Í brennidepli Forsvarsmenn Eflingar og Samtaka atvinnulífsins komu saman til fundar í Karphúsinu í gærmorgun og svöruðu spurningum fjölmiðla.
Í brennidepli Forsvarsmenn Eflingar og Samtaka atvinnulífsins komu saman til fundar í Karphúsinu í gærmorgun og svöruðu spurningum fjölmiðla. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samkomulag ríkissáttasemjara og Eflingar, um að una niðurstöðu Landsréttar í innsetningarmáli embættisins gegn verkalýðsfélaginu, er ekki skuldbindandi. Samkvæmt lögum um meðferð einkamála var hvorugum aðilanum heimilt að afsala sér málskotsrétti…

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Samkomulag ríkissáttasemjara og Eflingar, um að una niðurstöðu Landsréttar í innsetningarmáli embættisins gegn verkalýðsfélaginu, er ekki skuldbindandi.

Samkvæmt lögum um meðferð einkamála var hvorugum aðilanum heimilt að afsala sér málskotsrétti sínum áður en Landsréttur kvað upp úrskurð sinn í málinu á mánudag. Ríkissáttasemjari gæti því enn reynt að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.

Dósent í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands staðfestir þetta.

Ekki formlegar viðræður

Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi stóðu fundir enn yfir í Karphúsinu. Formlegar viðræður voru þó enn ekki hafnar. Samkvæmt heimildum blaðsins er það forsenda frekari viðræðna, af hálfu Samtaka atvinnulífsins, að verkfalli verði frestað meðan á þeim stendur.

Á hádegi í gær skall á verkfall olíubílstjóra hjá Olíudreifingu og Skeljungi, auk verkafólks hjá Samskipum, Berjaya-hótelum og Edition-hótelinu. Klukkan níu í gærmorgun höfðu fulltrúar Eflingar og Samtaka atvinnulífsins mætt til fundar í Karphúsinu sem Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, boðaði til kvöldið áður. Hlé var gert á fundum klukkan 17 og komu aðilar aftur til fundar klukkan 20.

Að óbreyttu verða eitt til tvö þúsund manns án gistingar um helgina vegna verkfalls hótelstarfsfólks, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Mikil ásókn hefur verið að bensínstöðvum olíufélaganna og margir ökumenn vilja tryggja sér eldsneyti þegar við blasir ótímabundið verkfall olíubílstjóra og tankar bensínstöðvanna tæmast.

Deila Eflingar og SA

Frekari verkföll félaga í Eflingu hófust á hádegi í gær.

SA fara fram á að verkföllum verði frestað svo formlegar viðræður geti hafist.

Ekki má semja um að una úrskurði áður en hann er kveðinn upp.

Ríkissáttasemjari gæti því reynt að kæra til Hæstaréttar.