Þórður Guðmundsson fæddist 25. maí 1956 á Stokkseyri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 7. febrúar 2023. Foreldrar hans voru Martha Þórðarson, f. 6.10. 1917, d. 8.6. 1984, og Guðmundur Ívar Þórðarson, f. 22.7. 1918, d. 26.3. 1995. Þórður var ókvæntur og barnlaus.

Systkini Þórðar eru: Eddy Petersen, f. 12.4. 1942, d. 2015, kona hans Lis Petersen, Jens Arne Petersen, f. 15.3. 1943, kona hans Guðrún Jónasdóttir, Sigurður Petersen, f. 22.11. 1945, kona hans Margrét Sigfúsdóttir, Ágústa Þ. Guðmundsdóttir, f. 18.3. 1948, maður hennar Eiríkur Guðbjartsson, Elísabet Guðmundsdóttir, f. 24.7. 1949, maður hennar Sigurður Sigurjónsson, Katrín Guðmundsdóttir, f. 21.4. 1959, maður hennar er Kristmann Guðfinnsson.

Útför Þórðar fer fram frá Stokkseyrarkirkju í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 14.

Já, þannig endar lífsins sólskinssaga.

Vort sumar stendur aðeins fáa daga.

En kannski á upprisunnar mikla morgni

við mætumst öll á nýju götuhorni.

Þessi var kjarninn í speki skáldsins Tómasar Guðmundssonar um draumana um lífið eftir dauðann. Nú er góður drengur genginn, dáinn og horfinn. Á hverjum morgni hittumst við nokkrir karlar í horni bókasafnsins í Ráðhúsi Árborgar og yfir og allt um kring er sagan. Samvinnusagan. Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri var með skrifstofu sína á loftinu ofan við horn spekinganna, sá sem var jarl Sunnlendinga og kraftaverkamaður nýrra tíma.

Þórður Guðmundsson sat fyrir miðju og lagði sitt af mörkum til að gera umræðurnar tilþrifamiklar og skoðanaskiptin skemmtileg. Þórður hafði margt reynt og víða farið í lífinu, því varð hann oft hornsteinn í umræðunni. Minnið frábært, frásögnin skýr og lifandi. Hafi einhver maður haft límheila var það Þórður. Þórður var mjög fróður um fólk, ættfræðin hrein listgrein og margt afreksfólk var af kyni Stokkseyringa. Stundum brostum við að upprifjun Þórðar og þá sérstaklega hversu æskubyggðin átti hann af heilum hug og ekkert var honum kærara en að ættfæra margt fólk til Bergsættar og Stokkseyrar. Þórður færði frásögn sína í lifandi búning og mér fannst hann bera öllum vel söguna. Þórður var með ákveðnar skoðanir í þjóðfélagsmálum, var vinstrimaður af róttækustu gerð og stóð alltaf með fólkinu sem stóð höllum fæti.

Margt í lífinu snerist öndvert hjá Þórði og gekk ekki sem skyldi, þar urðu örlaganornirnar honum erfiðar og þótt fáir væru vaskari til sjós og lands mátti hann þola áföll í atvinnulífi og þung spor. Þórður var sveitamaður og góður ræktunarmaður á búfé, erfði hæfileika föður síns Guðmundar í Útgörðum til að rækta fallegt sauðfé og áttu þeir feðgar oft bestu hrútana á Stokkseyri.

Við Þórður urðum loksins félagsbræður í Hrútavinafélaginu Örvari sem kemur að mörgum málum við ströndina og þar eru margir litríkir félagsmenn. Eftirminnileg er ferðin norður með forystusauðinn Gorbachev sem bar nafn leiðtogans en hann var vaninhyrndur glæsisauður, uppstoppaður, sem við gáfum Fræðasetrinu um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði. Forseti okkar, Björn Ingi Bjarnason, skipulagði ferðina sem varð að hringferð um Ísland og hvar sem við félagar komum var blásið til hátíðar, í nafni vitrustu sauðkindar heimsins, hinnar íslensku forystukindar. Þórði leiddist ekki að sauðurinn skyldi bera nafn hins mikla Gorbachevs og rússneski sendiherrann heiðraði okkur á Hótel Sögu í upphafi ferðar.

Í þessari ferð kynntist ég vel hversu víðförull og kunnugur Þórður var landinu og fólkinu. Þegar einhvern þráð vantaði í sögu eða upplýsingar um landið var Þórður spurður og aldrei brást honum þekkingin.

Við morgunmenn og hornkarlar vissum að hverju stefndi þótt Þórður bæri sig vel og stæði upp aftur og aftur frá veikindum sínum og væri hrókur alls fagnaðar með okkur enn um sinn. En allir erum við sammála um það að ef við hittumst handan landamæranna, á „upprisunnar mikla morgni“, væri nærveru og sagnagleði Þórðar fagnað að nýju í Sumarlandinu. Gjarnan mætti brimið úr Stokkseyrarfjöru leika þúsund radda brag og karlakór syngja Brennið þið vitar þegar sagnamaðurinn margfróði sæti á ný í öndvegi í hinu mikla bókasafni Lykla-Péturs. Blessuð sé minningin um Þórð Guðmundsson Stokkseyring. Við morgunmenn bókasafnsins sendum ættingjum og vinum Þórðar samúðarkveðjur okkar.

Guðni Ágústsson.