Ungar mömmur Jóhanna, Alexandra og Vigdís hafa allar nokkuð jákvæða upplifun af því að vera ungar mæður.
Ungar mömmur Jóhanna, Alexandra og Vigdís hafa allar nokkuð jákvæða upplifun af því að vera ungar mæður. — Ljósmynd/Malen Áskelsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrjár ungar og metnaðarfullar mæður í fæðingarorlofi hafa nýlega vakið athygli í hlaðvarpsheiminum með nýju hlaðvarpi sem heitir því viðeigandi nafni Ungar mömmur. Allar eru þær rétt skriðnar yfir tvítugt og elska að ala upp börnin sín en þótti…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Þrjár ungar og metnaðarfullar mæður í fæðingarorlofi hafa nýlega vakið athygli í hlaðvarpsheiminum með nýju hlaðvarpi sem heitir því viðeigandi nafni Ungar mömmur. Allar eru þær rétt skriðnar yfir tvítugt og elska að ala upp börnin sín en þótti vanta afþreyingar- og fræðsluefni fyrir ungar mömmur, eins og þær sjálfar.

Vigdís Helga Eyjólfsdóttir, 21 árs mamma Ágústs Kára, Alexandra Ósk Guðjónsdóttir, 23 ára mamma Elmars Darra, og Jóhanna Kristín Jóhannsdóttir, 23 ára mamma Nathaníels Arnars og Baltasars Krumma, kynntust í meðgöngusundi með strákana sína og hafa verið perluvinkonur síðan.

„Hlaðvarpið Ungar mömmur varð til þegar Vigdís var að tala um að hana langaði að gera instagramreikning sem myndi sýna móðurhlutverkið. Við erum ekki menntaðar í neinu uppeldistengdu en okkur fannst vanta eitthvað fyrir verðandi mömmur og ungar mömmur til að fylgjast með og fá að heyra allt sem mömmulífið hefur upp á að bjóða. Hlaðvarpshugmyndina kom svo Alexandra með ofan á það en hún hlustar mikið á hlaðvörp og fannst sá vettvangur koma okkar sýn á mömmulífið betur fram en að vera bara instagramaðgangur,“ útskýra vinkonurnar í samtali við Morgunblaðið.

Móðurhlutverkið, fæðingarsögur og fræðsla

Hlaðvarpið Ungar mömmur fjallar um móðurhlutverkið og allt sem því fylgir en einnig koma þar fram fæðingarsögur og er planið að fá einnig fagaðila til að fjalla um alls konar sem tengist bæði mæðrum og börnum.

„Áherslan okkar er í raun að segja frá öllum hliðum og vera eins raunverulegar og við getum. Lífið er ekki alltaf bara dans á rósum með ungbarn en á sama tíma erum við svo þakklátar og stoltar af börnunum okkar,“ segja vinkonurnar. „Það besta við móðurhlutverkið er að geta notið þess að eyða tíma með barninu mínu sem ég bjó til. Að sjá þegar karakterinn hans verður greinilegri og sjá að ástin verður bara sterkari og sterkari. Þetta er tilfinning sem er í rauninni ekki hægt að lýsa,“ segir Vigdís spurð út í móðurhlutverkið. Erfiðast finnst henni þó svefnleysið sem fylgir því að eiga ungt barn og það hversu fastur maður er.

Einmanaleikinn krefjandi

„Ég stjórna ekki lengur ferðinni heldur Ágúst, svo ef mig langar að fara eitthvað þarf það að vera í kringum lúrana og matartímann hjá honum,“ segir Vigdís, sem segir einmanaleikann í fæðingaolofi einnig krefjandi.

„Sérstaklega á veturna. Ef það væri ekki fyrir stelpurnar væri ég örugglega að ganga af göflunum,“ viðurkennir Vigdís.

Best og verst að sjá börnin stækka

Jóhanna tekur undir með Vigdísi en hún segir að það besta við móðurhlutverkið sé, að sínu mati, að sjá strákana sína stækka, dafna og þroskast.

