Tré Innflutningur á viði með berki er talinn auka líkur á að barkarbjöllur og fylgisveppir nemi land og hafi alvarlegar afleiðingar fyrir skóga.
Tré Innflutningur á viði með berki er talinn auka líkur á að barkarbjöllur og fylgisveppir nemi land og hafi alvarlegar afleiðingar fyrir skóga. — Morgunblaðið/Eggert
Innflutningur á trjáviði með berki til landsins gæti orðið alvarleg ógn við íslenska skóga að mati sérfræð­inga. Matvælaráðuneytið felldi í seinasta mánuði úr gildi ákvörðun sem Matvælastofnun (MAST) tók árið 2021 um að fyrirtæki, sem hafði flutt…

Innflutningur á trjáviði með berki til landsins gæti orðið alvarleg ógn við íslenska skóga að mati sérfræð­inga. Matvælaráðuneytið felldi í seinasta mánuði úr gildi ákvörðun sem Matvælastofnun (MAST) tók árið 2021 um að fyrirtæki, sem hafði flutt inn trjáboli með berki frá Póllandi, skyldi eyða þeim eða endursenda úr landi.

Brynja Hrafnkelsdóttir skordýrafræðingur og Edda S. Oddsdóttir sviðsstjóri, sem báðar starfa hjá Skógræktinni, vekja athygli á málinu í grein á vef Skógræktarinnar. Þær benda á að enn sem komið er hafi engin barkarbjöllutegund numið land á Íslandi. Að hluta til sé það eflaust vegna þeirra ströngu reglna sem hér gilda um innflutning á trjáplöntum. „Nágrannalönd okkar hafa ekki verið jafnheppin. Í Evrópu geisa nú alvarlegir barkarbjöllufaraldrar og er talið að vandamálin af völdum þeirra eigi eftir að aukast enn í framtíðinni með áframhaldandi loftslagsbreytingum,“ segir í grein þeirra.

Trjábolirnir sem um ræðir voru fluttir til landsins í nóvember árið 2021 sem kolefnisgjafi til framleiðslu á kísilmálmi þar sem trjábolirnir eru brenndir til að kynda ofna við framleiðsluna. Við afgreiðslu málsins leitaði MAST til ýmissa sérfræðinga og ákvað í kjölfarið að hafna innflutningnum en innflytjandinn kærði þann úrskurð til ráðuneytisins. Í greininni á vef Skógræktarinnar segir að í málinu sé deilt um orðalag í lögum og hvort heilbrigðisvottorð sem fylgdi trjábolunum hafi verið fullnægjandi.

„Þá er einnig tekið fram að ekki sé heimilt að flytja inn „villtar plöntur sem safnað er á víðavangi“. Rökstuðningur MAST var m.a. sá að samkvæmt reglugerðinni væri fortakslaust bann við innflutningi á trjáviði með berki þar sem trjábolirnir kæmu af villtum plöntum sem safnað hefði verið á víðavangi. Það var hins vegar mat matvælaráðuneytisins að slíkt ætti ekki við í þessu tilfelli, enda kæmi fram í vottorði erlendra yfirvalda að umrædd tré hefðu verið ræktuð á skógræktarsvæðum þar sem tré væru felld reglubundið, segir í greininni.

Höfundar greinarinnar benda á að margt leynist í trjáberkinum. Helsti ávinningur þess að afbarka við sé að lágmarka hættuna á að barkarbjöllur berist til landsins og sjúkdómar sem þeim fylgja. Fyrir utan tjónið sem barkarbjöllurnar og lirfur þeirra valdi á trjánum fylgi þeim oft sveppir sem einnig geti valdið miklum skaða á trjám og leitt til dauða þeirra. „Barkarbjöllur og örverurnar sem fylgja þeim eru nú eitt alvarlegasta vandamálið sem við er að etja í skógrækt víða um lönd, ekki síst á svæðum þar sem trén eru veik fyrir af öðrum ástæðum, til að mynda vegna þurrka.“

Segja Brynja og Edda að skortur á náttúrulegum óvinum hraði út­breiðslu meindýra, eins og hafi sýnt sig í tilfelli nýrra skaðvalda á birki. „Innflutningur á viði með berki eykur líkurnar á að fleiri nýir skaðvaldar nemi hér land, ekki síst barkarbjöllur og fylgisveppir þeirra, sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir skóga landsins.

Skiptir þá litlu máli hvort trén eru ræktuð sérstaklega til fellingar eða vaxa í náttúrulegum skógum.“ omfr@mbl.is