Guðni Albert Jóhannesson fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1951. Hann lést á Landakotsspítala 30. janúar 2023.

Guðni var sonur hjónanna Jóhannesar Guðnasonar eldavélasmiðs, f. 1921, d. 1990, og Aldísar Jónu Ásmundsdóttur húsmóður, f. 1922, d. 2008, en þau bjuggu á Hverfisgötu 58. Systkini hans eru Sigríður Svanhildur, f. 1943, Ásmundur, f. 1945, Auður, f. 1947, og Arnbjörn, f. 1958.

Guðni kvæntist Huldu Bryndísi Sverrisdóttur, f. 6.2. 1953, hinn 17. ágúst 1974. Foreldrar hennar voru Sverrir Hermannsson alþingismaður, ráðherra og bankastjóri, f. 1930, d. 2018, og Greta Lind Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 1931, d. 2009. Börn Guðna og Bryndísar eru: 1) Gunnhildur Margrét læknir, f. 1973, börn hennar og Arnars Hartmannssonar eru Kristín, f. 1998, og Ívar, f. 2002; 2) Sverrir Páll leikari, f. 1978, dætur hans eru Salka, f. 2004, og Sísí, f. 2006, með Emelie Uggla, og Blanka, f. 2012, með Josefin Ljungman.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1971 og lagði stund á grunnnám í verkfræði við Háskóla Íslands næstu tvö árin. Haustið 1973 hóf hann nám við Lunds Tekniska Högskola í Svíþjóð, lauk grunnnáminu þar, vann við skólann með námi og útskrifaðist síðan með doktorsnafnbót í byggingareðlisfræði vorið 1981.

Fjölskyldan fluttist til Íslands þá um sumarið og Guðni hóf störf við Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og vann síðar sem sjálfstætt starfandi verkfræðingur. Hann var um tíma formaður Alþýðubandalagsfélagsins í Reykjavík og var einnig meðal þeirra sem stofnuðu byggingafélagið Búseta.

Haustið 1990 tók Guðni við prófessorsstöðu við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi. Þar bjó fjölskyldan til ársins 2008, er Guðni tók við stöðu orkumálastjóra á Íslandi. Hann lét af störfum sjötugur, árið 2021.

Útför Guðna fer fram í Dómkirkjunni í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 13.

Ég var átta ára gömul þegar mömmu og pabba fæddist fjórða barnið. Ég var algerlega heilluð af þessu veraldarinnar undri sem hann litli bróðir minn var frá fyrsta degi. Hann var afskaplega fallegur að mínum dómi og einstaklega skemmtilegt barn. Hann var sérlega fljótur til máls og ég gleypti á tímabili hvert orð sem hann sagði og fannst að hann væri ekkert minna en spekingur. Hann var það fyrsta af okkur systkinum sem fékk pláss á leikskóla hálfan daginn á Barónsborg og ég var ekkert smá montin þegar ég fékk að sækja hann á leikskólann. Krakkar sem ég hitti fengu þá að dást að honum og brást það ekki að þau gerðu það þangað til einu sinni var ég að sækja eftir að þessi elska hafði verið veikur af hlaupabólu og ég hitti einhverja sem höfðu verið með mér í sveit um sumarið og þeir sögðu: „Er þetta þessi fallegi bróðir sem þú ert alltaf að monta þig af!“ Ég var mjög móðguð en því er þó ekki hægt að neita að þessi elska var eins og jólakaka með rúsínum í.

Guðni stóð sig frábærlega vel í skóla frá fyrsta degi og þótti alla tíð mjög vænt um skólasystkini sín á öllum stigum. Hann gekk þó í gegnum erfið tímabil eins og gengur með yngsta barnið sem þá var í systkinahópnum. Það rann upp fyrir honum ljós að það yrði erfitt fyrir hann af ýmsum ástæðum að fá sérherbergi og hann bar sig upp við mömmu og sagði þessa setningu sem lengi var í minnum höfð: „Þessar stelpur eru svo ljótar að þær giftast aldrei (hann meinti okkur systurnar), aldrei giftist Ásmundur og aldrei fæ ég sérherbergi.“ Það var sko erfitt að vera yngstur.

Þegar Guðni kom í menntaskólann tók hann mikinn þátt í félagslífi skólans og gustaði þá mjög af þessari elsku þegar hann gekk um bæinn í „grasinu hans Guðna“, en svo var leðurjakki sem hann hélt mikið upp á á tímabili nefndur. Sá var alsettur klipptum leðurlengjum og þótti mjög flottur. Þegar börnin mín komust á unglingsaldur ágirntust þau mjög þessa flík og fannst þetta það flottasta sem þau höfðu séð, en hann var þá geymdur uppi á háalofti á Hverfisgötu 58.

Guðni var mikill lukkunnar pamfíll þegar hann kynntist æskuástinni sinni, henni Bryndísi Sverrisdóttur, í menntó og hefur það verið einstaklega farsælt hjónaband. Þau eiga tvö yndisleg börn og fimm barnabörn, hvert öðru flottara. Það hefur verið einstaklega gefandi gegnum árin að eiga stundir með þeim á heimili þeirra, bæði í Svíþjóð og Reykjavík og ekki síst í Skorradalnum þar sem þau áttu glæsilegan sumarbústað. Þær samverustundir get ég aldrei fullþakkað. Ég vil að lokum þakka honum bróður mínum fyrir samfylgdina gegnum tíðina. Ég vildi að vísu hafa hann hjá okkur miklu lengur en enginn má sköpum renna.

Sigríður

Jóhannesdóttir.

Kveðja frá tengdafólki

Mágur minn, Guðni Albert, laut að lokum í lægra haldi fyrir ólæknandi sjúkdómi en án nokkurrar uppgjafar. Engan hef ég séð berjast jafn einarðlega gegn slíku ofurefli jafn lengi og af svo miklu æðruleysi. En það var Guðna líkt. Hann gafst ekkert upp á hlutum.

Undirritaður kynntist honum á unglingsárum eftir að hann krækti í þá elstu í systkinahópnum. Hann hafði reyndar svifið á hana á hennar busaári í MR en hafði ekki erindi sem erfiði, hún sagði honum að tala við sig aftur þegar hann hefði mannast ofurlítið. Piltur gafst ekkert upp, birtist tveimur árum síðar, orðinn allur reffilegri og hávaxnari og þar með var björninn unninn.

Þar kom að systir færði þennan þyrilhærða kommúnistapilt heim og kynnti fyrir foreldrum okkar. Ekki leið á löngu áður en Guðni hafði unnið hug og hjarta þeirra beggja. Ekki var verra að kynnast frábærum foreldrum Guðna, sem urðu góðir vinir tengdaforeldra hans.

Guðni og Bryndís stofnuðu senn heimili og eignuðust dótturina Gunnhildi um það leyti sem þau fóru utan til náms í Svíþjóð og síðan soninn Sverri Pál nokkrum árum síðar. Guðni var frábær faðir en kannski ekki handlagnasti heimilisfaðir sem sögur fara af. En gafst aldrei upp. Ég man vel þegar verkfræðineminn kynntist nýju verkfæri sem leysti flest vandamál heimilisins. Límbyssu beitti hann á allt sem aflaga fór. Hann losnaði við að slá á nagla eða skrúfa skrúfur, sem var til blessunar. Með límbyssunni gerði hann við húsgögn, lagði kapla, límdi brotna hluti, sóla á skó og gerði við rifur á fatnaði. Mig grunar að systir hafi á endanum falið gripinn.

Veiðiferðir okkar voru ófáar. Í fyrstu farnaðist honum ekkert sérlega vel, hafði litla æfingu fengið og maðkveiði fór ekki saman við fínhreyfingar Guðna. Í fyrstu túrum sat allt í botni og týndist, sökkur í kílóatali og tugir öngla. Hef ég stundum velt því fyrir mér hvort hrun laxastofns í Hrútu geti verið af völdum blýeitrunar frá fyrstu árum Guðna við ána. En hann gafst ekki upp. Með æfingu og einbeitni varð hann glimrandi veiðimaður, en það skipti ekki mestu, því að félagsskapur við hann, þegar veiðidagar voru að kveldi komnir, er það sem lifir í endurminningunni. Margfróður, vel lesinn, sögumaður góður og stórskemmtilegur.

Í einum slíkum túr heyrði ég Guðna syngja og glamra á gítar í fyrsta sinn. Ekki kiknaði ég í hnjánum af hrifningu í það skiptið. En drengur gafst ekki upp og síðar upplifðum við það að sjá orkumálastjóra syngja fyrir heilan sal af opinmynntum Kínverjum og aðeins nokkrum vikum fyrir andlát sitt dreymdi hann texta um hörmungar Úkraínumanna, samdi við það lag, lét útsetja og gaf út.

