Sveinbjörn Birgisson fæddist í Reykjarvík 17. september 1968. Sveinbjörn lést 2. febrúar 2023 á Landspítalanum. Foreldrar hans eru Elín Margrét Sigurjónsdóttir og Birgir Sveinbjörnsson. Systkini eru Sigríður Birna Birgisdóttir, Ingibjörg Birgisdóttir, Sigurjón Halldór Birgisson, Sævar Birgisson og Rúnar Birgisson. Útför hans fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 16. febrúar 2023, kl. 14.

Slokkna eitt af öðru

augnaljós er skinu

bjart um brautu mína.

Horfinn er mér hjartkær

frændi sem veitti mér

yl um ævi sína.

Harmur er í huga þegar ég minnist elsku systursonar míns, sem skyndilega er horfinn okkur eftir snörp og erfið veikindi. Hann sem var alltaf nálægur hvort sem hann var hér heima eða á ævintýraferðum um veröldina. Minningar merla, góðar og ljúfsárar og þær eiga eftir að ylja mér um ókomin ár. Erla perla voru oftar en ekki upphafsorðin í símtölum og þegar við hittumst. Alltaf valdi hann fínustu kaffihúsin og flottustu búðirnar til að hitta mig og hafði á orði að vonandi væri þetta nú nógu gott fyrir fínu frúna. Hugurinn reikar til notalegra stunda þar sem setið var yfir kaffibolla og þá naut frændi sín vel. Aldrei þreyttist hann á að spranga með mér mér í búðir, hélt á öllum pokunum eins og sannur herramaður og alltaf var stutt í grín og glens. Ævinlega spaugsamur og galsi í honum þó undir slægi viðkvæmt hjarta. Við hittumst einnig oft erlendis, bæði í Svíþjóð, Noregi og á Spáni. Bjössi bauð mér sérstaklega til Svíþjóðar þegar hann átti heimili þar og þá var honum mikið í mun að sýna mér hvernig hann byggi og fór með mig vítt og breitt um svæðið. Það er ómetanlegt að eiga slíkar minningar nú þegar komið er að kveðjustund.

Hann var ævintýragjarn, mætti oft á svæðið án þess að nokkur vissi að á honum væri von og var svo farinn aftur áður en við væri litið. Hann vildi koma á óvart, það var hans mottó. Oft sendi hann skilaboð með engum fyrirvara og þá þurfti að bregðast hratt við og drífa sig að hitta gulldrenginn, en það kallaði ég hann oft. Aldrei neitt hálfkák. Drifið í öllu sem gera þurfti, hittingar ákveðnir í einum hvelli og alltaf var jafn gaman hjá okkur. Já ótal minningar leita á hugann og ég kveð Bjössa minn eða prinsinn eins og hann var kallaður af mínu fólki með þessu ljóði.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum.

Að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Arndís Stefánsdóttir)

Þín

Erla.

Að kveðja ástkæran frænda, jafnaldra, bekkjarbróðir, ferðafélaga lífsins allt of snemma er ekki það sem maður á von á. Það er stórt skarð höggvið í hópinn okkar sem ekki verður aftur fyllt. Elsku Bjössi okkar var æðrulaus í veikindum sínum og vildi að við hefðum sem allra minnstar áhyggjur af sér. Hann naut þess samt sem áður að hafa okkur hjá sér síðustu stundirnar og vildi ekki sleppa okkur.

En minningarnar, maður minn, þær ylja í sorginni. Bjössi var þátttakandi í lífi mínu frá því ég man fyrst eftir mér. Við vorum systrabörn, Elín og Erla voru mæður okkar. Við ólumst upp sem ein stór fjölskylda. Merkisteinssystkinin sex, við á Háeyrarvöllunum og svo nutum við þeirra forréttinda að hafa ömmu, afa og Guggu í næsta húsi. Elskulegi Eyrarbakki, þar sem fjaran, hópið og nánasta umhverfið var einn stór leikvöllur.

