Það hefur verið æðislegt að fylgjast með framgöngu Vals í Evrópudeild karla í handbolta í vetur. Liðið vann glæsilegan 35:29-heimasigur á Benidorm frá Spáni í gær og er í fínni stöðu í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitunum, þegar tvær umferðir eru eftir

Jóhann Ingi

Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Það hefur verið æðislegt að fylgjast með framgöngu Vals í Evrópudeild karla í handbolta í vetur. Liðið vann glæsilegan 35:29-heimasigur á Benidorm frá Spáni í gær og er í fínni stöðu í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitunum, þegar tvær umferðir eru eftir.

Valsmenn eru sem stendur í þriðja sæti af sex liðum, með einu stigi meira en Ferencváros í fimmta sæti. Fjögur efstu liðin fara áfram og því mikil spenna fram undan í tveimur síðustu umferðunum. Valur mætir Aix frá Frakklandi á heimavelli í næsta leik og síðan Ystad á útivelli í lokaumferðinni. Íslands- og bikarmeistararnir þurfa væntanlega að vinna annan þeirra til að fara langleiðina með að tryggja sig áfram í útsláttarkeppnina.

Það sem er sérstaklega gaman er hve margir leikmenn Vals hafa náð sér á strik í keppninni. Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir hafa verið á meðal bestu leikmanna Vals alla keppnina og Benedikt átti enn einn stórleikinn í gær.

Magnús Óli Magnússon átti sinn besta leik í keppninni til þessa í gær, eins og Vignir Stefánsson og Finnur Ingi Stefánsson. Björgvin Páll Gústavsson hefur átt sína bestu leiki í vetur í Evrópudeildinni og þeir Þorgils Jón Svölu Baldursson og Tjörvi Týr Gíslason verið sprækir á línunni, sem og í vörninni.

Stiven Tobar Valencia hefur farið á kostum í keppninni til þessa, þótt lítið hafi farið fyrir honum í gær. Alexander Örn Júlíusson bindur síðan vörnina saman, eins og alvörufyrirliði. Róbert Aron Hostert átti fína leiki, þar til hann meiddist, og því óhætt að segja að liðsheild Valsmanna hafi borið liðið langt, undir glæsilegri handleiðslu Snorra Steins Guðjónssonar, eins allra færasta þjálfara landsins. Það eru allir að róa í sömu átt.