Eitt sinn ákváðum við systkinin ásamt mökum að fara á dansnámskeið. Mjaðmir undirritaðs eru ekki hannaðar fyrir salsa og rúmbu en það jók verulega á sjálfstraustið að hafa Guðna minn í salnum. En uppgjöf var ekki inni í myndinni og ég veit ekki betur en þau hjónin hafi dansað saman í áratugi síðan.

Aldrei hefði okkur grunað að verkfræðingurinn sem varla gat skammlaust komið bíl inn í bílskúr á yngri árum gæti lært að slá örlitla kúlu með löngu priki, hvað þá að hitta sömu kúlu ofan í holukríli af margra metra færi. En Guðni gafst aldrei upp og var enn að lækka forgjöfina síðast þegar fréttist af honum á golfvelli.

Ekki verða fleiri veiðiferðir, sögustundir, skötuveislur eða samsöngur með okkar góða mági. Við systkini Bryndísar, makar og fjölskyldur þökkum þér viðkynninguna, vinskapinn, gleðina og samferðina. Ástvinum öllum sendum við okkar samúðarkveðjur.

Enginn er dáinn fyrr en nafn hans er nefnt hinsta sinni hér á jörðu. Höldum því nafni Guðna Alberts Jóhannessonar á lofti sem lengst.

Kristján og Erna Svala,

Margrét og Pétur Sævald,

Ragnhildur og Hanna Katrín, Ásthildur og Matthías.

Störin á flánni

er fölnuð og nú

fer enginn um veginn

annar en þú.

Í dimmunni greinirðu

daufan nið

og veizt þú ert kominn

að vaðinu á ánni ...

(Hannes Pétursson)

Æskuvinur minn á bernsku- og unglingsárum, Guðni Albert Jóhannesson, er fallinn fyrir óvægnum sjúkdómi eftir langa og erfiða baráttu.

Ég sá Guðna fyrst þegar við vorum sex ára gamlir og sóttum tímakennslu í Austurbæjarskólanum en þar lærðum við að lesa. Guðni vakti þá þegar athygli mína þó ekki yrðu kynnin lengri að því sinni. Það var svo tveimur árum síðar að leiðir okkar lágu saman að nýju þegar Guðni kom í átta ára bekk A í Austurbæjarskólanum þar sem Þórður Magnússon kenndi okkur, allt þar til við lukum barnaprófi eins og það var þá kallað. Úr Austurbæjarskólanum lá leiðin yfir í Gagnfræðaskóla Austurbæjar eins og hann hét þá. Þar lukum við landsprófi 1967. Smátt og smátt tókst með okkur vinskapur og var ég tíður gestur á æskuheimili hans á Hverfisgötu. Þar var mannmargt menningarheimili en alltaf voru móttökur góðar og mér var tekið eins og ég væri einn af fjölskyldunni.

Guðni var góður námsmaður, skemmtilegur og hugmyndaríkur og ófeiminn. Við brölluðum ýmislegt, lékum í skólaleikritum, vorum í ritstjórn skólablaðsins Neistans og tókum þátt í málfundum þar sem Guðni var óhræddur að tjá skoðanir sínar og sló raunar í gegn.

Haustið 1967 hófum við nám við Menntaskólann í Reykjavík en eftir fyrsta veturinn skildi leiðir. Guðni settist í stærðfræðideild en ég í máladeild. Við héldum samt sem áður góðu sambandi og hittumst oft, meðal annars á Kaffi Tröð sem var vinsæll staður menntaskólanema á þessum árum. Guðni lauk stúdentsprófi með glæsibrag og hóf nám í verkfræði við Háskóla Íslands haustið 1971 og lauk fyrri hluta prófi þaðan. Eftir það lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hann hélt áfram námi og lauk því með láði.

Upp úr þessu fór þráðurinn milli okkar að trosna og er ekki gott að segja hvað olli. Við hittumst ekki oft eftir þetta en oft varð mér hugsað til míns gamla vinar og frétti raunar af honum af og til og gladdist yfir velgengni hans í námi og starfi.

Blessuð veri minning míns gamla bekkjarbróður og vinar. Samúðarkveðjur sendi ég öllum sem þótti vænt um hann.

Ólafur H. Jónsson.

Góður vinur minn í rúmlega hálfa öld, Guðni Albert Jóhannesson, er fallinn frá.

Við kynntumst árið 1967 þegar við vorum á fyrsta ári í Menntaskólanum í Reykjavík í tengslum við útgáfu blaðs sem átti að keppa við hið hefðbundna skólablað MR. Það var Kjartan Gunnarsson, síðar framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sem átti frumkvæðið að þessu. Hann boðaði þá sem höfðu verið ritstjórar skólablaða, hver í sínum gagnfræðaskóla, til fundar um að mynda ritnefnd þessa nýja blaðs. Auk okkar Guðna voru það Jón Sveinsson, síðar lögfræðingur, Geir Waage, síðar prestur í Reykholti, og Geir Haarde, síðar forsætisráðherra. Gestur Guðmundsson, síðar félagsfræðiprófessor, var líka með í byrjun en leist ekki á að starfa með þessum íhaldsstrákum þótt Guðni verði seint talinn tilheyra þeim hópi. Blaðið varð þó ekki langlíft og lognaðist fljótlega út af.

Það var fyrst eftir að við urðum bekkjarbræður á þriðja og fjórða ári í eðlisfræðideild MR sem vinátta okkar átta bekkjarfélaga tók að mótast og þéttast smám saman, einkum eftir að við höfðum lokið háskólanámi, flestir í útlöndum. Er Guðni tók við embætti orkumálastjóra árið 2008 fluttu þau Bryndís heim frá Stokkhólmi þar sem þau höfðu búið í hátt á annan áratug. Þá jukust samskipti okkar Guðna verulega bæði í leik og starfi og við urðum æ nánari vinir.

Guðni var afar skemmtilegur. Hann var vel heima á flestum sviðum, hugmyndaríkur, áhugasamur um þjóðfélagsmál, rökfastur og óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós og fylgja þeim eftir. Hann kunni vel að segja sögur og hafði gaman af söng og tónlist. Sem ungur maður var hann róttækur vinstrimaður og starfaði þá í Æskulýðsfylkingunni og Alþýðubandalaginu en færðist nær miðju stjórnmálanna með árunum.

Sem orkumálastjóri var hann áhugasamur um framþróun orkumála með hagsæld komandi kynslóða að leiðarljósi og var óhræddur við að láta skorinort í ljós skoðanir sínar á þeim málum þótt þær féllu í grýttan jarðveg hjá vissum þjóðfélagshópum. Hann var vandaður embættismaður sem lagði sig fram um að fylgja vel þeim lögum og reglum sem römmuðu inn starf hans. Eftir að hann lét af störfum sem orkumálastjóri vann hann sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu Arctic Green Energy sem er í íslenskri eigu og er umsvifamikið í uppbyggingu hitaveitna í Kína. Þar áttum við líka samleið.

Guðni hafði um árabil glímt við illvígt krabbamein sem hann barðist við með óbilandi þrautseigju til hinsta dags. Hann talaði opinskátt um sjúkdóminn en barmaði sér aldrei. Við vorum saman á stórri evrópskri jarðhitaráðstefnu í Berlín í október og í desember síðastliðnum fór hann í vinnuferð til útlanda. Vikulega lékum við golf í golfhermi allt þar til hann lagðist á sjúkrahús í árslok.

Ég kveð Guðna með virðingu og þakklæti fyrir langa og trausta vináttu og samstarf. Við Sigurrós sendum Bryndísi og fjölskyldu þeirra innilegar samúðarkveðjur. Megi hann hvíla í friði.

Ólafur G. Flóvenz

Ég kynntist Guðna fyrst í stúdentapóltík vorið 1973, þá í kjörstjórn vegna kosninga fulltrúa stúdenta í Háskólaráð. Tveir laganemar aðrir í kjörstjórninni sögðu sig frá málinu, þegar upp kom deila um túlkun kosningalaga. Vildu ekki fara gegn áliti kennara síns. Þá voru góð ráð dýr, að styrkja kjörstjórnina með kjarkmiklum mönnum sem þyrðu. Annar þeirra var Guðni. Guðni var þannig maður að hann þorði og vildi taka afstöðu á málefnalegan hátt. Þannig kynntist ég honum enn betur síðar þegar við áttum samleið á Orkustofnun, ég sem lögfræðingur og hann orkumálastjóri. Þá greindist hann með krabbamein sem var glíma hans næstu árin. Hann tók henni með æðruleysi, fór að ráðum læknavísinda, sló á létta strengi, sló fram vísukorni og sinnti sínum störfum án þess að láta bilbug á sér finna. Afstaða hans til allra mála var ævinlega hlutlæg og vel ígrunduð. Sem verkfræðingur og stærðfræðingur byggðist afstaða hans á rökvísi. En stærðfræði er ekki bara rökvísindi, heldur sú þekking sem byggist á fyrirframgefnum forsendnum. Þess vegna skiptir máli að skilja forsendurnar. Það var sú hlið á Guðna sem ég kynntist svo vel á Orkustofnun, þar sem lögð var í púkk þekking vísindamanna stofnunarinnar á sviði stærðfræði, jarðvarmafræði, jarðfræði, vatnafræði nú og þess vegna lögfræði í þverfaglegri umræðu um orku- og auðlindamál og við stjórnsýslulega úrlausn slíkra mála. Sú málefnalega rökfræði átti ekki alltaf upp á pallborðið og fyrir það fékk Orkustofnun og Guðni orkumálastjóri oft á baukinn, einkum frá tilfinningaríkum misvel upplýstum umhverfissinnum og popúlískum stjórnmálamönnum. En Guðni lét slíkt sem vind um eyrun þjóta. Sjálfur var Guðni náttúruunnandi og bar mikla virðingu fyrir íslenskri óspilltri náttúru og sá einnig flestum betur tækifæri Íslands í auðlindanýtingu á sjálfbæran hátt, í sátt við mikilvæg umhverfissjónarmið.

Meginverkefni Orkustofnunar í tíð Guðna sem orkumálstjóra var að tryggja þyrfti betur raforkuöryggi landsmanna, efla flutningskerfi raforku, virkja utan eldvirku svæðanna, auka raforkuframleiðslu, bæði með vatnsafli og jarðvarma innan rammaáætlunar og vindorku utan þeirrar áætlunar, að óbreyttum lögum. Þá væru smávirkjanir heima í héraði mikilvæg búbót. Guðni lagði sitt af mörkum og stuðlaði að alþjóðlegri þekkingu á nýtingu jarðvarma, með þátttöku Íslendinga í slíkum verkefnum víða um heim. Olíuleitin á Drekasvæðinu skilaði umfangsmestu rannsóknum sem gerðar hafa verið innan auðlindalögsögu Íslands, rannsóknir sem nýtast til lengri tíma litið, ekki endilega vegna olíu og gass, heldur einnig vegna annarra mikilvægra efna og efnasambanda og er þá margt ótalið enn.

Sem yfirmaður á Orkustofnun var Guðni alltaf sjálfum sér samkvæmur, hann treysti sínu fólki, virti skoðanir þess og sjónarmið, gerði kröfur um hlutlægni og fagmennsku bæði fyrir sig og sína. Guðni var öðlingur sem ég kveð með þakklæti fyrir samstarf og vinskap á liðnum árum um leið og við Jórunn sendum Bryndísi samúð, börnum hans og barnabörnunum.

Skúli Thoroddsen.

Ég var sendur í landspróf í Gagnfræðaskóla Austurbæjar haustið 1966. Gamall sveitungi var yfirkennari, þar þekkti ég engan. Ég tók strax eftir hressum og glaðværum manni sem talaði mikið og var gjarnan með hjörð áheyrenda í kringum sig. Sá málglaði var fyndinn, skemmtilegur og uppátækjasamur. Hann tók mér vel og varð okkur strax vel til vina – sá vinskapur hefur haldist. Við Guðni vorum svo í sama bekk allan menntaskólann og fyrstu tvö árin í háskóla en þá hélt hann til Svíþjóðar. Ég var heimagangur hjá foreldrum hans á Hverfisgötunni á þessum árum. Þar var gaman að koma og fræðandi fyrir unglinginn, ys og þys og margir í heimsókn eins og títt var á þeim tíma. Þetta var mikið sósíalistaheimili; eitt sinn gekk ég síðasta spottann eftir Hringbrautinni í einni Keflavíkurgöngunni með foreldrum Guðna. Á menntaskólaárunum tókst Guðna nefnilega með aðstoð Skafta bekkjarfélaga okkar að snúa mér til betri vegar í pólitísku tilliti. Fyrir það er ég ævinlega þakklátur.

Sumarið 1973 unnum við hjá Orkustofnun, pössuðum miðunarmöstur hér og þar um landið vegna landgrunns- og þyngdarmælinga sem bandaríski herinn stóð fyrir til þess að geta skotið eldflaugum af meiri nákvæmi á sovéskar borgir. Við komumst að þessu seinna en bandaríska varnarmálaráðuneytið borgaði okkur laun. Það þótti okkur róttæklingunum og NATO-andstæðingum heldur verra svona í miðju árásarstríðinu gegn alþýðu fólks í Víetnam.

Við hittumst töluvert eftir að skólagöngu lauk – í Lundi og Stokkhólmi og auðvitað á Íslandi, einkum eftir að þau Bryndís fluttu til landsins. Við héldum hópinn átta bekkjarfélagar úr MR, hittumst reglulega og brölluðum ýmislegt og möluðum saman. Alltaf var Guðni hress og kátur og yfirlýsingaglaður svo mörgum þótti stundum nóg um – hann var víða heima, skýr og frjór. Við deildum oft um náttúruvernd, mér þótti Guðni oft glannalegur og hann sótti stundum í átök. Guðni var mjög frumlegur og datt margt nýstárlegt í hug. Hann hefði allt eins getað orðið ágætis hugvísindamaður. Held það hafi alltaf blundað í honum.

Guðni sýndi ótrúlegan skapstyrk meðan á veikindum hans stóð. Það var sem það hvarflaði ekki annað að honum en að brátt færi hann heim og lífið héldi áfram sinn vanagang. Það kom fyrir að ég færi fyrir hann á pósthús að ná í alls kyns dót sem hann hafði pantað. Síðast fyrir rúmri viku voru það golfskór sem ekki þurfti að reima. Hann bað mig að geyma þá þar til hann kæmi heim. Meira að segja allra síðustu daga var hann að skipuleggja næsta sumar.

Í fyrravor fórum við fjórir gamlir bekkjarfélagar saman til Svíþjóðar ýmissa erinda, m.a. að heimsækja gamlan félaga sem hafði sest þar að. Ferðinni lukum við í Röttle í bústað fjölskyldu Guðna. Það var farið að draga af okkar manni og þrekið að dofna en alltaf jafnhress og kátur og spilaði á sitt ukulele á kvöldin í Röttle og söng með.

Þá er bara að þakka þessum góða og trausta vini samfylgdina. Bryndísi, Gunnhildi og Sverri sendum við Sigurlaug okkar bestu samúðarkveðjur

Gylfi Páll Hersir.

Í fjarlægri álfu var troðfullur salur af verkfræðingum, vísindamönnum og sérfræðingum í orkumálum. Eftirvænting í loftinu. Nýjar lausnir á dagskrá. Baráttan gegn breytingum á loftslagi jarðar sífellt brýnni. Hin hreina orka bjargræðið.

Hægum skrefum gekk Guðni á sviðið. Í farteskinu margvísleg reynsla og niðurstöður rannsókna. Hógvær í málflutningi en fastur fyrir. Lærdómurinn til styrktar hugsjóninni. Rakti skýrt vegferð Íslands. Frá olíu og kolum til fremstu raðar í nýtingu á jarðhita og vatnsafli. Fordæmi fyrir aðrar þjóðir.

Áheyrendur fylltust lotningu. Tilbúnir að fylgja forystu þessa Íslendings. Víða í Asíu og Evrópu, á fundum Afríkubúa og Ameríkana, bar Guðni hróður landsins. Útskýrði svo allir skildu hvernig aðrir gætu fetað sömu slóð.

Orðspor ríkja og ítök á alþjóðlegum vettvangi hvíla á mörgum stoðum. Hin hreina orka líklegast mikilvægasta framlag Íslands í glímu mannkyns við að varðveita loftslag og lífríki jarðar. Á þeim vettvangi var Guðni um árabil með þeim fremstu í sveit hinna hæfustu.

Með stolti fylgdumst við, gamlir baráttufélagar hans á vettvangi samtaka jafnaðarfólks og samvinnumanna, með okkar manni. Vissum að framinn við hinn konunglega verkfræðiháskóla Svíþjóðar hafði gefið honum aukinn styrk. Prófessorinn kom svo aftur heim til að stýra orkumálum. Félaginn úr baráttusveit æskufólks var orðinn að alþjóðlegum leiðtoga.

Síðasta samvera okkar Guðna var á liðnu hausti. Máttfarinn vegna langvarandi veikinda mætti hann samt á viðræðukvöld með sendinefnd Araba sem leituðu lausna á kælingu borga í eyðimörk. Lágværri röddu, líklega kvalinn, útskýrði Guðni enn á ný hvernig jarðhitinn, hin ríka auðlind hreinnar orku, gæti bjargað.

