Á Boðnarmiði yrkir Þorgeir Magnússon „Veðurvísu“ og hefur vafalaust verið ort í síðustu viku: Austanhroði er hinn mesti, ekki spáð hann muni lygna. Elsku Jesús bróðir besti blessaður láttu hætta að rigna

Á Boðnarmiði yrkir Þorgeir Magnússon „Veðurvísu“ og hefur vafalaust verið ort í síðustu viku:

Austanhroði er hinn mesti,

ekki spáð hann muni lygna.

Elsku Jesús bróðir besti

blessaður láttu hætta að rigna.

Ingólfur Ómar Ármannsson bætti við:

Regnið lemur kalda kinn

Kári er með í ráðum.

Skyldi ekki skaparinn

skrúfa fyrir bráðum.

Benedikt Jóhannsson:

Af kvefi menn sig hósta hása

herrar stunda svínarí.

Vetrarlægða vindar blása

velkominn heim frá Kanarí.

Jón Gissurarson segir: „Hér hefur ekkert rignt í allan dag, en vindur blásið þeim mun hraustlegar af suðvestri. Hér er nú 5 gráðu hiti og 14 m/sek.“

Þiðnar fönn af fjallatindum

funa slær á laut og börð.

Lægðin hefur vestan vindum

varpað yfir Skagafjörð.

Friðriki Steingrímssyni líst ekki á ástandið:

Bensínlaus ei bruna kann

bíll minn, það er skaði,

gaman væri’ ef gæti hann

gengið fyrir taði.

„Orsakavaldur“ eftir Guðmund Arnfinnsson:

Halldór hárprúði, snjalli

er hættur samningaspjalli,

það gekk ekki greitt,

hann gat ekki neitt,

því olli hárgreiðsluhalli.

Dagbjartur Dagbjartsson skrifar: „Eitt af því sem fylgir breytingum og hraða nútímans eru tíðir hjónaskilnaðir og fjöldi einstæðra foreldra. Eftir Símon Jón Jóhannsson er eftirfarandi vögguljóð, tileinkað einstæðum feðrum, og þó sum hinna ungu skálda segi að formið hefti hugsunina þá sé ég ekki annað en höfundur hafi komið þokkalega frá sér hugsun sinni og leyfi mér að efast um að þetta kvæði væri nokkuð betra þó það væri óstuðlað“:
Sofðu litla lukkutröll,
ljúfur ertu og sætur.
Pabbi geymir gullin öll,
geislabyssu og He-man höll.
En vakir yfir videói um nætur.

Það er margt sem mamma veit,
minn er hugur þungur.
Nýleg barnalögin leit,
lofuð er þar mæðrasveit.
En ég mun reynast rembusvín og pungur.

Sofðu ljúfur sofðu rótt.
Seint mun best að vakna.
Aðeins þessa einu nótt
í örmum pabba sefur hljótt.
Einnig feður finna til og sakna.
Þórunn Hafstein yrkir „Veðrabrigði“:
Lygnt hefur og lognið kært,
lækkað ölduganginn.
Hlýnar loft, að heiman fært;
hýrnar rjóður vanginn.
Magnús Geir Guðmundsson yrkir eina „léttvæga limruskjátu!“ með athugasemdinni „þannig er það allavega í bili á Akureyri, en verður vísast skammgóður vermir?!“:

Hér mörg ykkar vísast það vottið,

með veðurbarið svo skottið.

Að andartakshlé,

á óveðri sé,

og allt í dúnalogn dottið?!

Gamlar stökur, höfundur ókunnur:

Ó, mér líður ætíð vel,

ávallt því er glaður;

óttast hvorki háð né hel

hatur eða slaður.


Æ, mér líður ekki vel,

aldrei því er glaður;

óttast lífið, hatur, hel,

háð og lygaslaður.