„Mér þykir ótrúlega vænt um allt sem Nathaníel gerir fyrir okkur foreldrana á leikskólanum og hvað strákunum þykir vænt hvorum um annan. Það að sjá börnin stækka er þó einnig eitt af því erfiðasta við að vera mamma, segir Jóhanna. „Þetta er bara mjög stórt og krefjandi hlutverk. Sumir dagar eru frábærir en aðrir mjög erfiðir,“ segir hún.

Allar eru þær sammála um að heilt yfir sé upplifun þeirra af því að vera ung mamma góð þó að það geti einnig verið krefjandi.

„Ég hef ekki mætt neinum fordómum, bara endalausum leiðbeiningum um hvað sé best og hvað sé verst, sem ég er í raun bara þakklát fyrir þótt stundum gangi það of langt,“ segir Alexandra.

Vigdís segist þó alltaf hafa ætlað að verða ung mamma.

„Ég nýt þess í botn að vera svona ung með Ágúst og vera svona hraust. Það kemur alveg fyrir að fólk horfir á mig eins og ég sé krakki með krakka en ég er líka mjög lágvaxin og lít ekkert endilega út fyrir að vera yfir tvítugu,“ segir Vigdís kímin.

Jóhanna er afar þakklát fjölskyldu sinni fyrir að hafa stutt við sig og kærasta sinn þegar þau eignuðust eldri strákinn sinn, Nathaníel, en þá var hún aðeins 20 ára.

„Ég hef aldrei lent í neinu leiðinlegu viðmóti frá fólki og allir í fjölskyldunni studdu vel við okkur þegar við eignuðumst Nathaníel,“ segir hún.

Vilja sýna raun- veruleika mæðra

„Markmið okkar er að gefa út efni sem sýnir raunveruleikann og sýna öðrum verðandi mömmum að þær eru ekki einar að upplifa hlutina og það sé í lagi að tala um sína upplifun alltaf, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt,“ segja vinkonurnar sem eru sammála um að viðtökurnar við hlaðvarpinu hafi verið frábærar frá því þær gáfu út fyrsta þáttinn í lok nóvember. Þær segja hlaðvarpið þó eins og er áhugamál.

„Þetta má ekki verða kvöð, þetta verður að vera gaman. Markmið okkar er að senda út tvo til fjóra þætti í mánuði,“ segja þær.

Það sama má segja um instagramsíðu vinkvennanna, Ungar mömmur, en þar skiptast þær á um að sýna frá sínu daglega lífi með börnunum.

„Hver okkar er með „story“ einu sinni í viku og svo setjum við inn uppskriftir að mat sem við gefum strákunum og fleira. Svo er líka alltaf gaman þegar fólk sendir á okkur spurningar eða segir okkur frá sinni reynslu af einhverju sem við erum að tala um,“ segja vinkonurnar.

Vigdís, Alexandra og Jóhanna eru með mjög fjölbreyttan smekk á hlaðvörpum en K100 fékk þær til að deila fimm áhugaverðum hlaðvörpum sem þær mæla með.

Eftirmál Áhugavert og fræðandi hlaðvarp þar sem tvær fyrrverandi fréttakonur taka upp gömul fréttamál og fylgja þeim eftir.

Spjallið Það er gaman að gleyma sér í að hlusta á þær Gurrý Jóns, Sólrúnu Díegó og Línu Birgittu. Það gerir heimilisverkin skemmtilegri.

Myrka Ísland Tvær vinkonur sem tala um hörmungar Íslandssögunnar eins og morð, draugasögur og fleira. Mjög gaman að hlusta á þær meðan maður er að dunda sér við prjónaskapinn.

Illverk Spennandi „true crime“-hlaðvarp um fullt af málum sem maður myndi annars aldrei heyra um.

R/slash Maður les sögur og frásagnir af reddit með miklum tilþrifum.