Jón H. Guðmundsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 25. maí 1946. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 27. janúar 2023.

Foreldrar Jóns voru Guðmundur Jón Markússon, f. 1. mars 1903, d. 5. desember 1984, og Elín Lára Jónsdóttir, f. 20. febrúar 1909, d. 2. apríl 1965. Systkini Jóns eru Olga, f. 24. apríl 1930, d. 3. ágúst 2003, Friðjón, f. 3. mars 1934, d. 23. júlí 2000, Viggó Karvels, f. 5. febrúar 1939, Guðmundur Elí, f. 20. mars 1941, d. 19. nóvember 1976, Markús, f. 27. september 1947.

Eiginkona Jóns er Hólmfríður Jónsdóttir, f. 20. ágúst 1944. Börn Jóns og Hólmfríðar eru: 1) Elín Lára, f. 19. ágúst 1966, maki Snorri Páll Einarsson, f. 26. júní 1968. Börn þeirra eru Telma Huld, f. 24. apríl 1988, maki Kristinn Jakobsson, f. 25. maí 1981, börn þeirra eru Katla Rakel og Kári Týr. Sigurpáll Viggó, f. 30. janúar 1997, og Hólmfríður, f. 28. ágúst 1998. 2) Unnur, f. 24. apríl 1970, maki Hilmar Þór Harðarson, f. 1. desember 1956. Börn Unnar eru Jón Hálfdán, f. 2. september 1995, Dagný Bergvins, f. 6. október 2002, Daníel Vignir, f. 27. desember 2003. 3) Vignir, f. 30. júlí 1976, maki Helga Torfadóttir, f. 17. febrúar 1977. Börn þeirra eru Torfi Steinn, f. 24. október 2012, og Ernir Þór, f. 8. janúar 2015.

Jón bjó á Suðureyri sín uppvaxtarár en fluttist til Reykjavíkur 1965 þar sem hann hóf nám í húsasmíði og lauk síðar meistaranámi í þeirri grein. Jón kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni í Reykjavík og giftu þau sig 13. apríl 1968. Jón var lengst af sjálfstætt starfandi húsasmíðameistari og byggði m.a. hús fjölskyldunnar við Heiðarás þar sem þau hjón bjuggu í rúm 30 ár. Jón stundaði sund, badminton og golf í mörg ár og hafði mikinn áhuga á handbolta og fótbolta. Hann var einn af stofnendum Handknattleiksdeildar Fylkis og sat þar í stjórn í nokkur ár auk þess að sitja um tíma í stjórn HSÍ.

Útför Jóns verður gerð frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 11.

Elsku pabbi okkar hefur fundið friðinn. Pabbi var mikill fjölskyldumaður, vildi hafa fólkið sitt hjá sér, sem flesta í einu, grilla fyrir hópinn, helst kryddlegið lambakjöt. Undirbúningur tók oft nokkra daga þar sem hann sýslaði við sinn kryddlög, úrbeinaði lambalæri og setti á pinna. Fjörið var mikið þegar Man. Utd.-leikur var í gangi á sama tíma svo pabbi hljóp á milli grillsins og sjónvarpsins með martini í annarri og grillspaðann í hinni.

Heiðarásinn, sem pabbi byggði fyrir rúmum 40 árum, var hans stolt. Á neðri hæðinni var innréttuð íbúð sem var alltaf opin fyrir okkur börnin og barnabörnin. Pabbi elskaði að hafa okkur á neðri hæðinni, fá líf í húsið og voru hann og mamma alltaf til taks við pössun á barnabörnunum. Garðurinn umhverfis húsið var einstaklega fallegur og vel við haldið. Pabbi var mjög nákvæmur og klippti trén, sló grasið og dyttaði að öll sumrin þeirra í Heiðarásnum. Hann var afar stoltur af húsinu og garðinum.

Á árum áður var oft farið í útilegur með stóra tjaldið á toppnum. Af þessum ferðum trónir þó ferðin inn í Þórsmörk hæst þar sem farið var með rútu úr bænum, sem keyrði á 30 km hraða alla leiðina. Minnisstæðar eru líka ferðirnar erlendis en þar stendur upp úr ferðin sem við systkinin fórum með mömmu og pabba til Tenerife á sextugsafmæli pabba. Í þeirri ferð gerði pabbi sér lítið fyrir og toppaði El Teide með okkur systkinum, 3.715 m h.y.s.m.

Pabbi var mikill nákvæmnismaður og stærðfræðiútreikningar, tölur og tími nokkuð sem við börnin höfum oft gert grín að og hann gat sjálfur hlegið að með okkur. Þegar jólaljósin voru sett í alla glugga var tommustokkurinn aldrei fjarri og fundum við systkin miða í einum jólakassanna með nákvæmum málum frá vegg að næsta ljósi fyrir hvert herbergi fyrir sig. Hann var mættur í sund 6:28 hér á árum áður, synti 475 metra, drakk kók með 3 klökum og sagði sögur með nákvæmum tímasetningum. Pabbi var mikill sögumaður og voru allar hans frásagnir mjög nákvæmar, klukkan hvað ferðin hófst og hvenær henni lauk nákvæmlega. Hann hafði húmor fyrir sjálfum sér og var mikið hlegið þegar mamma skautaði í gegnum ferðasögur þeirra á núll einni. Það aftraði honum þó ekki frá að endurtaka sögurnar á sinn nákvæma hátt.

Barnabörnin litu á afa sinn sem ástríkan, hlýjan, hafði róandi nærveru og sagði skemmtilega frá. Að auki voru fiskibollurnar hans afa þær bestu í heimi.

Pabbi var ákveðinn, staðfastur, þrjóskur, hjartahlýr, húmoristi og hafði sterkar skoðanir. Allt þetta og meira til höfum við systkinin verið svo heppin að erfa með einum eða öðrum hætti. Við þökkum pabba fyrir að gera okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag og munum við halda minningu hans á lofti með sögum, grilli og gríni. Takk elsku pabbi fyrir allt, þín verður sárt saknað. Hvíl í friði.

Þín börn,

Lára, Unnur og Vignir.

Það voru hlýjar móttökurnar þegar ungur, þá kærasti elstu dóttur þinnar, heilsaði þér og Lellu í Heiðarásnum í fyrsta skipti, lamaður af stressi, að reyna að sanna sig og sýna sitt besta. Stressið gleymdist fljótt þegar þú með einlægni þinni og gagnkvæmri virðingu heilsaðir af virðuleik og leiddir þægilegt samtal okkar um öll heimsins málefni. Það var auðvelt að kynnast þér og svo gott að vera tekið með opnum örmum sem áttu eftir að leiða af sér góðan vinskap og hlýja samveru til framtíðar.

Í Heiðarási byggðuð þið Lella ykkur veglegt hús sem öðlaðist göfugt hlutverk fyrir börnin ykkar sem öll hófu sinn búskap á neðri hæðinni og varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að búa þar, ekki bara einu sinni, heldur nokkrum sinnum milli alls kyns flutninga hjá stækkandi fjölskyldu okkar Láru. Ég verð einnig að minnast á sameiginlega (plast)skrifstofu okkar í hálfum bílskúrnum sem þú komst upp á mettíma þegar við stóðum báðir á tímamótum atvinnulega og fetuðum nýjar slóðir.

Þú varst meistari á svo mörgum sviðum.

Húsasmíðameistarinn: Þetta var fagið þitt, sem meistarabréfið þitt staðfesti formlega, afburðasmiður með ofurnákvæmni að vopni enda ber Heiðarásinn þinn þess skýr merki.

En óformlega öðlaðistu einnig margar meistaragráður að margra mati.

Grillmeistarinn: Á grillinu varstu með eindæmum góður enda voru grillboðin eitt límið sem þú notaðir til að sameina fjölskylduna þína sem þér þótti svo óendanlega vænt um. Minnisstæðar eru allar þær gómsætu lambasteikur sem bornar voru á borð, listavel marineraðar á nákvæman hátt með þinni eigin „leyni“-marineringu sem toppaði allar aðrar.

Uppskriftin er sem betur fer í góðum höndum afkomanda sem mun halda minningu grillmeistarans á lofti.

Garðyrkjumeistarinn: Alltaf var garðurinn í Heiðarásnum í góðum búningi og vel við haldið. Þarna nýttist þér aftur nákvæmnin, útsjónarsemin og dugnaðurinn. Þú ræktaðir svo sannarlega garðinn þinn á þessu sviði eins og á öllum öðrum sviðum.

Golfmeistarinn: Golfið var þér hugleikið. Mér er minnisstætt í einni heimsókn ykkar Lellu til fjölskyldunnar í Houten og þú fórst með mig á einn flottasta golfvöllinn í Hollandi og kenndir mér grunnatriði og nákvæmni sveiflunnar er ég hélt á golfkylfu í fyrsta sinni. Það var ekkert verið að stressa sig á einhverri hámarksforgjöf sem var skilyrði fyrir að fá að spila á svona fínum velli. Þú tókst þetta bara á túristanum og komst mér með í hollið á sjarmanum þínum. Lést ekki einhver smáatriði stoppa þig.

Sundmeistarinn: Þegar Árbæjarlaug var tekin í notkun steinsnar frá Heiðarásnum var ekki að spyrja að metnaðinum í þér, enda sannur íþróttagarpur. Mættir alla virka daga eldsnemma á morgnana og fórst nákvæmlega alla þína metra hverju sinni.

Elskulegi tengdafaðir. Mér þykir afar vænt um að hafa fengið að vera þér samferða síðastliðna áratugi og að fá að kynnast þeim kostum sem gæddu þig og gerði þig að þeim einstaka manni sem þú geymdir.

Far þú í friði kæri vin.

Snorri Páll.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um afa er þessi einstaka hlýja sem geislaði af honum. Hvort sem það var brosið eða óendanleg jákvæðni, þá leið manni alltaf vel í návist hans. Hann hjálpaði okkur að vera við sjálf, elskaði okkur eins og við vorum og stóð alltaf með okkur. Afi hafði mikil áhrif á okkur barnabörnin og litum við mikið upp til hans. Alltaf þegar við komum í heimsókn gátum við búist við hlýju knúsi og brosi á vör frá honum. Hann var einstakur maður og þú gætir ekki fundið annað eintak eins og afa. Við munum eftir afa sem umhyggjusömum manni sem naut sín innilega við grillið enda var hann fimm stjörnu kokkur í dulargervi þegar kom að því að elda ofan í fjölskylduna.

En einnig hafði hann mikil áhrif á okkur hvað varðar ákvarðanatöku í lífi okkar. Sama í hvaða átt við stigum, hann var aðdáandi númer eitt. „Ekki gera það sem aðrir segja þér að gera, gerðu það sem þú vilt gera!“ Þessi orð munu sitja eftir hjá okkur eins og svo margt annað sem afi gerði og sagði. Hvíldu í friði afi. Takk fyrir allt.

Kveðja,

Jón Hálfdán, Dagný Bergvins og Daníel Vignir.

Jón Hálfdán Guðmundsson, svili minn og vinur, er látinn. Þar er genginn góður maður sem skilur eftir sig ljúfar minningar hjá þeim sem þekktu hann. Ég kynntist Jóni fyrst þegar Hólmfríður (Lella) kom með kærastann sinn til Kópaskers og kynnti hann fyrir fjölskyldunni á Melum en þeirri fjölskyldu hafði ég tengst nokkrum árum áður. Með okkur Jóni og fjölskyldum okkar var ætíð traust og góð vinátta sem aldrei rofnaði. Þótt langt væri á milli búsetu okkar, við á Norðausturlandi og þau í Reykjavík, voru tíðar heimsóknir á milli. Oft þurftum við á fyrirgreiðslu þeirra að halda þegar við eða börn okkar þurftu að sækja í borgina í læknisferðir og annað og aldrei stóð á aðstoð hjá Jóni og Lellu.

