Eiríkur Þorsteinsson
Eiríkur Þorsteinsson
Eiríkur Þorsteinsson: "Íslenskt timbur er ekki síðra að gæðum en það innflutta sé rétt að verki staðið í framtíðinni við ræktunina."

Með notkun timburs í byggingar erum við að geyma CO 2 til framtíðar. Því er nauðsynlegt að ákveða hvaða trjátegundir við erum að rækta, með það í huga í hvað við getum notað timbrið úr skógunum.Við getum minnkað CO 2 í andrúmsloftinu á þrennan hátt, með því að minnka útstreymið, með því að fjarlægja það úr andrúmsloftinu og/eða koma því fyrir í geymslu. Það gerum við meðal annars með því að binda CO 2 í trjám með skógrækt og nýta viðinn síðan sem afurðir sem standa lengi eins og t.d. stafakirkjurnar í Noregi. Ef við notum 1 rúmmetra af timbri, þá minnkum við losunina um 1 tonn af CO 2 , sem er kolefnið í timbrinu. Víða um heim er verið að byggja háhýsi úr timbri. Má þar nefna sem dæmi 86 metra háa byggingu í Milwaukee í Bandaríkjunum og í Kaupmannhöfn er verið að reisa 28.000 fermetra byggingu sem verður stærsta timburbygging í Danmörku. Hönnuðir og skipulagsyfirvöld þessara landa og annars staðar í heiminum þar sem sambærilegar byggingar eru að rísa lýsa því yfir að það sé verið að byggja geymslur fyrir C0 2 . Skógurinn er verðmæti í dag á sama hátt og hann hefur alltaf verið. Þeir sem réðu yfir skógum til forna gátu byggt stórar byggingar, brætt járnið, hamrað stálið og vopnast. Þeir sem áttu góðan við gátu smíðað skip sem nýttust til siglinga, landkönnunar og í orrustu. Sem sagt, timbrið hefur verið notað um aldur og ævi í vöruflokka sem hafa lítið breyst í gegnum aldirnar.

Langtímaverkefni

Nú erum við farin að selja nýja afurð úr skóginum sem byggist á því CO 2 sem skógurinn dregur í sig. Kolefnisjöfnunin er seld í formi aflausnarbréfa sem skógur er síðan ræktaður fyrir. Slík skógrækt án framtíðarsýnar um nytjar skóga er skammsýn. Timburafurðin og umhverfið eru ekki í aðalhlutverki og dýralífið breytist. Það verða til skógar, en eru það skógarnir sem við viljum eða eru þeir á þeim stöðum sem við viljum hafa skóga sem við getum nýtt til framtíðar?

Það er áætlun stjórnvalda að árið 2040 verðum við búin að kolefnisjafna, höfum það í huga þegar við horfum til framtíðar, þetta er stuttur tími í skógrækt. Hvernig verða þessir aflausnarskógar? Skógrækt er langtímaverkefni og árangurinn af henni mótar umhverfi okkar til framtíðar og afurðirnar sem til verða. Skammtímaafurð, eins og kolefnislosun með skógrækt í arðsemisskyni, er ekki gott mál sé ekki horft til þess hvernig skóg við erum að rækta frá sjónarmiði nytja.

Mannkynið hefur lifað með skóginum og afurðum hans frá örófi alda. Hér á Íslandi tókst okkur næstum því að eyða skóginum á litlu ísöld. En með þrautseigju og óbiluðum áhuga tókst okkur að endurheimta og varðveita skógana og sanna fyrir þjóðinni að skógur getur vaxið hér á landi. Við skulum ekki gleyma því að skógrækt byrjar hér aftur um aldamótin 1900 og tekur kipp fimmtíu árum síðar. Nú horfum við til trjáa og trjálunda sem við erum stolt af, en þeir sem stóðu að þessu reyndu eftir megni að rækta trén með framtíðarmarkmið í huga. Því miður tókst ekki alltaf vel til, við hefðum þurft að læra af því. Rétt er að taka eitt dæmi og læra, en það er ræktun á ösp. Við höfum ómarkvisst plantað ösp af öllum mögulegum klónum. Þegar þessi vegferð hófst voru menn ekki að velta því fyrir sig í hvað þeir gætu notað öspina sem timburafurð. Það sem réð var að við vorum búin að finna tré sem óx hér á landi og það hratt og gaf skjól. Nú vitum við að öspina er hægt að nýta í burðarvið ef réttir klónar eru valdir. Rannsóknarverkefni sem við höfum verið að vinna til að meta styrk aspar í burðarvið sýnir að val á réttum klónum skiptir máli og það verður að vinna með það og velja rétt. Í næstu grein mun ég fjalla um skógrækt og hvernig timbur við viljum fá út út skóginum.

Höfundur er ráðgjafi hjá Trétækniráðgjöf slf.