Gunnar Óli Jónsson fæddist 25. mars 1957. Hann andaðist 28. janúar 2023. Gunnar var jarðsunginn 10. febrúar 2023.

Elsku Gunnar tengdapabbi minn tók mér vel frá fyrsta degi, ég þá 19 ára stelpuskott og farin að stelast inn í forstofuherbergi sonar hans reglulega og gisti líklega oftar þar, í Grafarvoginum, en heima hjá mínum foreldrum. Það var meiri „þjónusta“ þar, því húsráðendur dekruðu mig alla tíð og hef ég skynjað allar götur síðan hversu hjartanlega velkomin ég ávallt er hjá tengdaforeldrum mínum og upplifi að ég tilheyri fjölskyldu Gunnars og Ólafar.

Þegar við Gummi fórum síðar að búa spilaði Gunnar stórt hlutverk, gaf okkur ráðleggingar og aðstoðaði með allt sem þurfti. Eftir að við keyptum eigið hús var hann ómetanlegur. Hvort sem það var að skipta um öll skólprörin úti og inni eða gera upp baðherbergi og eldhús, alltaf var hann mættur til að hjálpa okkur og gefa góð ráð. Lét ekkert krabbamein stoppa sig í því að vera okkur innan handar.

Hann átti svo sannarlega fallegt samband við börnin sín, barnabörn og eiginkonu. Ekkert skipti hann meira máli en fjölskyldan og velferð okkar allra. Ég á eftir að sakna þess að heyra Gumma kjafta við hann í löngum símtölum og heyra hann taka með syni sínum í trommurnar eða gítarinn. Að spila og hlusta á tónlist, að vera innan um vini og fjölskyldu, þar leið honum best. Ég mun sakna þess að hann baki pönnukökur og eldi lambalæri, kenni okkur taktana, sakna þess að hlusta á hann kjafta við Kríu dóttur mína á meðan þau lita saman eða baka. Sakna rólegrar nærveru hans og kærleika.

Sakna þess að tala við hann um mikilvæg málefni eins og trúmálin eða öllu heldur rökræða við hann um þau enda var hann mikill Guðsmaður en ég heldur frjálslegri í þeim málum. Það var gaman að ræða við hann um möguleikann á því að öll trúarbrögð í grunninn byggðust á því sama og jafnvel með sama Guð. Hann var ekki sammála mér en ávallt til í að ræða og hlusta á önnur sjónarhorn og hann sýndi mér þá virðingu að reyna ekki að breyta minni skoðun. Ég held að hann hafi verið svo handviss í sinni sök að hann þurfti ekkert að hafa rétt fyrir sér eða sanna eitt eða neitt fyrir öðrum. Enda þegar ég ræddi við hann um dauðann eftir að veikindin voru farin að taka mikið á, þá var hann spenntur að komast að því hvað biði hans, hlakkaði til að hitta sinn Guð og vissi alveg að vel yrði tekið á móti honum. Það er allavega víst að ef himnaríki er til þá er Gunnar þar, en ég veit að hann er líka hér allt í kringum okkur, passar upp á okkur núna eins og hann hefur alltaf gert.

Hera Fjölnisdóttir.

Ég fékk þau forréttindi að starfa með Gunnari Óla Jónssyni um aldarfjórðungs skeið. Leiðir okkar lágu saman hjá Vatnsveitu Reykjavíkur í byrjun níunda áratugarins. Þá hafði Gunnar unnið við viðhald í dreifikerfinu í nokkur ár.

Öll þau verk sem Gunnar tók sér fyrir hendur vann hann vel og samviskusamlega. Gunnar var fagmaður góður, þekkti vel til verka og hafði gott vald á viðhaldi og viðgerðum. Hann kunni allar útfærslur viðgerða og lagnavinnu, hvort heldur um var að ræða lagnir á nýjum pípum eða viðgerðir á upphaflegu pottlögnunum frá 1909. Blýpökkun og þess háttar viðgerðar- eða tengivinna er kunnátta sem er að hverfa úr þekkingarheiminum en stundum þurfti að grípa til hennar og þá var gott að geta leitað til Gunnars og notið leikni hans og kunnáttu.

Gunnar var strax á níunda áratugnum gerður að vettvangsverkstjóra yfir viðhalds- og lagnavinnu í dreifikerfinu. Þetta var yfirgripsmikið og erfitt verkefni enda margir vinnuflokkar dreifðir um alla borgina. Gunnar var mörgum kostum búinn. Auk þess að vera frábær fagmaður var hann einstaklega kurteis í framkomu, þetta sem á nútímamáli er kallað að hafa mikla félagslega færni. Þetta kom sér ákaflega vel fyrir samstarfsmennina, vatnsveituna og síðast en ekki síst fyrir vatnsnotendur. Ef viðgerðir leiddu til þess að loka þurfti tímabundið fyrir vatn þá höfðu vatnslausir notendur jafnan góðan skilning á því. Fyrir kom að notandi hafði misgóðan skilning á ástandinu og þá var gott að hafa Gunnar sem andlit og málsvara vatnsveitunnar með sína diplómatísku framkomu til að skýra málin og alltaf leiddi það til fullrar sáttar.

Það var ekki aðeins á starfsvettvangi sem við samstarfsmenn nutum hæfileika Gunnars. Á skemmtunum tók Gunnar oft upp gítarinn og skemmti ásamt nokkrum starfsfélögum, sem saman mynduðu Vatnsveitubandið. Þetta voru skemmtileg kvöld sem lengi verða höfð í minnum.

Gunnar hafði lengi barist við erfiðan sjúkdóm og varð að lokum að láta undan. Hann dó langt um aldur fram og er öllum sem til hans þekktu mikill harmur. Minningin um einstaklega góðan og hæfileikaríkan dreng mun lengi lifa. Ég og fjölskylda mín sendum fjölskyldu Gunnars, ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Pétur Kristjánsson.