Langadalsá Ekki er mikið vatn í ánni sem fyrirhugað er að virkja.
Langadalsá Ekki er mikið vatn í ánni sem fyrirhugað er að virkja. — Ljósmynd/úr skipulagslýsingu
Neyðarlínan hyggst reisa smávirkjun við hringveginn um Jökuldalsheiði og er henni ætlað að leysa af hólmi dísilrafstöð við fjarskiptastöð á svæðinu. Staðurinn er í Múlaþingi og hefur heimastjórn Fljótsdalshéraðs samþykkt að kynna skipulagslýsingu nýs deiliskipulags sem gerir ráð fyrir virkjun

Neyðarlínan hyggst reisa smávirkjun við hringveginn um Jökuldalsheiði og er henni ætlað að leysa af hólmi dísilrafstöð við fjarskiptastöð á svæðinu. Staðurinn er í Múlaþingi og hefur heimastjórn Fljótsdalshéraðs samþykkt að kynna skipulagslýsingu nýs deiliskipulags sem gerir ráð fyrir virkjun.

Smávirkjunin er fyrirhuguð við Gestreiðarstaðaháls, öðru nafni Axlarkoll, sem stendur við vegamót hringvegar og Vopnafjarðarvegar. Rafstöðin mun nýta vatn Langadalsár sem rennur við hálsinn norðanverðan. Þar er talið nægjanlegt vatn til að framleiða 50-60 kílóvött. Aðeins lítill hluti rennslisins verður nýttur við framleiðsluna.

Á Gestreiðarhálsi er fjarskiptastöð sem keyrð er með dísilolíu allan sólarhringinn, alla daga ársins. Orkunotkun er að jafnaði 5 kW og eru notaðir um 11 þúsund lítrar af olíu á ári.

Í skipulagslýsingu er nefnt að afgangsorkan gæti nýst fyrir ferðatengda þjónustu, svo sem veitingasölu og salerni, sem og hleðslustöð og lýsingu á áningarstað við hringveginn.

Þótt virkjunin sé lítil þarf að gera lítið uppistöðulón í mynni gils sem áin rennur í og leggja þaðan niðurgrafna vatnspípu um 700 metra leið að stöðvarhúsi. Miðað er við að stöðvarhús verði innan við 10 fermetrar að stærð og það verði smíðað á verkstæði og flutt fullbúið með túrbínu á virkjanastað.

Gert er ráð fyrir að Neyðarlínan, Míla sem á fjarskiptastöðina og Orkusjóður fjármagni byggingu stöðvarinnar. Fram kemur að Neyðarlínan hefur byggt sambærilegar smárafstöðvar og rekur þær með góðum árangri. helgi@mbl.is