Það var ætíð tilhlökkun að fá þau í heimsókn í Ásbyrgi og síðar á Akureyri. Þau tóku til hendinni í sveitastörfum og ég minnist þess eitt sinn er þau komu í Ásbyrgi þegar við vorum að keppast við að hirða hey vegna slæmrar veðurspár. Jón settist þá upp í Land Rover sem rakstrarvél var tengd við og varð á orði þegar verki var lokið: „Þetta var svo gaman að ég hefði kannski átt að verða bóndi en ekki smiður.“

Það eru bjartar minningar frá þeim ferðalögum sem við hjónin fórum með þeim Jóni og Lellu til útlanda. Þá var golfsettið hans Jóns með í för, stundum tekinn bíll á leigu sem Jón stýrði og kom öllum heilum í höfn.

Jón var lærður húsasmiður og vann við það sína starfsævi. Saman byggðu þau frá grunni sitt fallega heimili, Heiðarás 21.

Síðustu ár Jóns voru erfið vegna veikinda, en hann var ekki einn í þessari baráttu, við hlið hans stóð Lella sterk og jákvæð og fjölskyldan öll.

Nú er komið að leiðarlokum, hafðu þakkir fyrir samfylgdina og vinskapinn kæri svili.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Elsku Lella, Lára, Unnur, Vignir og fjölskyldur, ég votta ykkur öllum innilega samúð. Minning um góðan mann lifir.

Sigurgeir Ísaksson.

Kveðja frá Íþróttafélaginu Fylki

Þeim fækkar nú óðum, frumkvöðlunum í íþróttafélaginu Fylki. Þessir traustu félagar okkar áttuðu sig á mikilvægi þess að æskan í Árbæjarhverfinu, á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, ætti sér athvarf í gróskumiklu íþróttafélagi. Þetta voru dugmiklir einstaklingar sem jafnan lögðu að baki langan vinnudag, en töldu það svo ekki eftir sér að sinna íþróttafélaginu á kvöldin og um helgar með margvíslegri sjálfboðavinnu.

Við kveðjum nú með söknuði og þakklæti einn þeirra manna sem með ómældu vinnuframlagi og fjölda fundahalda og útréttinga áttu sinn þátt í því að gera Fylki að íþróttastórveldi. Sá er Jón H. Guðmundsson byggingameistari.

Jón var einn af máttarstólpum Fylkis þegar félagið ákvað að koma upp sínu fyrsta húsi við knattspyrnuvöllinn okkar. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi, í sumarbústað við Langavatn, hinn 18. júlí 1975. Þetta var djörf ákvörðun hjá félagi í húsnæðishrakningum sem einungis átti einar hundrað þúsund krónur í sjóði. En hún var engu að síður tekin með bjartsýnina, svo til eina, í farangrinum. Kosin var þriggja manna byggingarnefnd en í henni sátu byggingameistararnir Jón H. Guðmundsson og Emil Gíslason og húsgagnameistarinn Ólafur Loftsson. Við þessar framkvæmdir vann Jón H. Guðmundsson einstætt þrekvirki. Hann unni sér ekki hvíldar og var allt í öllu meðan á þessari mikilvægu framkvæmd stóð. Húsinu var komið upp með fjögur þúsund og þrjú hundruð klukkustunda sjálfboðavinnu 80 sjálfboðaliða. Húsið var gert fokhelt, innréttað og síðan vígt við hátíðlega athöfn 10. janúar 1976. Þetta hús varð fyrsta eiginlega fasteign Fylkis og því veigamikill stökkpallur að þeim glæsilegu húsakynnum sem Fylkir á í dag.

En Jón var einnig einn af helstu handknattleiksþjálfurum Fylkis á sínum tíma, og þjálfaði m.a. kvennaflokka félagsins um árabil. Þá sat hann í ýmsum stjórnum og ráðum félagsins um langt árabil.

Ég vil fyrir hönd Fylkis þakka þessum trausta félaga okkar allt hans óeigingjarna starf í þágu félagsins. Fjölskyldu og ættingjum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Björn Gíslason formaður.