Óli Kristjánsson húsasmíðameistari fæddist í Reykjavík 22. febrúar 1926. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 3. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Aðalsteinn Kristján Guðmundsson, f. 1890, frá Arnarstöðum í Helgafellssveit, d. 1953, og Ingveldur Jónasdóttir, f. 1900 í Skammadal í Mýrdal, d. 1984.

Systkini Óla eru: Bragi, f. 1924, d. 1985, Ingibjörg, f. 1928, Ólöf, f. 1936, Karl, f. 1939 og Heiða, f. 1945.

Óli var giftur Soffíu A. Haraldsdóttur, f. 1931, en þau giftu sig árið 1950. Þau eiga fimm börn, 14 barnabörn og 28 barnabarnabörn.

1. Haraldur Þór, f. 1950, maki Þórunn Úlfarsdóttir, f. 1950, þau eiga tvo syni: a) Úlfar, f. 1969, b) Þór, f. 1975, maki Guðlaug Ragnarsdóttir. Barnabörn þeirra eru sjö.

2. Kristján Aðalsteinn, f. 1954, maki Þuríður Ragna Sigurðardóttir, f. 1955, þau eiga þrjú börn: a) Óli Freyr, f. 1978, d. 2019, maki Ágústa Amalía Sigurbjörnsdóttir, b) Árni Snær, f. 1984, maki Edda Rós Skúladóttir, c) Soffía Rún, f. 1988, í sambúð með Elíasi Jónssyni. Barnbörn þeirra eru 10.

3. Kristín Vilhelmína, f. 1956, hún á 3 dætur: a) Ína Henningsdóttir, f. 1986, maki Mads Peder Rosenvinge, b) Anna Henningsdóttir, fædd 1989, maki Mads Dam Lyby, c) Maja Ebbesen fósturdóttir, f. 1979, í sambúð með Magnus Ågren. Barnabörn hennar eru 6.

4. Stella Arnlaug, f. 1959, maki Páll Halldórsson, f. 1958 og eiga þau tvær dætur: a) Karitas, f. 1979, maki Daníel Stefánsson, b) Karen Nadia, f. 1987, í sambúð með Octavio Pires. Barnabörn þeirra eru 3.

5. Ingibjörg, f. 1960, maki, Garðar Ingþórsson, f. 1959. Þau eiga þrjú börn: a) Tómas Óli, f. 1993, í sambúð með Ágústu Gísladóttur. b) Matthías, f. 1997, í sambúð með Berglindi Hrund Jónasdóttur. c) Heiða Björk, fædd 1999. Fyrir átti Garðar soninn Jón Örn, f. 1980, d. 2000. Barnabörn þeirra eru 2.

Óli var fæddur í Reykjavík, en flutti með foreldrum sínum vestur í Jónsnes í Helgafellssveit sex ára gamall og ólst þar upp. Hann lærði trésmíði í Stykkishólmi og fór til Reykjavíkur 1948, þar sem hann kláraði námið við Iðnskólann í Reykjavík. Hann vann ávallt við trésmíðar og húsbyggingar. Hann stofnaði byggingafyrirtækið Furu ehf. ásamt Haraldi syni sínum árið 1981 og byggðu þeir fjölda íbúða í Garðabæ og víðar.

Óli og Soffía hófu búskap í Eskihlíð og síðar í Skaftahlíð í Reykjavík. Þau fluttu í Garðabæinn árið 1964 og hafa búið þar alla tíð síðan, á Stekkjarflöt 6 og nú síðast á Strandvegi 17.

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Það er komið að kveðjustund, þú varst alveg tilbúinn að fara, enda búinn að lifa lífinu lifandi í næstum 97 ár. Við systkinin fimm fórum snemma með ykkur mömmu í útilegur í fimm manna tjaldinu góða. Við þvældumst um allt land með bæði vinafólki og fjölskyldu, frá þeim tíma geymum við margar góðar minningar. Við fluttum í Garðabæinn á Stekkjarflöt 6 árið 1964 í húsið sem þú byggðir en þar áttum við góða barnæsku.

Við fórum oft og mikið á skíði og á hverjum vetri í skíðaferð til Akureyrar, en þið mamma áttuð líka stóran þátt í að koma allflestum barnabörnunum á skíði. Þú og mamma hélduð svo áfram og fóruð í yfir 20 ár til Austurríkis og Ítalíu á skíði.

Við eigum frábærar minningar úr Kjósinni, sumarbústaðnum við Meðalfellsvatn sem var þér eitt og allt.

Þú vannst alla þína ævi við húsasmíðar og varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa okkur í framkvæmdum við húsin okkar.

