Sigurður Helgi Hlöðversson fæddist í Reykjavík 18. maí 1948. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 2. febrúar 2023.

Sigurður var sonur Rannveigar Eggertsdóttur, f. 21. júní 1927, og Hlöðvers Helgasonar, f. 11. september 1927.

Sigurður ólst upp hjá ömmu sinni en sammæðra bræður hans eru: Hlöðver, f. 1949, Eggert Ísfeld, f. 1953, og Róbert, f. 1955.

Hálfsystkini Sigurðar í föðurlegg eru Sævar, f. 1950, Hjálmar Kristinn, f. 1952, Guðjón Hlöðver, f. 1953, Hafdís, f. 1954, Gunnar, f. 1956, lést 2022, og Valgerður Oddný, f. 1962.

Sigurður kvæntist 17. júlí 1970 Gunni Baldvinsdóttur Ringsted, f. 12. febrúar 1948, þau skildu. Gunnur átti fyrir dóttur, Gerði A. Ringsted, f. 19. desember 1964, en börn Sigurðar og Gunnar eru: Ágúst, f. 21. júní 1968, Rannveig, f. 21. apríl 1972, Hlöðver Helgi, f. 17. desember 1973, og Baldvin Gunnar, f. 26. janúar 1978. Sigurður eignaðist dóttur, Evu Ísfold Lind, f. 1. mars 1974, með Þuríði Þorsteinsdóttur. Afa- og langafabörn eru átján talsins.

Sigurður ólst upp í Reykjavík, gekk í Breiðagerðisskóla, Réttarholtsskóla og síðar í Íþróttaskólann í Haukadal.

Sigurður vann ýmis störf á sínum yngri árum og síðar á körfubíl hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur áður en hann flutti til Akureyrar árið 1970. Þar hóf hann störf hjá Rafveitu Akureyrar þar sem hann starfaði um árabil. Lengst af starfaði hann þó sem kvikmyndatökumaður frétta og dagskrárefnis hjá Stöð 2, RÚV og ýmsum fjölmiðlum á Akureyri. Hann starfrækti auk þess um tíma fyrirtækið Hljóðmyndir ásamt öðrum og sinnti fjölmörgum kvikmyndatökuverkefnum fyrir fyrirtæki og fólk á Norðurlandi og eftir hann liggur gríðarmikið heimildaefni frá ýmsum samkomum og viðburðum síðustu áratugina.

Áhugamál Sigurðar voru af ýmsum toga. Hann hafði ungur mikinn áhuga á bílum og mótorhjólum og tók þátt í starfsemi Bílaklúbbs Akureyrar á árdögum klúbbsins. Hann var einnig meðlimur í félagi radíóamatöra og sinnti því um árabil. Þá voru andleg málefni og austurlensk heimspeki honum afar hugleikin og tók hann virkan þátt fram á síðustu ár í félagsskap á því sviði.

Útför Sigurðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 13.

Góður vinur minn, Sigurður Hlöðversson kvikmyndatökumaður, er fallinn frá. Við kynntumst fyrst þegar hann gekk til liðs við nýstofnaða akureyrska sjónvarpsstöð, Aksjón, fyrir síðustu aldamót, en áður hafði hann unnið sem myndatökumaður bæði hjá RÚV og Stöð 2. Siggi Hlö var mikill happafengur fyrir stöðina vegna reynslu sinnar og fagmennsku, en hann var líka einstaklega þægilegur í samskiptum, samviskusamur og skemmtilegur. Siggi hafði skoðanir á ýmsum málum og stundum sterkar, en hann var líka rólyndur og hafði gott jafnaðargeð og ég man aldrei eftir því að hann hafi lent upp á kant við nokkurn mann þann tíma sem við unnum saman. Eftir að samstarfi okkar lauk við að koma á fót fyrstu sjónvarpsstöðinni á Akureyri héldust góð vináttubönd alla tíð. Heilsu hans hrakaði síðustu árin en við hittumst síðast í desember og áttum saman gott spjall að vanda. Ég votta börnum hans og ástvinum mína innilegustu samúð.