Við kveðjum nú forystumann og kæran vin; leiðtoga sem sneri heim þótt erlendur frami væri enn að vaxa; boðbera sem víða um veröld bar hróður Íslands.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Okkar góði vinur Guðni Jóhannesson hefur kvatt lífið eftir ötula baráttu við illvígan sjúkdóm.

Við hjónin kynntumst Guðna í Stokkhólmi þegar Bryndís eiginkona hans og undirrituð (Ásta) stofnuðu saman ferðaskrifstofuna Íslandíu AB fyrir 30 árum. Hlutverk eiginmannanna var að sitja í stjórn fyrirtækisins og sækja tiltekna fundi ásamt því að fara árlega með eiginkonunum í helgarferð til einhverrar Evrópuborgar. Guðni hafði með menntun sinni og starfsframa góð áhrif á stjórnarsamstarf okkar og fundahöld; hann kunni fyrirtækjarekstur manna best og hafði næman skilning á styrk samvinnu, samtala og góðrar þjónustu. Óspart hvatti hann samstarfsfólk sitt og kunningja bæði á Íslandi og í Svíþjóð til að bóka ferðalög sín hjá Íslandíu sem þannig eignaðist marga trygga viðskiptavini í gegnum tíðina.

Guðni var skemmtilegur maður á alla lund, æðrulaus, hlýr, glaðvær, uppfinningasamur og nærverandi í samtölum og leik. Stöðugt hafði hann frá einhverju merkilegu að segja sem var áhugavert og fræðandi.

Hann var mikill söngmaður og hafði næmt eyra fyrir tónum af öllu tagi. Þær eru ógleymanlegar söngstundir okkar fjögurra við píanóundirleik Bryndísar þegar tekið var á í lögum Fúsa H., Sigvalda K. og Inga T.

Merkilegra er þó framtak hans sjálfs að semja ljóð og lag til handa Úkraínufólki, „Ode to Ukraine“, og koma því í byrjun þessa árs með hjálp fagfólks á YouTube, Spotify og fleiri veitur til ánægju öllum heimsbúum. Slíkt afrek segir mikið um hvaða uppfinningamann hann hafði að geyma fram á síðustu stundu.

Guðni var í senn sannkallaður hugsjónamaður og heimsborgari. Hann leit á heimsbyggðina sem allsherjarsvið okkar allra þar sem við tilheyrum hvert öðru og berum sameiginlega ábyrgð á að byggja betri heim með hag umhverfis og okkar sjálfra að leiðarljósi. Hann hafði með eigin augum séð hinar ólíku aðstæður fólks og kynnst fjölda innfæddra í framandi löndum á ferðum sínum sem prófessor og fyrirlesari.

Guðni trúði á mátt fræðslu, menntunar og samvinnu. Með alvarleika sínum og ákveðni í leik dagsins kom hann hugsjónum sínum og boðskap á framfæri í fjölmörgum málum og vék aldrei frá sinni einlægu vinstristefnu í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur.

Við erum afar þakklát fyrir að hafa fengið að verða honum samferða um hríð.

Elsku Bryndís, Gunnhildur, Sverrir, barnabörn, systkini og vinir. Okkar einlægustu samúðarkveðjur. Megi minningarnar um góðan dreng styrkja og hlýja í ykkar miklu sorg.

Við kveðjum með söknuði Guðna vin okkar með ljóðlínum Guðmundar Friðjónssonar frá Sandi:

Þegar ég heyri góðs manns getið

glaðnar yfir mér um sinn.

Þá er eins og dögun dafni,

drýgi bjarma um himininn.

Vonum fjölgi, veður batni,

vökni af döggum jarðar kinn.

M. Ásta Arnþórsdóttir og Birgir Jakobsson.

Mig langar með þessum línum að minnast míns kærasta vinar, sem nú er allur. Við Guðni vorum bekkjarbræður í MR. Þar sópaði að honum. Alltaf eitthvað spennandi að gerast í kringum hann.

Minnisverður er afdrifaríkur leiðangur okkar vorið 1970 með tveim bekkjarbræðrum. Langt verkfall í gangi, bílaumferð horfin og komið gos í Heklu. Slæmt að komast ekki. Faðir eins átti rússajeppa, hinn frá bæ í Hekluhlíðum. Nýkomin hitaveita heima og olíutankinn hafði dagað uppi, neðanjarðar. Þá sá eðlisfræðingurinn, Guðni, ráðið; beitti þrýstilögmálum og töfraði eldsneytið upp með garðslöngubút. Við ókum sem leið lá, skoðuðum fossa líkasta tröllkonum á harðahlaupum svo og nýrisin orkumannvirki við Þjórsá. Skyldi vatnsþrýstingur í uppistöðulóni geta komið eldgosi af stað? Þar tendraðist brennandi áhugi á framhaldsnámi og ævistörfum.

Svo gátu liðið ár á milli þess að við hittumst. En „efnafræðin“ stemmdi: Hvort heldur var gufubað, gönguferð eða kaffi; ávallt sem við hefðum sést í gær. Loks heimkominn átti ég alltaf inni hjá Guðna og Bryndísi. Tókst ei að yfirkeyra gestrisnina með þaulsetu. Það voru forréttindi að fá að fylgjast með báðum bráðefnilegum börnunum vaxa úr grasi. Sverrir hændist að mér og Gunnhildur varð okkar fyrsta barnapía. Það var ekki fyrr en nú í sumar, er ég barði dyra á Nesbala, að ég heyrði að heimiliskötturinn væri mættur! Takk fyrir það.

Í erfiðum veikindum undruðumst við hve hetjulega Guðni tók á þeim. Hann greindist fyrir níu árum með krabbamein í nýra sem var fjarlægt. Strax ákveðinn að láta ekki slá sig út af laginu. Með nýjum meðulum skyldi örva herskara frumna til sigurs. Þetta gekk bærilega framan af. En svo hafði meinið dreift sér og lyfjakúrinn varð tortúr. Baráttan beindist nú einnig að vítiskvölunum. Þar hafði Guðni ráð. Lífið varð að úrlausn sérverkefna. Það var ófært án stuðnings elskulegrar eiginkonu. Bryndís byrjaði að leyfa, hikandi í fyrstu, það sem virtist neikvætt, jafnvel fráleitt. En hann fékk brátt að leika lausum hala, uns hún var farin að ýta undir uppátektirnar.

Þannig áræddi ég að viðra ferðalög, sem ég er þakklátur fyrir að hafa átt. Guðni var einstaklega skemmtilegur og fjölfróður ferðafélagi. Sigling út í Folafót var hápunktur. Við nutum útsýnisins yfir Djúpið, Snæfjallaströndina, Vigur og Jökulinn, þar sem fegurð himinsins býr. Upplifðum Kraftbirtingarhljóminn sjálfan. Svo komumst við í hann krappan. Votan og kaldan bað ég hann forláts að hafa árætt í sjóferð þá. Nei; aldrei í öllum veikindunum hefði hann gleymt sér eins rækilega og í dag!

Víst er að Guðni kvaddi sáttur þennan heim. Hann átti að baki góð uppvaxtarár með samstilltum foreldrum og systkinum, árangursríkt nám og glæstan feril með stórum hópi ágætasta samstarfsfólks og vina. En umfram allt átti hann farsælt hjónaband með Bryndísi, ástkærri eiginkonu og félaga, sem skóp með honum menningarheimili og fjölskyldu. Um leið og ég minnist ánægjulegra samvista votta ég ykkur öllum innilega samúð mína og fjölskyldu minnar og þakka fyrir að hafa fengið að vera svona lengi samferða Guðna.

www.mbl.is/andlat

Björn Oddsson, Sviss.

Vinur minn Guðni Albert dó með reisn. Þegar við kvöddumst á Landakoti í síðasta sinn hló hann enn að kímnisögum og vildi ræða stjórnmál og orkuskipti.

Hann var frá fyrstu tíð efni í leiðtoga og líf hans var sannarlega varðað margs konar sigrum. Af æskuheimilinu kom hann róttækur sósíalisti og þegar öldum evrópskrar æskubyltingar skolaði á íslenskar fjörur upp úr 1968 og róttækt ungt fólk sótti jafnvel að öflugustu vígjum íslenskrar borgarastéttar varð hann frambjóðandi vinstrimanna til inspector scholae í MR. Innan Alþýðubandalagsins sáluga fylkti hann sér með þeim sem Matthías Johannessen kallaði „lýðræðiskynslóðina á Þjóðviljanum“. Hann varð kandídat okkar til formennsku í ABR - og sigraði.

Guðni var pragmatisti ofar öðru og eins og við mörg börn byltingarinnar varð hann klassískur jafnaðarmaður. Eitt af því sem við glöddumst yfir á hinum hinstu dögum var sú merkilega staðreynd að við skyldum báðir lifa að okkar gamli flokkur, Samfylkingin, færi aftur með himinskautum undir merkjum óvanalega öflugrar og kornungrar forystukonu.

Sigrar hans voru líka í einkalífi. Ungur varð vinstrisinninn og sonur eldavélasmiðsins af Hverfisgötunni ástfanginn af dóttur frægs íhaldsráðherra, vinkonu okkar Huldu Bryndísi. Þær ástir héldust út ævina. Þau eignuðust tvö afbragðsbörn, Gunnhildi lækni í Svíþjóð og Sverri „júníor“ sem nú er margverðlaunaður víða um heim. Guðni kaus að hleypa heimdraganum og hverfa til síns gamla námslands, Svíþjóðar, þar sem hann varð prófessor við sænska tækniháskólann í 20 ár.

Honum voru falin trúnaðarstörf, m.a. af hálfu sænskra stjórnvalda til að þróa nýja aðferð til að byggja sjálfbær hús. Slík hús hafa nú verið reist í mörgum löndum, og bera skapara sínum glæsilegt vitni. Hér heima sópaði að honum sem forystumanni á sviði orkumála. Það var happ mitt að skipa hann orkumálastjóra og eignast í kjölfarið nána vináttu hans.

Guðni var óeirinn, mildur í sinni, alltaf glaðvær í vinahópi, einstaklega rökfastur og aldrei hræddur við að halda fram sannfæringu sinni. Um það vitnuðu margfræg umburðarbréf orkumálastjóra þar sem ekki var stungin tólgin.

Veiðiferð okkar í Elliðaár á liðnu sumri er minnisstæð. Guðni hafði keypt sér tölvustýrðan veiðiháf sem útilokað var að nokkur gæti beitt nema hafa doktorspróf í verkfræði. Þá var af okkar manni dregið. Hann dró í efa að hann gæti sjálfur beitt háfnum ef lax tæki flugu. Þetta var happadagur, við lentum í laxastóði á göngu og spriklandi fiskur bylti sér óðara á flugu mína. Mér gekk seint að landa. Þá vatt Guðni sér út í ána, öslaði bakka milli og lyfti loks sigurreifur stórum laxi í flóknasta háfi heims! Skömmu síðar tók hann sjálfur lax sem reyndist síðasti laxinn sem minn góði vinur veiddi.

Við félagarnir, sem langa hríð höfum haldið hópinn og eldað vagnhestasúpur í Steinshúsi og í Skorradal, sjáum nú á bak okkar besta manni. Við Árný vottum Huldu Bryndísi, börnum þeirra og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Össur Skarphéðinsson.

Ég átti langt samtal við Guðna vin minn skömmu fyrir andlátið. Þá lá hann á líknardeildinni. Þaðan er ekki um marga áfangastaði að velja enda almennt búið að prenta brottfararspjaldið. Hann hafði þó ýmis önnur plön eins og ævinlega. Hinsta för inn í framtíðarlandið var sannarlega ekki á þeim lista. Þar kenndi hins vegar margra annarra grasa, allt frá Spánarferð í vor til mikils og stóraukins hrossakjötsáts, en hann hafði blessunarlega fengið lystina aftur eftir að þungri og erfiðri lyfjagjöf hafði verið hætt. Samtalið barst víða, enda áhugamálin margvísleg með orkumál og byggingatækni í öndvegi. Þar út í frá til beggja handa brann hann fyrir vísnagerð og lagasmíðum, söng og hljóðfæraleik, pólitík og heimsmálum. Tækni og nýsköpun áttu einnig sinn sess. Þar var hvergi komið að tómum kofunum. Þá var hann sagnamaður góður og vel ritfær. Umfram allt var Guðni þó drengur góður, einlægur, falslaus, en líka bráðskemmtilegur.

Við hjónin áttum yndislega samferð hér heima og erlendis með þeim Guðna og hans ágætu Bryndísi í áratugi, þar var gleðin sannarlega við völd. Fyrir það viljum við þakka af heilum hug.

Hvernig framtíðarlandið lítur nákvæmlega út og hvað félagi Guðni er að sýsla við akkúrat núna veit ég ekki, en hitt veit ég að þar hefur mönnum bæst liðsauki. Ég á bágt með að láta hann passa inn í klassísku myndina með hvíta kyrtilinn og hörpuna, ég sé hann miklu fremur fyrir mér í snjáðum byltingarjakka spilandi á ukulele. Hvort þar er hrossakjöt á boðstólum veit ég enn síður, en kannski reyni ég að taka með bita þegar minn tími kemur, fyrst mér tókst ekki að lauma honum inn á Landakot.

Vottum Bryndísi, börnum og fjölskyldu samúð.

Far þú í friði góði vin, minningin um góðan dreng lifir.

Skúli og Sigríður Lillý.

Dr. Guðna A. Jóhannessyni kynntist ég þegar ég hóf störf sem laganemi á Orkustofnun haustið 2013. Guðni var vísindamaður af guðs náð, þar sem bjartsýni og óþrjótandi tækifæri bæði í tækniþróun og hugviti á sviði orkumála og auðlindanýtingar áttu hug hans allan. Guðni var skarpur greinandi og tók virkan þátt í að glíma við öll viðfangsefni Orkustofnunar með nálgun verkfræðings þar sem rökfesta, útsjónarsemi og dirfska voru einkennandi. Hann var óhræddur við að taka afstöðu og stóð með eigin sannfæringu í gegnum hagsveiflur og pólitískar ádeilur.

Guðni var sjálfur mikill náttúruunnandi og var óþrjótandi í að ræða um mikilvægi endurnýjanlegrar orkunýtingar fyrir komandi kynslóðir þeim til heilla. Í störfum sínum lagði hann mikla áherslu á að styrkja flutningskerfi raforku, lagði grunn að bættu orkuöryggi og verðmætasköpun með aukinni raforkuvinnslu og smávirkjunum heima í héraði. Í hans tíð voru umfangsmestu rannsóknir á hafsbotni Íslands gerðar á Drekasvæðinu. Hann var driffjöður í alþjóðlegu samstarfi á sviði jarðhita þar sem Íslendingar tóku virkan þátt, áhugamaður nýrrar tækni við jarðhitanýtingu, talsmaður orkuskipta og skynjaði mikilvægi þess að efla samstöðu í þágu loftslagsmála.

Það var einmitt á einni slíkri samstöðuhátíð um málefni norðurslóða sem við Guðni hittumst síðast, þá þegar hann var orðinn afar veikburða. Samtalið var þó litað hans einstöku bjartsýni og hlýju, enda hafði hann óbilandi trú á mátt vísinda og hafði orð á því að það væri afar mikilvægt að afla sér þekkingar og næra andann um alla framtíð.

Minninguna um einstakan hugsuð, frumkvöðul og traustan mann er gott að ylja sér við, er hann er kvaddur með virðingu og þakklæti.

Hanna Björg Konráðsdóttir.

Sá er siður góður að velflestir Íslendingar endi sína ævi með minningargrein í Morgunblaðinu. Þetta er menning. Fjarverandi gamall vinur, búsettur erlendis, fær daprar dánarfréttir að mæta í kirkju í kveðjuskyni, en það er oft ógjörningur. Sá látni mundi manna best skilja hindranir loftslagsbreytinga með snjóbyljum auk beinbrotsáhættu hreyfihamlaðra. Endurminningar sem sagðar hefðu verið í erfidrykkjuboði við nánustu ættingja birtast nú á prenti.

Samúðarkveðjur til Bryndísar frá okkur í Hollandi við lát Guðna. Þið hafið staðið saman í löngu stríði, því enginn deyr einn. Ég minnist Guðna sem einhvers skemmtilegasta landa míns. Það bætir núna lítið úr skák, ykkur til huggunar, en er þó þess virði að geta þess, að í lífinu lék lánið allavega við Bryndísi og börn að eiga svona föður. Guðni var alls staðar hrókur alls fagnaðar og vel séður í nefnd eða í formannsstöðu á orku- og eðlisfræðiráðstefnum. Við hittumst ekki nógu oft en ég á ljúfar endurminningar, bæði um hann og ykkur hjónin saman.

