Arnar Ingi Guðbjartsson fæddist í Reykjavík 11. janúar 1990. Hann lést 25. janúar 2023 á krabbameinsdeild Landspítalans.

Foreldrar Arnars Inga eru Guðbjartur Stefánsson flugvirki, f. 1969, og Anna Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 1970. Systur Arnars Inga eru Elísa Sif, f. 1992, og Steinunn Hlín, f. 2002.

Dóttir Arnars Inga er Fanney Rán, f. 2009. Fyrrverandi sambýliskona Arnars er Sóldís Dröfn Kristinsdóttir.

Arnar ólst upp í Árbæ og Seláshverfi. Hann stundaði nám í Borgarholtsskóla, í grunndeild bíliðna. Meðal þess sem hann vann við eftir það er standsetning nýrra bíla, hann vann á tjónaverkstæði, var hlaðmaður við flugvélar, vann við hellulagnir, fór til Noregs og vann þar sem verkamaður hjá Ístaki og vann um tíma í Álverinu í Straumsvík svo eitthvað sé nefnt.

Síðustu ár vann hann sem stuðningsfulltrúi hjá Klettabæ og Vinakoti hjá Reykjavíkurborg fyrir börn sem þurfa sértæka þjónustu.

Útför Arnars Inga fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 13.

Það er ekki í genum okkar að setjast niður og skrifa minningargreinar um börnin okkar. En hér er ég sestur við slíkt, fullur af sorg og söknuði eftir elsku drengnum okkar og vini mínum sem var tekinn allt of snemma frá okkur.

Arnar Ingi var frumburður okkar Önnu og það var mikil gleði að fá þennan fallega bjarta dreng í fangið og njóta þess að sjá hann dafna og þroskast. Við vorum týpískir feðgar sem nutum samvista hvor við annan og vorum duglegir að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera saman.

Arnar var orkumikill sem drengur og átti auðvelt með að tileinka sér það sem hann tók sér fyrir hendur.

Fimm ára greindist Arnar með krabbamein, sem var mikið áfall fyrir okkur. Það var erfitt fyrir fimm ára snáða að skilja svona veikindi og oft voru dagarnir krefjandi og erfiðir.

Þarna var mótlæti sem flestir hefðu bognað undan, en þú einhvern veginn, þrátt fyrir ungan aldur, stormaðir í gegnum veikindin á tiltölulega stuttum tíma. Það var á þessum árum sem sterkur persónuleiki þinn mótaðist.

Arnar var vinmargur sem barn og fótboltinn var hans líf fram undir unglingsaldur þegar aðrir hlutir tóku við.

Í kringum fermingu kom nýtt áhugamál, mótorkross. Ég er þakklátur í dag fyrir að þú náðir að fá mig í þetta skemmtilega áhugamál sem við stunduðum svo fallega saman í um 10 ár, án þessa drifkrafts sem þú hafðir við að draga mig í þetta hefði ég sennilega aldrei kynnst mörgum af mínum bestu vinum í dag. Ferðalögunum, samverustundunum og brasinu saman þennan tíma hefði ég aldrei viljað sleppa.

Þrátt fyrir að áhugamálin hafi breyst hjá okkur sl. ár þá var ástríða okkar fyrir lífinu nokkuð lík og þess vegna tengdum við vel saman í því sem við tókum okkur fyrir hendur þó að við værum kannski í því hvor í sínu horni.

Arnar var síðustu ár mjög duglegur að rækta sjálfan sig andlega og líkamlega og var með mikla ástríðu fyrir góðum heilbrigðum lífsstíl. Það voru því mikil vonbrigði þegar ólæknandi veikindi bönkuðu upp á í október 2021.

Þrátt fyrir þau erfiðu veikindi neitaði hann að gefast upp og var ákveðinn í að sigra þetta mein, annað var ekki til umræðu. Eins og þú sagðir svo fallega elsku drengurinn minn: einn dag í einu, eitt skref í einu, einn andardrátt í einu, þá mun ég sigra þetta.

