Ragnar Árnason
Ragnar Árnason
Ragnar Árnason: "Vanhugsuð framkvæmd Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislögum er til þess fallin að koma í veg fyrir að stærðarhagkvæmni sé nýtt og unnt sé að lækka vöruverð."

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins ritar grein í Mbl. þann 14.2. sl. Í grein þessari andmælir hann sjónarmiðum sem fram koma í grein minni frá 11.2. um hlutverk Samkeppniseftirlitsins.

Stærðarhagkvæmni og vöruverð

Í grein minni var vakin athygli á þeirri einföldu staðreynd að vöruverð til neytenda geti aldrei verið undir framleiðslukostnaði vörunnar. Í fjölmargri framleiðslu væri hins vegar veruleg stærðarhagkvæmni þannig að til að lágmarka framleiðslukostnað á vörueiningu þyrftu fyrirtækin að vera stór. Því væri það þjóðhagslega hagkvæmt og skapaði möguleika á að lækka vöruverð til neytenda að nýta stærðarhagkvæmni að því marki sem unnt er.

Ísland er hins vegar lítið land og markaðir smáir. Á flestum mörkuðum er ekki rúm fyrir mörg fyrirtæki af hagkvæmri stærð. Til þess að þjóðin geti nýtt sér þá stærðarhagkvæmni sem nútímatækni býður upp á er því óhjákvæmilegt að fyrirtækin öðlist vissa markaðsstöðu.

Um tvær leiðir að velja

Hið þjóðhagslega val stendur því á milli tveggja leiða. Önnur leiðin er að reyna að hafa sem flest fyrirtæki á öllum mörkuðum og þar með í vissum, en takmörkuðum, skilningi hátt samkeppnisstig. Ókosturinn er að sú leið læsir íslenskan atvinnurekstur í prísund óhagkvæms smárekstrar þar sem framleiðslukostnaður er óhjákvæmilega hár og þar með vöruverð. Hin leiðin er að heimila fyrirtækjum að nýta kosti stærðarhagkvæmni og takast á við það ef þau reyna að misnota markaðsstöðu sína. Sú leið hámarkar örugglega þjóðarhag. Jafnframt er líklegt að hún muni lækka vöruverð. Sé sæmilega að eftirliti með misnotkun markaðsstöðu staðið tryggir þessi leið að vöruverð til neytenda muni lækka.

Ef marka má grein Páls Gunnars vill hann fara fyrri leiðina, a.m.k. þar til annað sannast. Ástæðan virðist vera sú annars vegar að stofnun hans sé með lögum falið að efla samkeppni og hins vegar sú trú hans að samkeppni leiði ávallt til lægra vöruverðs (sbr. t.d. umsögn Samkeppniseftirlitsins nr. 30/1922). Hvorug þessara ástæðna er gild. Fyrri ástæðan byggist á óhæfilega þröngri hans túlkun á lögum um Samkeppniseftirlitið (lög nr. 44/2005). Í markmiðagrein þeirra laga (1. gr.) er skýrt tekið fram að markmiðið sé þjóðhagsleg hagkvæmni og samkeppni eigi alls ekki að vera sem allra mest. Síðari ástæðan er hagfræðilegur misskilningur eins og tilvera stærðarhagkvæmni sýnir og nánar var rakið í fyrri grein minni frá 11.2. sl.

Veigamest er þó að þessi leið er ekki fær til lengdar. Í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi nútímans geta fyrirtæki sem hafa hærri framleiðslukostnað en önnur ekki lifað til lengdar. Þau veslast upp og hverfa. Þær þjóðir sem reyna að byggja efnahagslíf á slíkum rekstri verða að sama skapi fátækari en aðrar og missa fólk sitt til útlanda. Sú leið smáfyrirtækja sem Páll Gunnar vill fara gagnast því alls ekki neytendum. Þvert á móti.

Sjávarútvegur og samkeppniseftirlit

Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki sem framleiða fyrir innanlandsmarkað er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn.

Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróast í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar. Með þessu hefur honum tekist að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum að íslenskur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi).

Hver hefði þróun íslensks sjávarútvegs orðið ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna? Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki svo ekki sé minnst á lóðréttan samruna milli veiða og vinnslu. Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenskum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum. Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari.

Sagan um Mílu

Páll Gunnar gerir mikið úr því að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að leyfa samvinnu og samruna fyrirtækja á grundvelli 15. og 17. greinar samkeppnislaga. Eins og ég sagði í fyrri grein minni (11.2 sl.) liggur vandinn e.t.v. ekki svo mjög í samkeppnislögunum sjálfum heldur fremur einstrengingslegri framkvæmd Samkeppniseftirlitsins á þeim lögum. Hvað snertir frávik frá ströngustu reglum um hámarkssamkeppni hefur Samkeppniseftirlitið nefnilega reynst hið þverasta. Afar erfitt og kostnaðarsamt hefur verið fyrir fyrirtæki að fá leyfi Samkeppniseftirlitsins til að nýta stærðarhagkvæmni eða skapa hagræði með öðrum hætti. Ferlið hefur einnig verið með afbrigðum tímafrekt sem felur í sér verulegan viðbótarkostnað fyrir fyrirtækin.

Eitt dæmi af mörgum um þessi vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins er sala Símans hf. á fjarskiptafyrirtækinu Mílu til franska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ardin France SA. Helstu eigendur Símans eru sem kunnugt er íslenskir lífeyrissjóðir en eigendur Ardin franskir lífeyrissjóðir. Samkomulag um söluna náðist árið 2021 og var kaupverðið talið mjög hagstætt. Samkeppniseftirlitið stóð hins vegar lengi vel í vegi þess að unnt væri að ljúka þessum viðskiptum, m.a. með kröfum um stöðugt meiri upplýsingar og með því að setja ný skilyrði. Afleiðingin var sú að ekki var unnt að ljúka sölunni fyrr en ári síðar. Jafnframt notaði hinn franski kaupandi þá bættu samningsstöðu sína sem þetta háttalag Samkeppnisstofnunar skapaði til að knýja fram nær 10 milljarða króna lækkun á kaupverðinu. Árangurinn af starfi Samkeppniseftirlitsins var því sú að færa 10 milljarða króna frá íslenskum almenningi í hendur franskra lífeyrisþega. Fróðlegt væri að sjá útreikninga Samkeppniseftirlitsins á því hvernig þessi framganga hefur bætt hag íslenskra neytenda.

Höfundur er prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands.