Bergþór Guðmundsson, Kársnesbraut 51, 200 Kópavogi, fæddist í Hafnarfirði 22. janúar 1952. Hann lést í Taílandi, 27. nóvember 2022.

Foreldrar hans voru Guðmundur Bergþórsson, f. 25. júní 1922, d. 13. mars 2000, og Bjarnþóra Ólafsdóttir, f. 21. maí 1923, d. 23. desember 2001. Þau skildu. Albræður Bergþórs eru: Drengur Guðmundsson, f. 13. september 1946, d. sama dag, Ólafur B., f. 15. september 1947 og Steingrímur Sigurjón, f. 31. júlí 1949, d. 31. mars 2019. Sammæðra systir Bergþórs er Vilhelmína Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 19. nóvember 1954. Samfeðra bræður Bergþórs eru Stefán, f. 19. júlí 1964, kvæntur Hlíf Ragnarsdóttur, og Halldór, f. 19. júlí 1964, sambýliskona hans er Ásta Ágústsdóttir. Árið 1994 kvæntist Bergþór eftirlifandi eiginkonu sinni, Jiraporn Yuengklang, f. 20. ágúst 1957. Jiraporn á tvo syni sem eru búsettir í Taílandi.

Bergþór, sem alltaf var kallaður Beggi, flutti 10 ára að aldri til Suðureyrar við Súgundafjörð með móður sinni og stjúpföður, Eiríki Sigurðssyni, og bjó þar lengi. Hann hóf feril sinn um 1970 sem sjómaður á skaki, var messagutti í hálft ár á Vatnajökli í fragtsiglingum. Hann var þar undir verndarvæng föður síns sem var kokkur á Vatnajökli og fetaði síðan í fótspor hans. Hann gekk í Hótel- og veitingaskólann, lauk þar sjókokkanámskeiði og réðst í kjölfarið sem kokkur á línubátinn Trausta frá Suðureyri. Hann var kokkur á ýmsum bátum frá Suðureyri til ársins 1976 þegar hann réðst á skuttogarann Elínu Þorbjarnardóttur. Þar var hann næstu 15 árin þar til Elín var seld frá Suðureyri haustið 1991. Þá flutti hann í Kópavog og vann sem kokkur á frystitogaranum Örfirisey RE allt til ársins 2002. Beggi skipti þá um starfsvettvang, keypti sendibíl og stofnaði sendibílafyrirtækið Beggi ehf. Hann starfaði við sendibílaþjónustu til ársins 2015 og fór þá á eftirlaun. Frá því ári átti hann annað heimili í Taílandi og dvaldi þar hluta úr ári með eiginkonu sinni Lek.

Minningarathöfn Begga fer fram í dag, 16. febrúar 2023, í Hafnarfjarðarkirkju og hefst athöfnin klukkan 14.

Kæri frændi og vinur okkar bræðra, Bergþór Guðmundsson, lést á heimili sínu 27. nóvember síðastliðinn í Taílandi. Við bræður viljum minnast Begga með fáum orðum.

Beggi var afskaplega góður maður. Hann hugsaði vel um sína nánustu fjölskyldu, spurði alltaf um litlu barnabörnin og fylgdist vel með hvað var að gerast hjá stórfjölskyldunni. Hann minntist oft þess tíma er hann passaði okkur bræður þegar við vorum litlir og sagði oft með bros á vör að við værum villingar.

Beggi var alla sína ævi stór hluti af fjölskyldum okkar bræðra. Þegar hann var á Íslandi var það hluti af hans daglegu rútínu að koma við á fasteignasölunni og fá sér kaffi og ráðgjöf. Beggi var forvitinn og áhugasamur um allar fréttir.

Beggi minn, við ætlum ekki að hafa þetta lengra. Þín verður sárt saknað en við erum þess fullvissir að þú hafir það gott núna þar sem þú ert í draumalandinu.

