi aldrei drukkið kaffi sem blaðamanni þykir óskiljanlegt að virtum námsárum hennar. „Stjórnmálamennirnir eru ekkert að ljúga þegar þeir segja að það séu hærri framlög til heilbrigðismála á hverjum einustu fjárlögum. Þetta er alveg rétt. Okkur er að fjölga og við erum að verða eldri og kerfið þarf meira á hverju ári bara til að viðhalda „status quo“ [halda í horfinu],“ segir Elsa Björk Valsdóttir.