Vetur Mikið þurfti að nota af salti á götur í Reykjavík í fyrravetur.
Vetur Mikið þurfti að nota af salti á götur í Reykjavík í fyrravetur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dregið hefur verið úr notkun sands á stofn- og hjólastígum Reykjavíkurborgar undanfarin ár. Það sem af er þessum vetri hefur verið sandað fjórum sinnum á stígum sem flokkaðir eru í þjónustuflokki 3 og til þess hafa verið notuð um 45 tonn af sandi

Dregið hefur verið úr notkun sands á stofn- og hjólastígum Reykjavíkurborgar undanfarin ár. Það sem af er þessum vetri hefur verið sandað fjórum sinnum á stígum sem flokkaðir eru í þjónustuflokki 3 og til þess hafa verið notuð um 45 tonn af sandi. Það er mun minna en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í svari skrifstofustjóra borgarlandsins við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lagt var fram í umhverfis- og skipulagsráði í gær.

Við sama tækifæri var birt svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um saltdreifingu borgarinnar. Í svarinu var birt tafla yfir saltnotkun frá árinu 1977 og fram á síðasta vetur. Samkvæmt töflunni voru notuð 8.829 tonn af salti á götur Reykjavíkur veturinn 2021-2022 sem var næstum því tvöfalt meira en veturinn þar á undan. Fara þarf aftur til vetrarins 2014-15 til að finna meiri saltnotkun en þá var hún rúm 15 þúsund tonn samkvæmt töflunni.

Sópað 2-3 sinnum á ári

Þá var birt svar um götuþrif í borginni. „Götur í Reykjavík eru sópaðar 2-3 á ári og þvegnar einu sinni á ári sem fer eftir því í hvaða þjónustuflokki þær eru. Ákveðnar götur eru síðan teknar oftar ef færi gefst í von um að minnka hættu á svifryksmengun,“ segir í svari borgarinnar við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins.