Stuðningur Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, segir stuðning einstaklinga við listamanninn hafa skipt miklu máli.
Stuðningur Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, segir stuðning einstaklinga við listamanninn hafa skipt miklu máli. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson var bæði þekktur fyrir óhlutbundin verk og fyrir portrettmyndir sínar en hann tók að sér fjölda slíkra verkefna fyrir einkaaðila og stofnanir. Á sýningunni Barnalán, sem opnuð var á Safnanótt, 3

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson var bæði þekktur fyrir óhlutbundin verk og fyrir portrettmyndir sínar en hann tók að sér fjölda slíkra verkefna fyrir einkaaðila og stofnanir. Á sýningunni Barnalán, sem opnuð var á Safnanótt, 3. febrúar, í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og mun standa fram á haust, má finna viðamesta portrettverkefni sem Sigurjón vann á ferlinum, verkefni sem hann tók að sér fyrir Einar Sigurðsson útvegsmann frá Vestmannaeyjum. Einar fól Sigurjóni að gera portrett af allri fjölskyldu sinni á tímabilinu 1963 til 1972.

Listfræðingurinn Aðalsteinn Ingólfsson ritar texta sýningarskrárinnar og þar segir að verkefnið sé „ólíkt öllu öðru sem hann [Sigurjón] fékkst við um dagana. Má halda því fram að það eigi sér tæpast hliðstæðu þegar rætt er um portrettverkefni, ekki einungis hérlendis heldur í alþjóðlegu samhengi.“

Sýninguna er að finna á efri hæð listasafnsins og þar eru samankomnar þær myndir sem Sigurjón vann fyrir Einar. Alls kostaði Einar gerð sautján verka, bústur, lágmyndir, sitjandi myndir og standmyndir.

Í fyrsta sinn á sama stað

„Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verk úr galleríi Einars eru sýnd á einum stað saman. Portrettin af hjónunum hafa verið sýnd oft og lágmyndirnar af börnunum voru sýndar 1968 í Unuhúsi,“ segir Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, sem leiddi blaðamann um sýninguna.

„En eins og Aðalsteinn nefnir er einstakt að einstaklingur lætur gera portrett af fjölskyldu sinni og að Sigurjón geri þetta margar myndir af einni og sömu fjölskyldunni.“

Ein myndin er sýnd sem ljósmynd vegna þess að eigandinn er búsettur í Bandaríkjunum. Verkin eru öll í eigu fjölskyldunnar. „Ég held að hver og einn fjölskyldumeðlimur eigi sína mynd,“ segir Birgitta.

Eitt verkið á sýningunni er í brenndum leir. Það er portrett af föður Einars, Sigurði Sigurfinnssyni, og var hún mótuð eftir ljósmyndum. Myndin var aldrei steypt í brons. „Hún er mjög lifandi og skemmtileg. Þetta er svolítið eins og skissa og einhver myndi segja að hún væri ófullgerð en karakterinn er þarna og hún er kannski miklu meira lifandi en ef það væri fullbúin mynd. Ég held mikið upp á hana. Hún sýnir hvað Sigurjón var öruggur í því sem hann var að gera, hver leirbútur hefur sína merkingu.“

Í ætt við egypskar drottningar

Sigurjón gerði einnig skúlptúr þar sem myndefnið var Einar með dóttur sína Auði í fanginu. Verkið fékk titilinn „Barnakarlinn“ og segir Aðalsteinn að inntak myndarinnar, foreldrakærleikurinn, hafi verið sínálægt í verkum Sigurjóns og af þessum verkum sem gerð voru fyrir Einar eigi það sér flestar hliðstæður í eldri skúlptúrum Sigurjóns, bæði að útliti og inntaki.

Þá mótaði Sigurjón einnig bústu af Einari sjálfum auk standmyndar af útgerðarmanninum sem þó var aldrei gerð í fullri stærð.