Þessir sl. 15 mánuðir voru skrítin blanda af veikindum, góðum stundum og samveru sem ég mun ávallt geyma í brjósti mér elsku besti drengurinn minn. Ég gat alltaf hjálpað þér við allt sem þú baðst mig um og ég vildi bara svo heitt að ég hefði getað gert eitthvað til að lækna þig því ég hlakkaði svo mikið til að verða gamall með þér snillingurinn minn. Ég mun aldrei gleyma þínum síðustu orðum til mín: Ég elska ykkur.

Takk fyrir allar stundirnar hér á jörðu, ég veit um nokkra sem fagna samveru þinni fyrir handan.

Elsku drengurinn minn, við fjölskyldan munum passa Fanneyju og Freyju og hlúa að þeim eins og þú gerðir svo vel.

Með þér var lífið svo ljúft og hreint

og ljómi yfir hverjum degi.

Í sál þinni gátum við sigur greint

sonurinn elskulegi.

Þú varst okkur bæði ljóst og leynt

ljósberi á alla vegi.

Þinn

pabbi.

Elsku drengurinn minn, mömmu hjarta er svo brotið og tárin streyma við það eitt að reyna að skrifa nokkrar línur til minningar um þig. Takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar okkar, þá sérstaklega þessa seinustu fimmtán mánuði, þær geymi ég djúpt í hjarta mínu því þú náðir að draga mig með þér í alls konar vitleysu sem engan hefði grunað að við mundum gera. Þú lifir í hjarta mínu að eilífu og verður alltaf í huga mínum. Elska þig alltaf gullið mitt.

Þín

mamma.

Í dag kveðjum við stóra bróður okkar hann Arnar Inga sem var tekinn frá okkur allt of snemma, við áttum eftir að gera svo margt saman. Eftir stöndum við systur með sár í hjörtum okkar en eftir sitja allar góðu minningarnar og góðu frasarnir þínir sem við munum ylja okkur við það sem eftir er. Elsku Arnar, þú skilur eftir stór fótspor í hjörtum okkar. Þínar systur

Elísa Sif og

Steinunn Hlín.

Það hefði aldrei hvarflað að mér að ég myndi sitja hér og skrifa minningarorð til þín og ég verð að viðurkenna að það er ólýsanlega erfitt. Ég man það eins og í gær þegar við hittumst fyrst þegar ég, Hlín og Davíð áttum að taka upp íþróttafrétt og höfðum ákveðið að gera innslagið um mótorsport og mig minnir að hann Davíð hafi þekkt þig og fengið þig til að vera okkar viðfangsefni í þættinum. Ég sá þig fyrst í öllum gallanum á mótorhjólinu þínu og þú varst svo góður á hjólinu og leyfðir mér að sitja aftan á með þér. Ég féll strax fyrir þér, enda ekki annað hægt, þú varst svo sjarmerandi, fyndinn og allra helst svo góður. Ég var heppin að með þér fylgdi hún elsku Fanney sem mér þykir ennþá svo vænt um. Þú varst svo frábær pabbi og ég veit að þú munt halda því áfram og fylgja henni ásamt öllum þeim sem voru í lífinu þínu að eilífu.

25. janúar er mjög skrítinn dagur, en þann dag fyrir 6 árum lauk sambandinu okkar en það var aðeins bærilegra en að missa þig alveg eins og núna, þar sem við héldum áfram að vera mjög góðir vinir og héldum áfram að vera hvort í lífi annars. Þú varst alltaf að hvetja mig í öllum þeim uppátækjum sem mér datt í hug, við vorum alltaf til staðar hvort fyrir annað og gátum talað um allt milli himins og jarðar og þú varst svo oft að segja mér frá hvernig Fanney væri að standa sig og að þú værir svo stoltur af henni.

Þú varst alltaf til staðar fyrir alla og svo gríðarlega stór fyrirmynd og með svo mikið keppnisskap. Þú sýndir öllum síðustu mánuði hvað þrautseigja er og hvernig við eigum aldrei að gefast upp. Lífið er svo sannarlega núna

Mér þykir rosalega vænt um okkar síðasta samtal og okkar síðustu orð hvors til annars.

