Skoðun Búast má við að margir verði ósáttir við niðurstöðu á skoðunarstöðvum eftir að yfirvöld ákváðu að herða reglur um ökutækjaskoðun.
Skoðun Búast má við að margir verði ósáttir við niðurstöðu á skoðunarstöðvum eftir að yfirvöld ákváðu að herða reglur um ökutækjaskoðun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Breytingar verða á fyrirkomulagi ökutækjaskoðunar um næstu mánaðamót þegar ný skoðunarhandbók ökutækja tekur gildi. Harðar verður tekið á ýmsum atriðum við skoðun bíla en verið hefur og mun það leiða til þess að fleiri fá grænan miða og boð um endurskoðun eða þá akstursbann

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Breytingar verða á fyrirkomulagi ökutækjaskoðunar um næstu mánaðamót þegar ný skoðunarhandbók ökutækja tekur gildi. Harðar verður tekið á ýmsum atriðum við skoðun bíla en verið hefur og mun það leiða til þess að fleiri fá grænan miða og boð um endurskoðun eða þá akstursbann.

Um er að ræða aðlögun að reglugerðarverki Evrópusambandsins og hefur staðið til að innleiða þessar breytingar hér um hríð. Upphaflega áttu þær að taka gildi í ársbyrjun 2022 en því var frestað.

Á vef Samgöngustofu er stiklað á stóru yfir þær breytingar sem gerðar verða 1. mars. Þar kemur fram að hér eftir verða viðmið um virkni handbremsu hert þannig að það sem áður var lagfæring verður nú endurskoðun. Ef stöðuhemlar á stærri ökutækjum eru óvirkir verður notkun þeirra bönnuð. Ef einhver ljós á bílum eru óvirk þarf bíllinn að koma í endurskoðun í stað þess að eigendum þeirra sé treyst til að láta skipta um peru eins og verið hefur. Ef hemlaljós virka ekki verður bíllinn settur í akstursbann.

Þá er ekki von til þess að sleppa í gegnum skoðun ef dekk bíla eru orðin léleg. „Alvarlegar skemmdir eða sprungur valda nú notkunarbanni en var endurskoðun áður, og mikið slit á hjólbörðum stærri ökutækja er alltaf endurskoðun,“ segir á vef Samgöngustofu.

Algengt verð á skoðun fyrir fólksbíl er í kringum 15 þúsund krónur. Endurskoðun innan frests kostar ríflega tvö þúsund krónur en endurskoðun eftir að frestur rennur út getur kostað hátt í 10 þúsund krónur.

Ljóst má vera að þessar breytingar munu koma illa við marga enda fela þær í sér aukinn kostnað vegna endurskoðana og talsvert umstang. Þegar reglurnar taka gildi má einungis fara beint frá skoðunarstöð á verkstæði ef niðurstaða skoðunar segir svo. Flestir þekkja það þó vel að ekki er alltaf hlaupið að því að fá tíma á verkstæði. Þá er augljóst að þetta hentar þeim illa sem þurfa að fara um langan veg til að láta skoða bílinn sinn.