Guðjón Smári Agnarsson
Guðjón Smári Agnarsson
Guðjón Smári Agnarsson: "Að halda því fram að hægt sé að hækka laun árlega um 5-10% án þess að það fari út í verðlagið er blekking. Verðbólgin saga okkar í áratugi sýnir það."

Samtök atvinnulífsins og fyrirrennarar þeirra hafa á þessari öld samþykkt tvöfalt meiri kauphækkanir til íslenskra launþega en kollegar þeirra í Skandinavíu hafa gert. Niðurstaðan er sú að verðbólgan hér er tvöfalt til þrefalt meiri en þar. Þetta hefur framkvæmdastjóri SA skrifað um í greinum. Samt hamast hann nú á Seðlabankanum, líklega í leikaraskap, og fer upp að hlið verkalýðsforingja sem viðurkenna ekki staðreyndir og þrástagast á því að launahækkanir hafi engin áhrif á verðbólgu. Þeir foringjar tala eins og allir séu skuldugir upp fyrir haus; hugsa þar af leiðandi ekki um þá félagsmenn sem komnir eru yfir miðjan aldur og komnir vel á veg með að greiða niður húsnæðislánin og farnir að safna sparnaði.

Venjuleg fyrirtæki þola ekki nema 1 til 2 prósent launahækkanir á ári miðað við enga verðbólgu til langs tíma litið (3-4 prósent miðað við 2% verðbólgu sem sumir telja æskilega). Að halda því að fólki að hægt sé að hækka laun árlega um 5-10% án þess að það fari út í verðlagið er blekking og popúlismi. Verðbólgin saga okkar í áratugi staðfestir það. Ég skora á Ásgeir vaxtahrók og hans fólk að gefast ekki upp þrátt fyrir ágjöf frá fólki sem virðist vilja verðbólgu, halda áfram baráttunni við verðbólguna og kýla hana niður.

Höfundur er viðskiptafræðingur.