Þar var Bjössi, grannur og knár með sitt svarta úfna hár sem mátti helst ekki klippa, fremstur í flokki í leik og starfi. Árin liðu og við tóku viðburðarík unglingsár, með sveitaböllum, útihátíðum og gleði og alltaf var Bjössi til staðar. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa Bjössa mér við hlið á öllum stóru stundum lífs míns, þar sem hann var ávallt hrókur alls fagnaðar. Lét sig ekkert muna um að ferðast á milli landa ef Bára frænka vildi hitta hann á Spáni eða bara ílengjast þar þangað til ég kom. Hann var ævintýragjarn og fannst ómögulegt að dveljast of lengi á sama stað, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland og Spánn heilluðu hann. Ég mun sakna símhringinganna og fallegu skilaboðanna; Bára frænka, ertu ekki til í að skreppa í bæinn og kíkja á kaffihús með mér, svo getum við líka skoðað mannlífið í leiðinni. Við Gunnar munum sakna heimsóknanna og allra góðu ráðanna þinna, elsku Bjössi. Lífið verður aldrei eins án þín.

Þín

Bára frænka og Gunnar.

Skilaboð í símanum: „Förum í Svefneyjar á morgun og tökum Skáldið með.“ Ég læt bíða með að svara því ég veit að minn maður hefur ekki lokið máli sínu. Korter líður. Önnur skilaboð koma: „Ertu dauður, þetta er ekki flókið, keyrum í Hólminn og tökum Baldur út í Flatey.“ Bjössi hafði ekki mörg orð um hlutina og fljótur var hann að bregðast við ef ég tók undir hans tillögur. Þá var hann manna glaðastur og lék á als oddi. Við fórum vissulega saman í Svefneyjar og áttum þar eftirminnilegar stundir.

Ég hafði ekki mikil kynni af Bjössa fyrr en eftir að pabbi hans dó. Þá fór hann að koma heim til okkar. Hann ræddi mikið um pabba sinn og hafði gaman af að segja mér sögur af honum. Ljóst var að hann saknaði hans mikið og vildi greinilega deila minningum um hann með mér.

Bjössi hafði ákveðnar skoðanir á málum og mönnum. Hann var ekki hrifinn af auðstétt landsins og fengu menn úr þeim hópi margir hverjir afar slaka dóma svo ekki sé sterkar til orða tekið. Þeir sem minna máttu sín í þjóðfélaginu áttu hauk í horni þar sem Bjössi var. Það var hans fólk og því var hann alltaf boðinn og búinn að aðstoða eftir föngum.

Það var engin lognmolla þar sem Bjössi var, því fékk ég að kynnast. Margar eru minningarnar, Bjössi. Til að mynda í Svíþjóð þegar ég heimsótti þig ásamt Eysteini tengdasyni mínum og við dvöldum hjá þér í nokkra daga. Þá var veisla í mat og drykk á hverju kvöldi og þá sýndir þú hæfileika þína sem ágætis kokkur. Á daginn fórstu með okkur í bíltúr og sýndir okkur nánasta umhverfi. Sömu sögu er að segja þegar við heimsóttum þig á Spáni. Já sögurnar eru orðnar margar en þær verða ekki sagðar hér í þessari fátæklegu minningargrein.

Það er sorglegt og erfitt að sætta sig við það hversu líf þitt tók skjótan endi. Það er aðeins rúmur mánuður síðan við hittumst síðast og ræddum málin. Ég veit að þú vissir meira en ég, þegar þú ræddir þar um framtíðina án þess að þú hefðir nokkur orð um hversu heilsa þín var orðin alvarleg. Af yfirvegun og stillingu og án þess að kvarta barðist þú við banvænan sjúkdóm. Þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér.

Svo hittumst við í Svefneyjum.

Við sendum öllum ættingjum og vinum Bjössa okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Þórður

og Lilja.