„Þegar Sigurjón gerði andlitsmyndina af Svövu Ágústsdóttur, móður þessara tíu barna, er það greinilegt að Sigurjón hefur notið þess að fá að móta kvenmannsandlit og gefa henni þessa tign sem er allt öðruvísi en portrettið af Einari sem er hefðbundið raunsæisportrett. Hún er komin upp í annað veldi því þarna er einhver stílísering og einhver innbyggð dulúð. Það er ekki bara mér sem finnst myndin vera í ætt við egypsku drottningarmyndirnar.“

Í texta Aðalsteins segir einmitt: „Myndin af Svövu hefur t.d. verið valin á allar helstu yfirlitssýningar listamannsins. Í myndlistarsögu sinni fer Björn Th. Björnsson einnig fögrum orðum um myndina og segir þar: „Reisnin með hófseminni, slétt yfirbragðið, en þó lifandi í gerð hvers smæsta forms, minnir á ekkert frekar en drottningarmyndirnar fornegypsku.““

Fann til ábyrgðar

Birgitta segist mikið hafa verið spurð hvað hafi komið til að Einar hafi falið Sigurjóni þetta verkefni. „Ég get ekki svarað því öðruvísi en að Einar, sem var mjög mikill mannvinur, hafi fundið til ábyrgðar. En eins og sonur hans Ágúst hefur tekið fram í viðtölum við Aðalstein þá var þetta ekki gert til þess að upphefja sig. Ég held að hann hafi gert það til þess að Sigurjón hefði verkefni.“

Hjá Aðalsteini kemur einnig fram að ætla megi að Einar hafi litið á það sem samfélagslega skyldu sína, sem efna- og áhrifamanns, að styðja við íslenska listamenn. Birgitta leggur áherslu á hve miklu máli stuðningur fólks á borð við Einar hafi skipt í gegnum tíðina og tekur dæmi af því hvernig safn Sigurjóns varð til.

„Þegar Sigurjón lést árið 1982 stóð ég frammi fyrir stóru verkefni því þarna var vinnustofa sem þarfnaðist viðgerðar og fullt af verkum. Þá var mér ráðlagt að stofna safn. Mér tókst það með aðstoð mjög margra. Það var þónokkur hópur manna sem höfðu áhuga á list Sigurjóns umfram portrettin og sáu að þarna voru verðmæti sem þurfti að hlúa að.“ Ýmsir, þar á meðal fólk sem hefur ekki viljað láta nafns síns getið, hafi lagt hönd á plóg með framlögum, þegar átti að endurbyggja húsnæðið fyrir safnið.

Fjölskyldurekstur

„Við fjölskyldan öfluðum tveggja þriðju af byggingarkostnaðinum á móti framlögum ríkis og borgar.“ Safnið var gert að sjálfseignarstofnun árið 1989 en fjármagn frá borginni var skorið niður í hruninu og í kjölfarið var sjálfseignarstofnunin lögð niður árið 2012, safnið gefið íslenska ríkinu og rekið innan Listasafns Íslands.

„Ég hélt að við værum komin í góða höfn en það var ekki staðið við gerðan samning. Það endaði svo þannig að í desember 2021 var rekstri safnsins útvistað til fjölskyldunnar. Þrátt fyrir mjög þröngan fjárhag höfum við haldið uppi metnaðarfullu safnastarfi í anda þess sem var,“ segir Birgitta og bætir við að enn þann dag í dag skipti stuðningur einstaklinga miklu máli fyrir safnið.

Önnur sýning opnuð í aðalsal safnsins

Úr ýmsum áttum

Í stóra salnum á neðri hæð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar var nýverið opnuð önnur sýning sem ber titilinn Úr ýmsum áttum. Þar eru sýnd lykilverk Sigurjóns frá 1938 til 1982 úr ólíkum efnum, svo sem gifsi, bronsi, marmara og tré. Heiti sýningarinnar er sagt skírskota bæði til fjölbreytni verkanna og eignarhalds þeirra. Hluti verkanna er úr stofngjöf Birgittu Spur til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, sjálfseignarstofnunar sem fyrir áratug var afhent Listasafni Íslands, en önnur eru úr einkasafni erfingja Sigurjóns.

Á sýningunni má meðal annars finna afsteypu af verkinu „Snót“ frá 1945 sem er fyrsta myndin sem Sigurjón vann í stein þegar hann kom aftur til Íslands eftir langa dvöl í Danmörku. Einnig er til sýnis verk unnið í tré sem skartar hinum óvenjulega titli „Of hár blóðþrýstingur“ og er frá 1979 og verkið „Börn að leik“ frá 1938.