Ef ég man rétt kynntist ég Guðna áður en við hittumst í Stokkhólmi, þar sem þið hjónin buðuð okkur Riet heim og við ykkur næsta sumar í „kräftor“ í Pampas Marina. Sennilega kynnumst við fyrst á ráðstefnu um byggingareðlisfræði í Leuven í Belgíu, þegar prófessor Guðni Albert Jóhannesson eftir einn fundinn fékk sessunauta við heilt matarborð úti á göngugötu í gamla bænum til að syngja á íslensku „Nú er hlátur nývakinn, nú er grátur tregur“.

Svo var norræna byggingarráðstefnan sem þið hjónin stóðuð fyrir á Grand hóteli bæði ykkur og landinu til sóma. Norræna EQR-fundinum sumarið 2014 í Hörpu missti ég af því kona mín Riet var orðin alvarlega veik.

Einnig langar mig til að minnast þess að Guðni hjálpaði mér þegar við vorum með bilaða skútu okkar, „Ultima Thule“, sem þurfti að færa á milli hafna í Stokkhólmi, en ég varð að mæta til vinnu í Hollandi. Hann skrifaði einnig meðmæli á baksíðu ensku útgáfunnar af kennslubók minni Integrated Sustainable Design (2012), sem ég er í dag á gamals aldri að auka og endurnýja. Bókin var einnig þýdd á víetnömsku en þar í landi flutti Guðni fyrirlestra.

Meðan Guðni var orkumálastjóri höfðum við því miður lítil samskipti, því nýting lághita og orkusparnaður, sem ég vann og vinn ennþá að, féllu undir Orkusetur á Akureyri.

Seinast hittumst við Guðni fyrir Covid-19, þegar hann bauð mér ásamt Sveinbirni Björnssyni og Ineke Evenblij, samferðakonu minni síðustu árin, heim í fullkomið „smörgåsbord“ í fallegu húsi þeirra hjóna við Nesbala.

Við syrgjum Guðna.

Þökk fyrir samverustundirnar.

Jón Kristinsson.

Dr. Guðni A. Jóhannesson var einarður talsmaður skynseminnar meðan hans naut við hér á landi. Þegar hann varð orkumálastjóri á Íslandi árið 2008 var hér mikið verk að vinna við skipulag orkuvinnslu og orkuflutninga á landinu öllu. Ekki auðveldaði það þetta verk að allt skipulagsvald hafði verið flutt frá ríkinu til sveitarfélaga landsins þá fyrir röskum tíu árum. Fjölmargir vinnuhópar höfðu líka lagt drög að mismunandi framtíðarsýn og við bættust hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð sem ekki einfölduðu málið. Hér þreyttist Guðni ekki á að benda á að framboð á raforku væri algert grundvallaratriði hér á landi og þarna yrði ekki bæði sleppt og haldið. Við gætum samt átt góða framtíð ef við héldum skynsamlega á málum.

En Guðni lét sig margt annað varða en orkumál. Á Svíþjóðarárunum þróaði hann nýja gerð íbúðarhúsa, „Casa Bona“, þar sem lögð var áhersla á að byggja skynsamlega og nýta síðustu tækni, sem vel gæti gagnast okkur Íslendingum, enda væri ekki vanþörf á. Í grein sem bar heitið „Byggingariðnaður á tímamótum“, sem Stefán heitinn Ingólfsson verkfræðingur skrifaði í tímaritið Arkitektúr og skipulag árið 1992, benti hann m.a. á að frá 1940 hefði „byggingarkostnaður á Íslandi... aukist árlega um 1,3% umfram almennar verðhækkanir“. Í grein sem Guðni Jóhannesson skrifaði í ofangreint tímarit um síðustu aldamót benti hann líka á fastheldni íslensks byggingariðnaðar í ákveðnar útfærslur þar sem bæði væri hægt að spara efni og vinnu. Auk þess væri alger orkusóun að láta hitaveituvatn renna 20 stiga heitt úr ofnum og beint í frárennsli í stað þess að nota það til að hita bílskúra, útiverusvæði eða gangstéttir. Einnig þróaði hann nýtt burðarkerfi fyrir hús þannig að hægt væri að byggja þau bæði hratt og ódýrt og loka sem fyrst fyrir íslensku veðri og vindum. Engin ástæða væri líka til, við venjulegar húsbyggingar, að byggja alltaf tvö hús en rífa svo annað.

Í samvinnu við Guðna hönnuðum við og byggðum nýjungahús á Eyrarbakka til að sanna þessar kenningar, sem stóðust í hvívetna. Upphaflega var húsið hannað með burðargrind úr blikkprófílum sem Guðni hafði þróað í Svíþjóð, en bygging verksmiðju sem átti að byggja til að búa þá til dróst á langinn þannig að notaðir voru burðarviðir úr timbri í staðinn. Ennþá standa þessar hugmyndir samt fyrir sínu og bíða nýrra frumkvöðla sem vilja láta þessa drauma rætast.

Um leið og ég kveð dr. Guðna og þakka honum kærlega fyrir samstarfið vil ég hvetja nýja frumkvöðla til að halda áfram að gera þessar hugmyndir hans að veruleika.

Gestur Ólafsson.

Í starfi mínu fyrir Landsvirkjun varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að kynnast dr. Guðna A. Jóhannessyni þegar hann gegndi stöðu orkumálastjóra. Við náðum vel saman, enda var hann vinsamlegur, skemmtilegur og hlýr í viðkynningu. Samstarf okkar gekk alla tíð vel – við vorum ekki alltaf sammála í öllum smáatriðum, en okkur greindi ekki á um stóru málin og vorum báðir þeirrar skoðunar að orkuvinnsla væri grundvöllur framfara og velmegunar í samfélaginu.

Guðni var farsæll í starfi orkumálastjóra. Hann átti þrettán góð ár hjá stofnuninni og hélt þar vel um stjórnartaumana. Aðstæður voru erfiðar í efnahagsmálum þjóðarinnar þegar hann tók við embætti árið 2008, en hann gerði sér grein fyrir því að nýting auðlinda landsins væri lykillinn að endurreisn efnahagslífsins. Í tíð hans sem orkumálastjóri voru stigin mikilvæg skref í orkumálum þjóðarinnar, enda lagði hann í ræðu og riti áherslu á mikilvægi þess að nýta þær endurnýjanlegu orkuauðlindir sem við búum yfir og draga um leið úr kolefnislosun og bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar.

Sjálfbær þróun var Guðna hugleikin. Framlag hans til orkumála einskorðaðist ekki við Ísland, því undir forystu hans leiddi Orkustofnun þátttöku í margvíslegum verkefnum sem miðluðu reynslu Íslendinga í orkumálum til annarra þjóða. Þar má nefna þegar stofnunin leiddi orkuverkefni fyrir Uppbyggingarsjóð EFTA, verkefnið Geotermica og fleira.

Orkustofnun, með Guðna í fararbroddi, tók virkan þátt í að þróa staðlaða alþjóðlega úttekt á sjálfbærni undirbúnings og reksturs vatnsorku- og jarðvarmavirkjana, svokallaða HSAP- og GSAP-matslykla. Þannig var þróaður mælikvarði til að meta í hversu ríkum mæli jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir stuðluðu að því að auka efnahagsleg verðmæti, styrkja samfélagið og viðhalda gæðum náttúrunnar.

Það var vel við hæfi að eitt af síðustu embættisverkum Guðna var að afhenda Alþjóðajarðhitasambandinu GSAP matslykilinn til reksturs og viðhalds á heimsþingi þess í Reykjavík árið 2021, en undir forystu Guðna hafði lykillinn verið þróaður á Íslandi í samstarfi orkufyrirtækja, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar.

Guðni var glettinn húmoristi, eins og allir sem þekktu hann geta vottað um. Þessi málsgrein í ávarpi hans í einni af ársskýrslum Orkustofnunar lýsir því vel: „Í tveimur nýlegum dómum hefur Hæstiréttur lagt áherslu á skyldur Orkustofnunar til þess að sjá fyrir óorðna hluti og mun stofnunin að sjálfsögðu verða við því. Eins og Jóhann Hannesson skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni átti til að segja þegar menn voru að rukka hann um frekari rökstuðning: „Þetta er bara eðlileg afleiðing af því sem koma skal.““

Fyrir hönd Landsvirkjunar sendi ég fjölskyldu og ástvinum Guðna hjartanlegar samúðarkveðjur. Með honum er genginn mætur maður.

Hörður Arnarson.

Það var haustið 1983 að leiðir okkar Guðna A. Jóhannessonar lágu fyrst saman. Verið var að undirbúa stofnun fyrsta húsnæðissamvinnufélagsins á Íslandi að sænskri fyrirmynd, en Guðni var þá fyrir skömmu kominn frá námi í Svíþjóð og þekkti vel sænska húsnæðiskerfið.