Þið mamma voruð dugleg að heimsækja okkur börnin erlendis, því við höfum öll búið erlendis í lengri eða styttri tíma, í Danmörku, Svíþjóð, Flórída.

Jóga varð stór hluti af lífi ykkar eftir fimmtugt og hélduð þið áfram að stunda það alveg þangað til þú varðst 93 ára, enda varstu afar liðugur og klæddir þig sjálfur í sokkana alveg þar til yfir lauk.

Elsku pabbi, takk fyrir samferðina, hvíl þú í friði og við hugsum vel um mömmu.

Bernskuminningar

Er vorgolan strýkur vinarhönd

um vanga, mig tekur að dreyma

blæ með ilmi frá bernskuströnd

og brekkunum mínum heima.

Þar átti ég marga yndisstund

á æskunnar glaða vori

nú minninganna ég flýg á fund

og fagna í hverju spori.

Bæinn minn kæra á blómskreyttum hól,

brekkur og dalverpi kenni,

þar daggperlur glitra í sindrandi sól

er sjónum yfir þar renni.

Hér áttum við systkini björgulegt bú

und berginu skammt frá bænum,

með leggi og skeljar við lékum þar prúð

í ljómandi hásumar-blænum.

Er mjöllin sig breiðir um brekkurnar köld

við brunum á sleða og skíðum

óspillta gleðin þá öll hefur völd

já – engu í framtíð við kvíðum.

Þannig var bernskan, svo björt og hlý

blessaðri sveitinni heima

að unaðar strengirnir óma á ný

sem yndi er í hjartanu að geyma.

Er haustkvöldið vefur sitt húm yfir lönd

er hjalað við ástvin í leynum

þá eygjum í hillingu óskanna strönd

sem ennþá í minningu geymum.

(Matthildur Guðmundsdóttir frá Bæ)

Þínar dætur,

Kristín, Stella og Ingibjörg.

Elsku Óli. Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar ég hljóp til dyra á Leifsgötunni og á tröppunum stóð sendill með blóm í vasa sem voru hærri en ég. Þetta var á brúðkaupsdaginn ykkar Stellu systur árið 1950 og ég 5 ára. Alla tíð síðan hef ég átt þig að, traustan, ráðagóðan og yndislegan, alltaf til staðar þegar ég þurfti á að halda.

Þið komuð ykkur fljótt upp stórum barnahóp og ég fékk oft að passa þau öll fimm. Einhverju sinni sem oftar fóruð þið á ball, líklegast í Lídó, og ég var að passa. Það snjóaði þetta kvöld og þegar þið komuð heim aftur horfðir þú athugull á stéttina og sagðir íbygginn við Stellu: „Það liggja bara spor frá húsinu!“ Þar með var samband okkar Boga opinberað!

Næstu áratugina áttum við barnmargar fjölskyldurnar náin og góð samskipti. Mér eru sérlega minnisstæðar útilegurnar, sem voru örlítið flóknari í þá daga enda gist í tjöldum og búnaðurinn allur frumstæðari en í dag. Til dæmis í veiði í Hítarvatni eða þegar við fórum yfir Sprengisand og lentum í mikilli rigningu og þoku. Að endingu fundum við áningarstaðinn og vorum alsæl að komast inn í hlýjuna í fjallakofanum. En sælan stóð ekki lengi því skömmu síðar bar að stóran hóp sem átti pantaða alla gistinguna. Það var ekki um annað að ræða en slá upp tjöldum í þokunni og flytja sig þangað. Þið svilar tókuð þessu með jafnaðargeði sem þið báðir áttuð nóg af meðan við systur þurftum að taka á honum stóra okkar til að halda okkur á mottunni.

Páskarnir 1973 verða lengi í minnum hafðir. Þá komu systur mínar og fjölskyldur í heimsókn til Akureyrar og glatt var á hjalla. Þú 47 ára gamall hafðir aldrei stigið á skíði á ævinni en eftir að Bogi fór með þig fyrstu ferðina niður Hlíðarfjall varð ekki aftur snúið og þú naust þess að skíða upp frá því – í fjóra áratugi – bæði heima og erlendis.

En nú er komið að leiðarlokum. Öll þessi 73 ár hefur okkur aldrei orðið sundurorða. Allir sem til þekkja vita að það er vegna þinna einstöku mannkosta en ekki minna. Hlýr, orðheldinn, yfirvegaður, sterkur og bóngóður. Maður sem talaði ekki af sér. Drengur góður. Hafðu þökk fyrir samferðina, elsku Óli.

Sólveig

Haraldsdóttir.