Nicola Sturgeon
Nicola Sturgeon
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, tilkynnti í gær afsögn sína. Sturgeon, sem hefur leitt skosku heimastjórnina undanfarin átta ár, sagðist vita í bæði hjarta sínu og huga að nú væri rétti tíminn til að stíga til hliðar

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, tilkynnti í gær afsögn sína. Sturgeon, sem hefur leitt skosku heimastjórnina undanfarin átta ár, sagðist vita í bæði hjarta sínu og huga að nú væri rétti tíminn til að stíga til hliðar.

Sturgeon mun sitja í embættinu þar til skoski þjóðarflokkurinn SNP velur sér nýjan leiðtoga. Hún sagðist ekki ætla að hætta í stjórnmálum og hét því að hún myndi áfram þrýsta á um að Skotar fengju aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði sitt frá Bretlandi.

Sturgeon hefur verið undir nokkrum þrýstingi síðustu vikur, en hún hefur m.a. verið sökuð um að hafa leitt sjálfstæðismál Skota í öngstræti eftir að Hæstiréttur Bretlands hafnaði því í nóvember sl. að skoska þingið gæti einhliða skipað fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands án atbeina breska þingsins.

Skotar kusu um sjálfstæðismálið 2014 og höfnuðu þar sjálfstæði með nokkrum mun, en efnt var til þeirrar atkvæðagreiðslu með þeim formerkjum að hún myndi útkljá málið í eina „kynslóð“. Hefur því öllum beiðnum skosku heimastjórnarinnar um aðra atkvæðagreiðslu verið hafnað.

Þá hefur umdeild löggjöf um aukin réttindi trans fólks, sem skoska þingið samþykkti í desember, einnig reynst henni erfið, en Sturgeon mátti þola harða gagnrýni eftir að dæmdur nauðgari sóttist eftir að fá vist í kvennafangelsi á grundvelli laganna, en viðkomandi kom fyrst út úr skápnum sem trans kona eftir að dómur var felldur.

Breska ríkisstjórnin nýtti sér heimild í janúar til þess að fella lögin úr gildi, og var það í fyrsta sinn sem því neitunarvaldi var beitt gegn löggjöf frá skoska þinginu.

Sturgeon sagði hins vegar í gær að afsögn sín tengdist ekki nýlegum deilumálum, heldur hefði hún verið í bígerð um nokkra hríð. Sturgeon sagði jafnframt að þrýstingurinn sem fylgdi embættinu væri mikill. Hún væri ekki bara stjórnmálamaður, heldur manneskja líka.