Ég elska þig, hef alltaf gert það og mun aldrei hætta því.

„Þú varst fallega laglínan í takti lífs míns.

Tónlist lífs þíns lifir áfram að eilífu.“

(Þitt jarðarber)

Elsku Fanney, Anna, Guðbjartur, Steinunn, Elísa, Sóldís og öll fjölskylda og ástvinir Arnars, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Jónína Bjarnadóttir.

Arnari Inga, bíla- og krossarastrák, kynntist ég er hann kom inn í líf dóttur minnar fyrir 15 árum, árið 2008. 14. ágúst 2009 kom inn í líf þeirra ömmustelpan mín, elsku Fanney Rán, gullmoli og augasteinn foreldra sinna, og þótt þau hafi farið hvort í sína áttina þá var einstakt vinasamband og þau samstiga með Fanneysín eins og þau kölluðu hana oft.

Fanney Rán var ávallt aðra hverja viku hjá pabba sínum og áttu þau innilegt samband sín á milli, miklir félagar og vinir og hún gat talað um allt og ekkert og hann hafði svör við öllu, alltaf með góð ráð og hlustaði alltaf. Og tala nú ekki um öll áhugamálin sem þau deildu, hvort sem það voru bílar, mótorhjól, krossarar, dýr, glíma eða pokemon, allt með Fanneysín, sem er frábær blanda af mömmu sinni og pabba, fékk það besta frá báðum.

Elsku Arnar Ingi barðist eins og hetja þar til yfir lauk, hann ætlaði að sigra þennan vágest, þvílíkt æðruleysi og barátta sem maður varð vitni að, og alveg sama hvernig á stóð þá var hann alltaf til staðar fyrir Fanneyju sína. Arnar átti marga drauma sem hann langaði að deila með dóttur sinni, hvort sem það var að ferðast á húsbíl út um allt eða búa í sveit með dýr og eftir að upp kom að Fanney væri að flytja í Þorlákshöfn þá ætlaði hann líka að athuga með húsnæði þar svo þau gætu verið nálægt hvort öðru. Ég veit að hann verður ávallt við hlið hennar og styður hana í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og fylgist vel með Fanneysín.

Elsku Fanney Rán, amma elskar þig til tunglsins og til baka.

Elsku Guggi, Anna, Elísa Sif og Steinunn Hlín, mínar innilegustu samúðarkveðjur og þið megið vera svakalega stolt af stráknum ykkar og tala nú ekki um í þessari baráttu, og þið svo sterk fyrir hans hönd og samstiga, ég veit hvaðan hann hefur eldmóðinn og styrkleikann.

Ástarkveðjur,

Valgerður Hjördís Falk Rúnarsdóttir.

Minningarnar flæða um hausinn á mér þótt erfitt sé að negla þær niður til að fá að skoða þær betur; hlátur, gleði, bros og ævintýri eru mér efst í huga þegar ég hugsa til þín. Ég gleymi því eflaust aldrei hvar ég hitti þig fyrst. Við vorum eins og svo oft áður að gera okkur glaðan dag og lá leiðin niður á Players í Kópavogi, Steini félagi kynnti okkur og aldrei hefði mig órað fyrir því að þetta einstaka vinasamband kæmi út úr þessu eflaust misgáfulega kvöldi.

Við brösuðum mikið saman og vorum góðir í að hvetja hvor annan áfram þótt við vissum eflaust báðir að við værum að gera eitthvað af okkur, saman vorum við einfaldlega óstöðvandi. Með tímanum þroskuðumst við nú eitthvað og fórum að vinna fram á við með breyttum áherslum og stærri verkefnum, en það sem alltaf var mikilvægast var að sama hvað var í gangi varstu alltaf til staðar fyrir mig. Arnar Ingi var sá sem alltaf var hægt að treysta á að kæmi þótt þú létir alveg bíða eftir þér líka. Það skipti ekki máli þótt allt væri í skrúfunni; ef ég hringdi og þú heyrðir að ég þurfti þig þá varstu mættur.

