Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika hafa nú öll birt uppgjör ársins 2022. Samanlagður hagnaður bankanna nam tæpum 72 milljörðum, samanborið við tæplega 92 milljarða hagnað árið 2021. Því dregst hagnaður þeirra saman um tæplega 22% milli ára

Björn Leví Óskarsson

blo@mbl.is

Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika hafa nú öll birt uppgjör ársins 2022. Samanlagður hagnaður bankanna nam tæpum 72 milljörðum, samanborið við tæplega 92 milljarða hagnað árið 2021. Því dregst hagnaður þeirra saman um tæplega 22% milli ára.

Arion banki hagnast mest

Arion banki hagnaðist um 25,4 milljarða á árinu 2022 og leggur stjórn bankans til að greiddur verði út arður að fjárhæð 12,5 milljörðum króna, eða um helming hagnaðar síðasta árs. Arðsemi eigin fjár nam 13,7% á árinu, sem er hæsta arðsemishlutfall bankanna. Lán til viðskiptavina jukust um tæp 16% á árinu. Þar af jukust lán til fyrirtækja um 22% en lán til einstaklinga um 10,6%, aðallega í flokki íbúðalána. Eigið fé bankans lækkaði um rúma 32 milljarða króna á árinu, vegna arðgreiðslu og endurkaupa á eigin bréfum. Gjaldfærðir voru 1,6 milljarðar á árinu vegna kaupaaukakerfis bankans til starfsmanna sinna. Þá jókst vaxtamunur Arion í 3,1 úr 2,8%.

Helmingi minni arðsemi

Hagnaður Landsbankans nam 17 milljörðum króna eftir skatta á árinu 2022, sem er töluvert minni hagnaður en árið þar á undan. Útlán til fyrirtækja jukust um 92 milljarða króna, sem jafngildir um 10% vexti að teknu tilliti til gengisáhrifa. Íbúðalán jukust hjá bankanum um 59 milljarða. Arðsemi eigin fjár var á fjórða ársfjórðungi 8,2% og nam 6,3% á árinu öllu. Arðsemi eigin fjár er því um helmingi minni en hjá hinum þremur bönkunum. Þennan samdrátt í arðsemi má skýra af lækkuðu gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest, sem nú eru til sölu. Eyrir Invest er stór hluthafi í Marel, en gengi bréfa Marels hafa lækkað um 24% síðastliðna tólf mánuði. Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 12% á milli ára, sem er hlutfallslega minnsta aukningin. Þá jókst vaxtamunur Landsbankans úr 2,3% í 2,7% á milli ára. Stjórn bankans hyggst leggja til að greiða út 8,5 milljarða króna í arð á þessu ári, en samtals greiddi bankinn rúma 20 milljarða í arð í fyrra.

65% meiri vaxtatekjur Kviku

Kvika banki birti uppgjör sitt við lok markaða í gær. Hagnaður bankans eftir skatta nam tæpum 5 milljörðum. Hreinar vaxtatekjur námu 7,7 milljörðum, sem er 65% aukning á milli ára. Þóknanatekjurnar drógust hins vegar saman um 6%. Hreinar tekjur af tryggingastarfsemi námu 4,2 milljörðum sem er eilítið minna en í fyrra. Hreinar fjármunatekjur námu aðeins tæpum 300 þúsund krónum, en voru tæpir sex milljarðar árið áður. Afkomuspá Kviku fyrir þetta ár eru 9,4 milljarðar, sem nemur 22% arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta. Stjórn Kviku leggur til að greiddir verði út tæpir 1,9 milljarðar í arð á árinu, sem nemur 40% af hagnaði Kviku eftir skatta. Nokkur ár eru síðan Kvika greiddi síðast út arð.

Fimm milljarða endurkaup

Íslandsbanki skilaði 24,5 milljarða hagnaði á síðasta ári, samanborið við 23,7 milljarða hagnað árið áður, og er því eini bankinn sem eykur hagnað sinn á milli ára. Stjórn bankans leggur til 12,3 milljarða arðgreiðslu. Hreinar vaxtatekjur jukust um tæp 27%, og námu þær 43 milljörðum. Þóknanatekjur bankans námu 14 milljörðum, sem er 9,4% aukning. Vaxtamunur bankans jókst úr 2,4% í 2,9%. Heildareignir Íslandsbanka voru bókfærðar á 1.566 milljarða króna í lok síðasta árs, og var eiginfjárhlutfall bankans 22,2%. Í skýrslu stjórnar kom fram að hann hygðist hefja endurkaup á eigin hlutabréfum en upphæðin nemur fimm milljörðum. Kom fram að Seðlabankinn hafi í ljósi efnahagsóvissu og óstöðugleika beðið íslensku bankana um að stíga varlega til jarðar þegar kemur að útgreiðslu eigin fjár á næstunni.

Arðgreiðslur til ríkisins

Arðgreiðslur til íslenska ríkisins, sem er 42,5% eigandi í Íslandsbanka og svo gott sem alls hlutafjár í Landsbankanum munu alls nema um 12 milljörðum króna á þessu ári. Þá eru ótaldar þær upphæðir sem renna til ríkissjóðs í formi skattgreiðslna.

Í hnotskurn

Hagnaður bankanna dregst saman um 22% milli ára.

Vaxta- og þjónustutekjur aukast en tap er af fjáreignum og fjárskuldum.

Fyrirhugaðar arðgreiðslur stóru viðskiptabankana nema 33 milljörðum króna.

12 milljarðar í arðgreiðslur renna til íslenska ríkisins.