Það kom strax í ljós að þar var kominn öflugur liðsmaður í baráttuna sem framundan var. Fleiri fyrrverandi námsmenn í Svíþjóð slógust í hópinn og félagið var stofnað 26. nóvember 1983 og fékk nafnið Búseti. Síðan eru liðin nærri 40 ár og Búseti orðinn með öflugustu húsnæðisfélögum.

Fljótlega voru svo stofnuð Landssamtök húsnæðissamvinnufélaga og Guðni kjörinn formaður þeirra. Þá fór í hönd einkar skemmtilegur tími þegar ég sem starfsmaður félaganna og Guðni sem formaður ferðuðumst vítt og breitt um landið og kynntum búseturéttarformið. Oftast voru ferðirnar að vetri til og gekk á ýmsu. Þá kom í ljós að Guðni bjó ekki aðeins yfir mikilli þekkingu á húsnæðismálum, heldur var hann svo skemmtilegur ferðafélagi og sérlega úrræðagóður.

Á fundunum fóru gjarnan fram áhugaverð skoðanaskipti og þá munaði miklu, hversu málsnjall og rökvís Guðni var. Menn gengu af fundi með bros á vör. Fyrstu ár Búseta voru mikill baráttutími og þá munaði mikið um bjartsýni og kjark Guðna þegar tekist var á við stjórnvöld og ýmsa hagsmunaaðila.

Þegar Guðni og fjölskylda fluttu svo til Svíþjóðar var Búseti kominn á flug og fyrstu íbúðarhúsin risin. Viðburðarík ár að baki. Hugsjónir orðnar að veruleika. Þar átti Guðni ómetanlegan þátt.

Kæra Bryndís og fjölskyldur. Innileg samúð.

Reynir Ingibjartsson.

Ártalið 2008 verður um langan aldur minnisstætt í huga okkar sem árið þar sem bankahrunið mikla dundi yfir á haustmánuðum. Í upphafi þess árs bankaðir þú upp á á kontórnum hjá mér, aflslappaður og látlaus með bakpoka á öxlinni og bros á vör. Tókst í höndina á mér og heilsaðir. Frá þér stafaði hlýja og fumleysi og einhver glettinn glampi af forvitni.

Næstu þrettán árin fékk ég tækifæri til að kynnast þér og við unnum þétt saman í þjóðþrifamálum. Það blés um Orkustofnun á þeim tíma og þar reyndi á staðfestu stofnunarinnar í mörgum mikilvægum orkumálum. Þar kom snilligáfa þín oft fram, hugmyndaauðgi og gott vinnusiðferði. Skemmtilegast þótti mér þegar ég hafði sett mig vel inn í mál og gekk íbygginn inn á skrifstofu þína til að ræða málin en þar mætti mér hugarheimur uppfinningamanns með ráð undir rifi hverju sem oftar en ekki náði að skipta um kúrs í nýjasta hugðarefnið þess leiðandi að maður gekk út með ferska hugvekju og hollráð í kolli. Það fór sjaldan á milli mála að þú barst með sér mikla vísindasnilli á ólíkum sviðum og hafðir vilja til verks að fylgja eið vísindanna.

Að sama skapi stafaði af þér skynsemi og viðmótshlýja og umfram allt traust til góðra verka. Þú bjóst yfir óþreytandi atorku og fylgni til að koma þér inn í fjölda mála og lagðir þig fram við að skilja vísindin í hvert sinn að baki hverju máli. Það gaf málum ætíð sterkar undirstöður, sveipað af sköpunarmætti þínum og festu. Enda léstu margt gott af þér leiða og skilaðir sýnilegum árangri.

Sumir áttu erfiðara en aðrir með hreinskilni þína og hispurslausar ábendingar. Þú áttir það til að skjóta fast teldir þú vísindalegar forsendur ekki standast skoðun og skiptu afleiðingar þar litlu máli. Að sama skapi gættir þú þín ætíð að ganga ekki út fyrir þinn eigin þekkingarramma og sóttir ráð til okkar starfsmanna þinna áður en þú tókst ákvörðun, sérlega í málum sem stóðu utan við þína fagþekkingu og barst virðingu fyrir ákvörðunum okkar og tillögum. Leiðtogahæfni þín og þekking á eigin takmörkunum kom þar sterkt fram.

Forvitni þín gerði það að verkum að þú sást lífið með nýjum augum á hverjum degi og sagðir hug þinn. Þú varst lítið fyrir að halda í viðteknar skoðanir og taldir framförum best náð með lífrænu stjórnarfari, hvað svo sem það þýddi fyrir okkur hin, sem var kannski tilgangurinn.

Þessi sterki kappræðumaður lét á sjá þegar krabbameinið tók sér bólfestu. En með eldmóð að vopni varstu má segja óþreytandi og stóðst þína vakt og gafst ekkert eftir. Baráttumaður til hinsta dags.

Síðast sá ég þig hér á Landsvirkjun á mínum nýja vinnustað fyrir nokkrum vikum þar sem við áttum okkar síðasta tilgerðarlausa og glettna spjall um allt og ekkert.

Frá þér vil ég bera með mér áfram sköpunargleði þína, kímnigáfu og léttleika þegar á móti blæs, raunsæi og hyggjuvit en umfram allt hreinskilni þegar hún skiptir mestu máli.

Ég þakka þér fyrir allar okkar góðu stundir og megi minning þín lifa áfram innra með okkur öllum.

Jónas Ketilsson, fv. yfirverkefnisstjóri og staðgengill.

Oft myndast sterk vináttutengsl á menntaskólaárunum. Þannig var því farið með okkur nokkra félaga sem útskrifuðumst af eðlisfræðibraut MR 1971. Það er mikilvægt að rækta vináttuna – það gerist ekki af sjálfu sér. Þessi tengsl hafa styrkst hin seinni ár. Síðustu þrjá áratugi höfum við borðað saman morgunmat á heimilum okkar fyrsta sunnudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Í framhaldinu er farið í göngutúr. Eftir að flestir okkar hættu að mestu að vinna höfum við borðað saman vikulega í hádeginu. Meðan Guðni og Bryndís bjuggu í Svíþjóð var Guðni með okkar þegar hann var staddur á landinu en varð fastur hluti af hópnum er þau fluttu til landsins árið 2008.

Hópurinn hefur hjólað saman úti á landi í mörg ár á vorin og stundum líka á haustin, það voru góðar ferðir. Eftir hjólatúr á laugardegi er alltaf veisla um kvöldið – stundum í Skorradal, bústað Guðna og Bryndísar þar sem Guðni lék á sitt úkúlele og dreifði söngheftum til okkar hinna – jafnvel þeir ólagvissustu tóku undir. Guðni var ekki sá þrekmesti í hópnum en örugglega sá þrautseigasti, við dáðumst oft að seiglunni í honum og bjartsýni á eigin getu – hann komst langt á því. Guðni hafði gjarnan sinn háttinn á, var á hjóli sem hægt var að brjóta saman og neitaði að nota hjólatösku fyrir nesti og varaföt, lét sér nægja plastpoka og teygjur. Einna skemmtilegust var hringferð um Hvammssveit, Fellsströnd og Skarðsströnd. Þar var Guðni á heimavelli og þekkti vel til staðhátta og sögunnar. Hann fór með okkur í Ólafsdal og síðan um Staðarhólsdal og inn að Kjarlaksvöllum þar sem hann hafði verið í sveit á sumrin. Guðni var mjög góður sögumaður þótt ekki tryðum við alltaf alveg öllu sem hann sagði.

Í menntaskóla var Guðni sá sem stóð fyrir fjörinu í bekknum. Hann tók oft að sér að halda uppi löngum og skemmtilegum samræðum við kennarann og fresta þar með því óumflýjanlega, að vera tekinn upp að töflu. Guðni var skapgóður, fljótur að hugsa, víðlesinn, úrræðagóður og hugmyndaríkur. Honum datt líka svo margt skemmtilegt og sniðugt í hug. Við vorum ekki allir alltaf sammála honum en samræðurnar voru jafnan góðar. Guðna tókst að skapa sérstaka stemningu við morgunverðarborðið – þar ríkti sjaldan ládeyða. Hann samdi nýlega í veikindum sínum lag og ljóð til stuðnings Úkraínu í stríði þeirra við Rússa. Textinn kom til hans í draumi, að eigin sögn. Lagið má finna á Spotify og YouTube undir nafninu „Ode to Ukraine“. Já, Guðna var ansi margt til lista lagt.

Guðni er sá fyrsti okkar áttmenninganna sem fellur frá, áður hafa tveir okkar misst maka sína. Svona gengur víst lífið fyrir sig og lítið annað við því að gera en eiga góðar stundir saman meðan stætt er. Það gerði Guðni svo sannarlega. Hann bar sig ótrúlega vel í margra ára erfiðri glímu við krabbamein. Alltaf jafnhress og kátur þótt hann kæmist varla fetið. Við félagarnir dáðumst oft að honum. Við munum sakna þessa góða, glaðbeitta og félagslynda vinar okkar.

