Olíutankar Fjárhagsaðstoð þyrfti til frá ríkinu til að halda 90 daga neyðarbirgðir olíu að mati Skeljungs, ella geti félögin ekki staðið undir kostnaði.
Olíutankar Fjárhagsaðstoð þyrfti til frá ríkinu til að halda 90 daga neyðarbirgðir olíu að mati Skeljungs, ella geti félögin ekki staðið undir kostnaði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Rekstur olíufélaganna gæti ekki einn staðið undir öllum kostnaðinum við það að koma upp og viðhalda 90 daga neyðarbirgðum eldsneytis. Þetta kemur fram í umsögn Skeljungs við áform umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um að leggja fram fruvmarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis

Rekstur olíufélaganna gæti ekki einn staðið undir öllum kostnaðinum við það að koma upp og viðhalda 90 daga neyðarbirgðum eldsneytis. Þetta kemur fram í umsögn Skeljungs við áform umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um að leggja fram fruvmarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Gert er ráð fyrir að birgðirnar yrðu byggðar upp í skrefum og er markmiðið að tryggja aðgengi að lágmarksbirgðum jarðefnaeldsneytis til 90 daga.

Í umsögn Skeljungs er bent á að þótt ekki liggi fyrir allar forsendur sem væntanleg löggjöf á að byggja á megi ætla að afleiðingarnar af því að viðhalda slíkum birgðum yrðu m.a. þær að fjármagnskostnaður gæti varlega áætlað orðið yfir 300 milljónir kr. á ári. „Birgðaáhætta yrði afskaplega þungbær. Ekki er um að ræða reiknanlega stærð þar sem hún getur sveiflast gríðarlega dag frá degi. En tap vegna verðfalls birgða gæti auðveldlega hlaupið á hundruðum milljóna króna,“ segir ennfremur í umsögn olíufélagsins.

Félagið fagnar því að stjórnvöld hafi tekið þetta mál á dagskrá enda sé það mikilvægt fyrir land og þjóð en hins vegar sé það stjórnvalda að tryggja þjóðaröryggi, ekki einkaaðila.

„Rekstrargrundvöllur Skeljungs, sem og annarra olíufélaga, myndi ekki geta staðið undir fjármagnskostnaði sem félli á félögin ef þau væru ein látin bera þessa skyldu óstudd. Ekkert félag gæti réttlætt það að flytja inn, selja og afgreiða eldsneyti með þeim hætti sem Skeljungur gerir með þá rekstraráhættu sem óumflýjanlega myndi fylgja því að halda birgðir á þennan hátt.

Í ljósi þessa telur Skeljungur að það sé algjör nauðsyn að í lögum sem þessum yrði gert ráð fyrir því að aðilarnir sem bæri að halda neyðarbirgðir gerðu það í góðu samstarfi og með fjárhagsaðstoð frá ríkinu,“ segir í umsögn Skeljungs um þessi áform.

Í greinargerð ráðuneytisins segir að áformað sé að birgðaskyldan verði innleidd í skrefum á um sjö ára tímabili og að Orkustofnun fari með eftirlit með framkvæmd laganna. omfr@mbl.is