Bakki Hið eftirsótta vindorkusvæði er ofan við Bakka, efst til vinstri á myndinni. Húsavíkurfjall rís hæst.
Bakki Hið eftirsótta vindorkusvæði er ofan við Bakka, efst til vinstri á myndinni. Húsavíkurfjall rís hæst. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Qair Iceland ehf. hefur óskað skýringa Norðurþings á því að sveitarfélagið hyggist ekki efna samning við fyrirtækið um rannsóknir við Húsavíkurfjall vegna hugsanlegs vindorkugarðs þar og taka í staðinn upp samstarf við Landsvirkjun um sams konar verkefni

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Qair Iceland ehf. hefur óskað skýringa Norðurþings á því að sveitarfélagið hyggist ekki efna samning við fyrirtækið um rannsóknir við Húsavíkurfjall vegna hugsanlegs vindorkugarðs þar og taka í staðinn upp samstarf við Landsvirkjun um sams konar verkefni. Áskilur Qair sér rétt til að krefja Norðurþing um skaðabætur vegna tjóns sem kann að leiða af „þeim löglausu ákvörðunum og ráðstöfunum sem sveitarfélagið boðar“. Fram kemur í mótmælabréfi Qair að kostnaður fyrirtækisins vegna verkefnisins hlaupi nú þegar á tugum milljóna króna.

Norðurþing og Qair gerðu samning sín á milli í mars 2021 um að Qair fengi aðstöðu og not af landi í eigu sveitarfélagsins til þess að meta fýsileika vindorkuvers. Einhver samskipti hafa síðan farið fram á milli sveitarfélagsins og fyrirtækisins um verkefnið. Á síðasta ári sóttist Landsvirkjun eftir að fá samning um rannsóknir á sama svæði og ákvað byggðaráð Norðurþings að hefja viðræður við fyrirtækið um það.

Umrætt svæði liggur upp af iðnaðarsvæðinu Bakka. Vindmyllurnar munu ekki sjást frá Húsavík eða annarri byggð nema þegar komið er upp á Reykjaheiði, á leiðinni að Þeistareykjum.

Samningur í gildi

Ljóst er af bókunum byggðaráðs og samskiptum við Qair að Norðurþing kýs frekar samstarf við Landsvirkjun en Qair. Ekki er mikið vit í því að tvö fyrirtæki rannsaki vindafar á sama stað og ljóst að ekki verða byggð tvö vindorkuver á svæðinu. Í bókun byggðaráðs í byrjun þessa mánaðar kemur fram að þar sem Qair hafi engar vindrannsóknir gert, með þeim hætti sem lýst var í samkomulaginu frá 2021, og engar rannsóknarniðurstöður kynntar sveitarfélaginu, telji byggðaráð ástæðulaust að halda áfram samstarfi við Qair um rannsóknir á svæðinu.

Samningnum hefur þó ekki verið sagt upp og hefur Qair nú óskað skýringa Norðurþings á umræddum ummælum. Vekur fyrirtækið athygli á því að sveitarfélagið hafi brýna ástæðu til þess að slíta ekki umræddu samstarfi. Gildandi samningur þeirra á milli leggi skyldur á sveitarfélagið sem það geti ekki vikið sér undan. Qair hafi unnið að forrannsóknum og öðrum athugunum og samningar verið gerðir við sérfræðinga vegna umhverfismats og vindrannsókna. Kostnaður fyrirtækisins hlaupi þegar á tugum milljóna króna. Tekur fyrirtækið fram að Norðurþingi hafi mátt vera ljóst að verkefnið tæki mörg ár, enda sé ekki tímasett áætlun í samningum eða skilyrði um tímamörk áfanga. „Liggur því fyrir að Qair hefur í engu brotið gegn samkomulagi aðila. Því er harðlega mótmælt að sveitarfélagið láti í veðri vaka að Qair hafi vanrækt skyldur sínar,“ segir í bréfi fyrirtækisins.

Spurð um stöðu viðræðna við Landsvirkjun segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, að þeim hafi verið hætt á meðan gengið væri frá málum við Qair. Viðbrögð fyrirtækisins hafa verið kynnt í byggðaráði en ekki tekin afstaða til þeirra.