Skuldbinding „Það er við hæfi að safn Gangsins verði hluti af safneign Listasafns Íslands því á meðal verkanna má finna birtingarmynd af umsvifum innan íslensku listasenunnar. Þar stendur Listasafn Íslands einfaldlega við þá skuldbindingu sem fylgir höfuðsöfnum landsins,“ skrifar gagnrýnandi meðal annars.
Skuldbinding „Það er við hæfi að safn Gangsins verði hluti af safneign Listasafns Íslands því á meðal verkanna má finna birtingarmynd af umsvifum innan íslensku listasenunnar. Þar stendur Listasafn Íslands einfaldlega við þá skuldbindingu sem fylgir höfuðsöfnum landsins,“ skrifar gagnrýnandi meðal annars. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Íslands Gallerí Gangur í 40 ár ★★★½· Yfirlitssýning á verkum sem prýddu afmælissýningu Gallerís Gangs árið 2020. Sýningu lýkur 4. júní.

myndlist

Karina Hanney Merrero

Listamannarekna rýmið Gangurinn var stofnað 1979 af Helga Þorgils Friðjónssyni á heimili hans á Laufásvegi og var þá eitt af fyrstu óhefðbundu sýningarrýmum í Reykjavík. Í dag halda Helgi og kona hans Rakel Halldórsdóttir utan um sýningarhald íslenskra og erlendra listamanna sem telur tugi sýninga. Á dögunum gáfu hjónin Listasafni Íslands safn Gangsins til varðveislu, í kjölfarið á 40 ára afmælissýningu Gangsins árið 2020. Gallerí Gangur í 40 ár er yfirlitssýning á þeim verkum sem prýddu þessa afmælissýningu fyrir þremur árum og tilheyra nú safneign höfuðsafnsins Listasafns Íslands.

Frá einu rými í annað

Það getur verið áhugaverð tilfærsla að setja upp sýningu, sem var upphaflega inni á einkarými heimilisins, í sýningarsal listasafns. Mögulega var það einmitt þess vegna að sýningarstjórinn, Vigdís Rún Jónsdóttir, tók á það ráð að mynda göng inni í sýningarsalnum, sem leiðir áhorfendur fram og aftur um sýninguna. Eins er áhugavert að hugsa til þess að óhefðbundin sýningarrými hafa í gegnum árin verið stofnuð til þess að svara lítilfjörlegu sýningarstarfi innan stofnana, safna og gallería, eins og Helgi kemur inn á í viðtali innan sýningarinnar. En kostir þess að efna til sýninga utan stofnana eru fjölmargir; samstarfið er nánara, hagræðing frjálsari og umgjörðin hversdagslegri. Óhefðbundin sýningarrými hafa gjarna verið sýningarvettvangur grasrótarinnar, þar sem viðspyrnu gegn hefðbundnum gildum er gefið rými sem og endurskoðun á venjubundinni nálgun og birtingarmynd á hugmyndafræði listar og sjónmenningar.

Óhefðbundin sýningarrými

Erfitt er að rekja sögu Gangsins að fullu eða fá heildaryfirlit af þeirri starfsemi sem Helgi hefur staðið fyrir undanfarna áratugi. Brot af þeirri sögu má finna í heimildum í skjalasafni Nýlistasafnsins, Arkífi um listamannarekin rými, sem hýsir heimildir um hundrað listmannarekin rými í Reykjavík sem voru og eru starfrækt á árunum 1965 til dagsins í dag. Skjalasafnið gefur hugmynd um umfang óhefðbundinna rýma og gallería sem listamenn stofnuðu og ráku. Auk Gangsins má finna þar heimildir um Gallerí SÚM, Gallerí Vísi, Gallerí innan gæsalappa, Undir pilsfaldinum, Gallerý Barm og Gallerí GÚLP! Þessi rými eiga það sammerkt að vera stofnuð af listamönnum auk þess að vera hugsuð sem upphafið að samtali, viðspyrna gegn hefðbundnum gildum sem og vettvangur til að velta upp áleitnum spurningum er varða orsakasamband lista, listamanns og samfélagsins. Rými af þessu tagi voru gjarnan rekin áfram af mikilli hugsjón og ákefð og því ekki óalgengt að þeim væri lokað innan árs. Sú er ekki raunin hjá Helga og Ganginum, sem er í senn sýningarvettvangur og gestavinnustofudvöl, en Helgi hýsir gjarnan þá listamenn sem sýna á Ganginum með tilheyrandi skrafi um list yfir morgunkaffinu, komandi tíma og undangengnar hugmyndir og fræði. Í þessum skilningi er Gangurinn ekki aðeins sýningarvettvangur heldur tímabundinn dvalarstaður hugmynda og heima.

Þáttur í íslenskri listasögu

Það er við hæfi að safn Gangsins verði hluti af safneign Listasafns Íslands því á meðal verkanna má finna birtingarmynd af umsvifum innan íslensku listasenunnar. Þar stendur Listasafn Íslands einfaldlega við þá skuldbindingu sem fylgir höfuðsöfnum landsins. Þeir listamenn sem hafa sýnt á Ganginum vinna innan ólíkra miðla og koma alls staðar að. Starfsemi af þessu tagi hefur því óneitanlega áhrif á stílbrögð íslenskra listamanna sérstaklega og þá sér í lagi á upphafsárum. Það var því ánægjulegt að sjá sýningu uppkomna sem gefur ágæta hugmynd um starfsemi Gangsins á þessum brátt 43 árum. Spennandi verður að sjá hvað prýðir veggi heimilis þeirra hjóna á komandi árum. Gangurinn sem hýsti áður grasrótina er með tíð og tíma orðinn að frjóum kima fyrir innlend og erlend yrki, allavega um-stund, stund-um (e. For the time being (1980) Hreinn Friðfinnsson).