Umkringd Framherjinn Ólöf Sigríður Kristinsdóttir tvöfaldar forystu Íslands með frábæru skoti í vítateig Skotlands, umkringd varnarmönnum.
Umkringd Framherjinn Ólöf Sigríður Kristinsdóttir tvöfaldar forystu Íslands með frábæru skoti í vítateig Skotlands, umkringd varnarmönnum. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir stimplaði sig rækilega inn í íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þegar liðið mætti Skotlandi á alþjóðlega mótinu Pinatar Cup á Spáni í gær. Ólöf Sigríður, sem er einungis 19 ára gömul og samningsbundin Þrótti úr…

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir stimplaði sig rækilega inn í íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þegar liðið mætti Skotlandi á alþjóðlega mótinu Pinatar Cup á Spáni í gær.

Ólöf Sigríður, sem er einungis 19 ára gömul og samningsbundin Þrótti úr Reykjavík, var að leika sinn fyrsta A-landsleik gegn Skotlandi en hún gerði sér lítið fyrir og skoraði bæði mörkin í 2:0-sigri Íslands.

Skoska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fékk liðið nokkur dauðafæri til þess að komast yfir. Sandra Sigurðardóttir í marki Íslands stóð vaktina hins vegar vel og varði allt sem kom á markið og þá gekk leikmönnum Skotlands líka illa að hitta markrammann í mörgum frábærum færum.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn betur og Ólöf Sigríður kom Íslandi yfir strax á 50. mínútu með skoti af vítateigslínunni en Agla María Albertsdóttir átti þá fyrirgjöf frá hægri.

Ólöf Sigríður tók vel á móti boltanum, lagði hann fyrir sig, og átti þrumuskot sem fór af varnarmönnum Skota og þaðan í netið.

Hún bætti svo við öðru marki sínu og íslenska liðsins mínútu síðar og aftur var það Agla María sem vann boltann á vallarhelmingi Skota og sendi hann á Ólöfu Sigríði.

Framherjinn sendi boltann til baka á Alexöndru Jóhannsdóttur sem sendi strax aftur á Ólöfu Sigríði sem lagði boltann fyrir sig, utarlega í teignum, og skrúfaði hann svo upp í samskeytin fjær. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og Ísland fagnaði sigri.

Leikurinn var vægast sagt leikur tveggja hálfleikja en íslenska liðið mætti í raun ekki til leiks fyrr en í síðari hálfleik.

Skotar hefðu hæglega getað verið fjórum til fimm mörkum yfir í hálfleik en hálfleiksræða Þorsteins Halldórssonar skilaði sínu því liðið var mun beittara og ákveðnara í síðari hálfleik.

Íslenska liðinu hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel að skora mörk í síðustu leikjum sínum og það var því mjög ánægjulegt að sjá Ólöfu Sigríði koma inn í liðið, algjörlega óhrædda, og skora tvívegis.

Agla María og Ólöf Sigríður náðu vel saman á vellinum og Amanda Andradóttir, sem lék fremst á miðjunni, átti nokkra góða spretti.

Miðjuspilið var hins vegar til vandræða oft og tíðum og það var og verður áfram stærsti hausverkur landsliðsþjálfarans að reyna að finna lausn á því svo liðið geti bæði haldið boltanum betur innan sinna raða, sem og spilað sig út úr pressu mótherjanna.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sneri einnig aftur í leiknum en hún lék síðast með landsliðinu í 1:1-jafnteflinu gegn Frakklandi í D-riðli lokakeppni Evrópumótsins í Rotherham hinn 18. júlí á síðasta ári.

Liðið þarf svo sannarlega á henni að halda í sóknarleiknum en næsti leikur Íslands á mótinu er gegn Wales hinn 18. febrúar og liðið mætir svo Filippseyjum hinn 21. febrúar.

Skotland – Ísland 0:2

0:1 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir 50.

0:2 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir 51.

Dómari: Zuzana Valentová – Slóvakíu.

Áhorfendur: Um 100.

Ísland: (4-3-3) Mark: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Guðný Árnadóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir (Arna Sif Ásgrímsdóttir 78), Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Elísa Viðarsdóttir 64). Miðja: Dagný Brynjarsdóttir (Karólína Lea Vilhjálmsdóttir 64), Alexandra Jóhannsdóttir (Selma Sól Magnúsdóttir 81), Amanda Andradóttir (Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 64). Sókn: Sveindís Jane Jónsdóttir, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir (Berglind Björg Þorvaldsdóttir 64), Agla María Albertsdóttir.
Ónotaðir varamenn: Telma Ívarsdóttir (M), Cecilía Rán Rúnarsdóttir (M), Hlín Eiríksdóttir, Diljá Ýr Zomers, Guðrún Arnardóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir.

Ólöf Sigriður Kristinsdóttir skoraði sín fyrstu landsliðsmörk í sínum fyrsta landsleik.

Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir léku báðar sinn 109. landsleik og þetta var jafnframt fyrsti landsleikur Glódísar Perlu eftir að hún var gerð að fyrirliða liðsins.

– Þetta var fjórtándi landsleikur liðanna en Ísland hefur unnið sjö viðureignir, tvívegis hafa liðin gert jafntefli og Skotland hefur fimm sinnum fagnað sigri.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék sinn 97. landsleik og vantar nú aðeins þrjá leiki upp á að komast í 100 landsleikja klúbbinn.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir lék sinn 70. landsleik og þær Ingibjörg Sigurðardóttir og Elísa Viðarsdóttir léku báðar sinn 50. landsleik.

Þá lék Alexandra Jóhannsdóttir sinn 30. landsleik, Guðný Árnadóttir lék sinn 20. landsleik og Amanda Andradóttir sinn 10. landsleik.

Höf.: Bjarni Helgason