Gísli Gunnlaugsson.

Ár er hjól í aldarvagni. Tíminn líður hratt. Ég eldist með sama hraða og samferðamenn mínir og sumir þeirra heltast úr lestinni. Ættingjar, vinir og samverkamenn. Þannig er lífið. Við ráðum engu um upphafið og endinn, en eigum að spinna þráðinn þar á milli. Sá þráður verður ekki alltaf hnökralaus.

Þegar ég hóf störf hjá Sjónvarpinu á Akureyri undir lok síðustu aldar sótti ég alla tækniþjónustu til Samvers við Grundargötu. Þangað var gott að leita, því hjá Samveri starfaði skemmtilegt hæfileikafólk. Meðal þeirra var Sigurður vinur minn Hlöðversson, sem nú er horfinn í Sumarlandið. Ég þekkti Sigurð ekki fyrir þetta samstarf, enda var hann sunnanmaður að upplagi. En hann tók mér vel og var áhugasamur og hugmyndaríkur í samvinnu.

Eftir að Sigurður hætti störfum hjá Samveri var hann lengi tökumaður og klippari með mér við fréttavinnslu fyrir Sjónvarpið. Það var gott að vinna með Sigga; hann var óhemju duglegur og ósérhlífinn og ég gat alltaf treyst því að hann skilaði mér nægu myndefni í góða frétt. Hann átti líka gott með að nálgast fólk þar sem við komum, við mismunandi aðstæður. Hann hikaði ekki við að vaða eld og brennistein til að ná góðum myndum. Og hann var bóngóður; alltaf tilbúinn í slaginn hvenær sólarhringsins sem ég hringdi. Við vorum að vísu ekki alltaf sammála um alla hluti, báðir með sterkar skoðanir á myndatökum og mynduppbyggingu. En hann var tilbúinn til að taka leiðbeiningum og nýta sér úr þeim það sem nýtanlegt var. Hann las sér líka mikið til um kvikmyndatökur og var alltaf vaxandi sem tökumaður og klippari meðan á okkar samstarfi stóð.

Siggi sagði mér stundum frá árum sínum sem línumaður hjá Rarik. Þar störfuðu miklir ævintýramenn og hörkunaglar. Þessir jaxlar berjast inn til dala og upp til fjalla hvernig sem veður er. Oft í öskrandi byl. Þeir klífa upp í staura og möstur til að berja ísingu af línum og fyrir kemur að teflt er á tæpasta vað. Siggi sagði mér margar göslarasögur frá línuárunum og ég er ekki frá því að hann hafi stundum saknað þess tíma. Siggi var nefnilega alltaf svolítill „göslari“, sem hafði gaman af ævintýrum og harki. En hann pældi líka í alvarlegri hlutum, hugarorkunni og öðru því sem við ekki sjáum. Stundum var hann ekki sérlega hlýlega klæddur við tökur í kalsa; ég nota bara innri orku til að halda á mér hita, var svarið þegar ég fann að þessu við kappann.

Síðustu árin voru Sigga stundum erfið eftir að heilsan gaf sig. Hann var greindur, vel lesinn og kunni skil á ótrúlegustu hlutum. Það var honum því sárt síðustu misserin að finna ekki það í minninu, sem hann vissi að átti að vera þar. Hann var því ferðbúinn hygg ég blessaður og ég bið þess að hann hafi fengið gott leiði. Ég er ekki frá því að hann sé byrjaður að brasa eitthvað skemmtilegt í Sumarlandinu. Sennilega akandi um á stórri amerískri drossíu frá sjötta áratug síðustu aldar, með uppbrettar ermar, sígó í munnvikinu, kók í hendi, Presley í spilaranum og allt í botni.

Góða ferð gæskur.

Gísli Sigurgeirsson.