Við bekkjarfélaganir og konur okkar sendum Bryndísi og fjölskyldu Guðna okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gylfi, Ingvar, Jón, Kristján, Ólafur, Yngvi og Þorbergur.

Ég kynntist Guðna þegar hann kom til starfa á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins á 8. áratug síðustu aldar. Með okkur tókst góð vinátta og leiðir okkar lágu oft saman næstu árin. Við vorum báðir í Nordtest samnorrænu rannsóknanefndinni og áhugamenn um góða byggingarhætti og heilbrigð hús. Við tefldum mikið og vorum saman í matarklúbb þar sem oft var glatt á hjalla. Guðni var skarpgáfaður öðlingsmaður og dagfarsprúður. Hann var þægilegur í umgengni og hafði góðan húmor. Árið 2005 fór ég á fund í Stokkhólmi og hafði samband við Guðna, sem þá var orðinn prófessor við Konunglega tækniháskólann. Guðni tók okkur hjónum tveim höndum, bauð okkur í siglingu um sundin kringum Stokkhólm á eigin bát og lék á als oddi. Það var ljúfur dagur. Ég mun ætíð minnast þessa góða drengs með hlýhug og þakklæti. Það er hægt að lýsa Guðna með einu orði: ljúflingur.

Ég þakka honum samverustundirnar og votta aðstandendum hans og ættingjum mína dýpstu samúð.

Óli Hilmar Briem.

Kær félagi, dr. Guðni A. Jóhannesson eðlis- og byggingarverkfræðingur, er fallinn frá. Hann gerðist félagi í Verkfræðingafélagi Íslands árið 1984 og hlaut heiðursmerki félagsins fyrir fjölbreytt og farsæl störf árið 2016. Hann sýndi félaginu bæði hollustu og velvild.

Guðni lauk fyrrihlutaprófi í eðlisverkfræði frá Háskóla Íslands 1973, Civ.Ing.-prófi frá LTH í Lundi í Svíþjóð 1976 og doktorsprófi í húsagerð frá byggingartæknideild LTH 1981. Guðni var sérfræðingur við byggingartæknideild LTH 1975-81 og settur dósent 1981-82. Hann vann í hlutastarfi hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og rak eigin verkfræðistofu 1982-90. Var skipaður prófessor í húsagerð með sérstakri áherslu á orkubúskap við KTH 1990 og jafnframt yfirmaður húsagerðardeildar frá 1993. Á farælum starfsferli kom Guðni víða við. Hann átti þátt í að stofna nokkur sprotafyrirtæki og starfaði sem stjórnandi og átti sæti í stjórnum nokkurra fyrirtækja. Árið 2008 var Guðni ráðinn orkumálastjóri, en var einnig gestaprófessor við KTH og HR. Hann var gerður að heiðursdoktor við háskólann í Debrecen í Ungverjalandi árið 2008.

Framlag Guðna til nýsköpunar í byggingariðnaði er umtalsvert. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði hann áhrif varmatregðu húsa á hitasveiflur við breytilegt álag og orkunotkun. Einnig beindust rannsóknir hans að áhrifum kuldabrúa á orkunotkun húsa og hugsanlegan sveppagróður. Þessar rannsóknir eru hluti af þeim fræðilega grunni sem liggur að baki því að einangra steinhús að utanverðu. Fyrir rannsóknirnar og eftirfylgni hlaut Guðni sænsku steinsteypuverðlaunin.

Guðni öðlaðist tvö einkaleyfi í gegnum rannsóknir sínar. Það fyrra fjallar um sérstaka gerð kælirafta sem gerir beina nýtingu kalds neysluvatns til kælingar á húsnæði mjög hagkvæma. Seinna einkaleyfið fjallar um nýtt byggingarkerfi, CASABONA. Þar eru blikkstoðir og þétt steinull eða frauðplast felld saman og skapa mikla burðargetu og stífleika, en jafnframt mjög góða hljóð- og hitaeinangrun. Þessi aðferð hefur verið notuð víða á Íslandi og gefið góða raun.

Guðni gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum. Árið 1984 var hann skipaður í verkefnisstjórn um orkusparnað á vegum iðnaðarráðuneytisins, sem vann að skipulagðri ráðgjöf og lánsfjármögnun fyrir húseigendur á köldum svæðum á Íslandi. Þá var hann var einn af stofnendum Búsetahreyfingarinnar.

Leiðir okkar Guðna lágu saman víða. Við vorum sveitungar á Seltjarnarnesi og hittumst reglulega á förnum vegi. Á árunum 2010-21 áttum við samleið í raforkumálum en þá sat ég í stjórn Landsnets og Guðni var orkumálastjóri sem ákvarðaði ýmislegt varðandi rekstur Landsnets. Þess utan hitti ég þau Bryndísi við margvísleg tækifæri þar sem við ræddum allt mögulegt og samvera með þeim var ávallt einstaklega ánægjuleg. Guðni barðist hetjulega við krabbamein í nokkur ár og baráttuvilji hans í embætti orkumálastjóra var aðdáunarverður. Hlýlegt viðmót hans og bros gleymist ekki.

Stjórn VFÍ sendir fjölskyldu Guðna hugheilar samúðarkveðjur. Minning um mætan mann og góðan félaga mun lifa.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Ég hitti Guðna fyrst fyrir nærri 30 árum, þá nýkominn í nám við Konunglega verkfræðiháskólann, KTH, í Stokkhólmi. Í stuttu máli sagt, þá er ég þar enn og á það Guðna Jóhannessyni að þakka. Góður stuðningur í námi og síðar doktorsnámi var mikils virði og eins að það var skemmtilegt að mæta í vinnu hjá Guðna. Að sama skapi var það dýrmætt að hann gaf sér tíma til að halda sambandi eftir að hann flutti aftur til Íslands.

Guðni var mikilsvirtur prófessor í húsagerð og þekktur fyrir rannsóknir á breiðu sviði innan húsagerðar og byggingareðlisfræði. Þar má geta rannsókna sem snúa að orkunotkun og hitun húsa ásamt aðferðum og reiknilíkönum fyrir rakaflutning. Þessar rannsóknir náðu frá eðlisfræðilegum líkönum til hönnunar húsa og tæknibúnaðar og allt frá innri eiginleikum byggingarefna til byggingarhluta, húsa og hnattrænna áhrifa. Sem dæmi má nefna tímaháð reiknilíkön fyrir orkunotkun bygginga sem taka tillit til varmarýmdar í byggingarefnum og reiknilíkön fyrir jarðhita og borholur en líka rannsóknir á ofureinangrunarefni fyrir byggingar. Þetta, og svo miklu meira, er að finna í þeim fjölda vísindagreina, bóka og kennslubóka sem Guðni skilur eftir sig. Það má heldur ekki gleyma að nefna það veganesti sem Guðni gaf doktorsnemum víðs vegar um heiminn. Þeir minnast hans nú með söknuði.

Guðni var líka ötull í hönnun og þróun ýmissa tækninýjunga og verður þar að minnast á Casa Bona-byggingarkerfið sem notað hefur verið í ýmsar tegundir húsnæðis, í mörgum löndum, allt frá verðlaunuðum íbúðarhúsum til hótelbygginga og jafnvel húsbáta sem meðal annars setja svip sinn á hafnarhverfi nálægt miðborg Stokkhólms.

Guðni hafði bráðsmitandi áhuga á fræðunum og kom vel fyrir sig orði og var flugbeittur í vísindalegri gagnrýni en vingjarnlegur með afbrigðum. Þetta ásamt hæfileikanum til að ræða vísindin við leika sem lærða aflaði vinsælda bæði á vísindalegum ráðstefnum sem og í kennslu og annars staðar. Það var þess vegna oft röð fyrir utan skrifstofuna á KTH. Þar tók Guðni vel á móti nemendum, starfsfólki, vísindafólki og uppfinningamönnum og fóru karlar og konur tvíefld af þeim fundum.

Þegar Guðni var kallaður til góðra verka á Ísland fyrir um 15 árum skildi hann eftir sig mikið af góðum námskeiðum, kennsluefni og kennsluaðferðum sem hann hafði mótað. En ekki síst skildi hann eftir sig samhuga og samhenta húsagerðardeild með skýra stefnu í kennslu og rannsóknum.

Með innilegum samúðarkveðjum til Bryndísar, Gunnhildar, Sverris og allrar fjölskyldunnar.

Kjartan Guðmundsson, KTH, Stokkhólmi.