Ég gleymi ekki deginum sem ég mæti upp í Viðarás að plata þig í eina vitleysuna í viðbót. Ég vissi alveg upp á hár hvað ég var að gera þegar þú fékkst að prófa hjólið og brosið sem þú komst með til baka eftir þennan örstutta rúnt á hjólinu var nóg til að planta hugmyndinni um götuhjól. Nokkrum árum seinna fékk ég símtalið: Anton, við erum að fara að skoða hjól. Eftir það varð ekki aftur snúið.

Ég þakka þér fyrir tímann sem við áttum saman elsku vinur, hann var mér einstakur og dýrmætur og gæfi ég allt fyrir smá stund í viðbót með þér, einn rúnt, eitt spjall eða eins og eitt eitthvað sem við áttum ekki að vera að gera. Elsku Arnar minn. Í minningu þinni mun ég eftir bestu getu lifa eins og þú gerðir, óhræddur, opinn og hjartahlýr, ég mun setja mér nýjar áskoranir og klára það sem við ætluðum að gera saman. Við hittumst aftur elsku vinur og förum yfir þetta saman, á meðan held ég áfram að halda utan um þá sem stóðu þér næst og geri mitt besta til að passa upp á pabba þinn og mömmu, yndislegu systur þínar og litla engilinn þinn.

Þinn besti vinur,

Anton Freyr.

Elsku yndislegi engillinn minn, nú hefur þú fengið vængi og flogið á brott frá okkur. Á móti þér hefur verið vel tekið, nú hleypur þú um með fólkinu þínu og öllum dýrunum sem finna á sér að þarna er kominn dýravinur mikill. Já elsku vinur minn, því miður munum við ekki eiga meiri tíma hér saman, ekki meira spjall í bili. En elskan mín, mig langar að þakka þér fyrir tímann okkar saman, þú í dýraríkinu er þú komst í heimsókn, elskaðir svo að knúsast með dýrin. Allt spjallið okkar, á næturnar er aðrir sváfu og við lágum andvaka þá poppuðum við upp á aðalmiðlinum okkar FB eða snappinu og spjölluðum um heima og geima, stöppuðum stálinu hvort í annað, ég með orðunum „áfram gakk“ og þú sendir: „Við getum þetta, við munum sigra! Við sigrum þetta saman!“ sagðir þú alltaf, alltaf sami baráttuhugurinn.

Já við tengdumst fyrst og fremst í gegnum móður þína, æskuvinkonu mína, svo ég fylgdist með þér frá fæðingu, en fyrst greindist ég með k-meinið og svo þú, þá fórum við að fylgjast að og með hvort öðru, ræða sjúkdóminn okkar á milli. Ég mun sakna þín, sakna heimsókna þinna, spjallsins okkar, það er sárt að ég sætti mig við að nú líði þér betur, þú hefur nóg að gera, hugsa um dýrin, rækta blóm og svo er örugglega fullt af pokemon sem sloppið hefur frá þér hérna á jörðinni og þú eltist við það þarna uppi, ég sé þig fyrir mér og get ekki annað en brosað.

Elsku vinur, komið er að kveðjustund. Ég bið alla engla að vaka yfir þér, fylgja þér hvert fótmál, mundu að ef þú þarft einhvern að spjalla við verð ég hér og hlusta, annars treysti ég að englarnir ljái þér eyra. Vertu sæll elsku vinur, sem genginn ert, blessaður sért þú, blessuð sé minning þín, hana geymi ég í hjarta mér.

Elsku vinkona mín, Anna, Guðbjartur, Elísa, Steinunn og Fanney, missir ykkar er mikill, söknuður ykkar er mikill, en ást ykkar til hans er líka mikil og með ástinni getið þið saman varðveitt allar fallegu minningarnar um þennan fallega gleðigjafa ykkar, hann mun fylgjast með ykkur, hann gefur ykkur styrk.

Arnar Ingi þökk sé þér og góða ferð vinur.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þín vinkona alltaf,

Dýrleif Ólafsdóttir.