Þínir frændur,

Árelíus og Ragnar Þórðarsynir.

Okkur brá illilega þegar við heyrðum að ljúfmennið hann Beggi væri látinn.

Við eigum öll skemmtilegar sögur af Begga sem bar ávallt með sér blæ góðvildar og gleði. Hann bar í brjósti ríka löngun til að verða að liði og vildi framar öllu öðru verja tímanum í hópi góðra vina og ættingja. Sögurnar eru mismunandi eftir því hver segir þær. Þeir sem eldri eru minnast þess þegar „greifinn að vestan“ kom heim í bæinn með fúlgur fjár eftir góða vertíð. Þá var mikil gleði, líf og fjör – og Beggi leyfði öðrum að njóta ávaxtanna með sér. Hann var gjafmildur og lagði sig fram við að bregða birtu og brosi á brautir samferðamanna sinna.

Þegar hann var beðinn um að passa litlu frændur sína stóð ekki á svörum. Að sjálfsögðu geri ég það, sagði Beggi. Síðan reyndi hann hvað hann gat að ná stjórn á ólátabelgjunum á meðan hann varð fyrir barðinu á ýmsum prakkarastrikum þeirra. Aldrei reiddist hann, alltaf var hann jafn góður við frændur sína, alla tíð.

Í seinni tíð minnist fjölskyldan þess að sjá gamlan rauðan Yaris með Arsenal-merki í rúðunni renna í hlað. Síðan staulaðist Beggi upp úr honum, í sérsaumuðum fötum beint frá Taílandi með axlabönd og hækju. Stundum var hann þjáður eftir aðgerð á fæti, en hann bar það ekki með sér, heldur skartaði sínu ósvikna brosi og glampa í augum.

Hann var fastagestur á heimilinu okkar um helgar á meðan hann dvaldi á Íslandi. Alltaf var passað upp á að hafa góðar veitingar fyrir Begga, því hann var mikill sælkeri. Vöfflur, kökur og kaffi og á meðan var spjallað um allt milli himins og jarðar. Mestan áhuga hafði Beggi á því sem aðrir voru að gera og spurði hann heimilisfólkið reglulega um fréttir. Svo gladdist hann innilega yfir sigrum hvers og eins. Beggi var góðmennskan uppmáluð. Góðmennskan birtist líka í því að stundum gat hann gleypt við ýkjusögum rétt eins og þær væru heilagur sannleikur. Oft voru sögur ýktar til að kalla fram kostuleg viðbrögð frá Begga. Hann gat verið steinhissa, gapti hreinlega áður en hann endurtók það sem maður sagði í mikilli forundran. Þá var ekki hægt að halda andliti, dregið var úr ýkjunum og Beggi hló þá dátt. Birta fylgdi Begga hvert sem hann fór.

Eftir gott spjall hóf hann raust sína og sagði: „Jæja, ég þarf að drífa mig.“ Beggi var nefnilega frændrækinn og rækti samband sitt við vini og ættingja af mikilli alúð. Það má eiginlega segja að hann hafi keyrt eftir stífri dagskrá á milli ættmenna og vina og svo settist hann niður, drakk kaffi og spurði þau um það sem dreif á daga þeirra. Beggi var maður sem vildi vel, vann vel og reyndist vel.

Hann var maður glaður og góðviljaður, félagslyndur og hjartahlýr. Hann var vinamargur, frændrækinn og hafði gaman af því að vera innan um fólk. Hann sýndi einlægan áhuga á samferðamönnum sínum, var einstakt ljúfmenni og mikill gleðigjafi.

Mikið söknum við elsku Begga. Líf hans var okkur gleði og blessun. Við þökkum fyrir allt, elsku Beggi.

Fjölskyldan í Eikarási 3,

Ragnar frændi, Birna,

Ásdís, Hrannar Bragi, Þórdís Ragna, Þór, Júlía Ruth og Daníel Darri.