[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristinn Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti stórleik fyrir Arus Leeuwarden í sterkum sigri liðsins á Damar Groningen, 88:80, í BNXT-deildinni, úrvalsdeild Hollands og Belgíu, á laugardag

Kristinn Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti stórleik fyrir Arus Leeuwarden í sterkum sigri liðsins á Damar Groningen, 88:80, í BNXT-deildinni, úrvalsdeild Hollands og Belgíu, á laugardag. Njarðvíkingurinn skoraði 21 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu á þeim tæpa hálftíma sem hann lék. Hann var næststigahæsti leiksins. Leeuwarden er eftir sigurinn í fjórða sæti með 11 sigra og sjö töp.

Knattspyrnumaðurinn Christian Atsu fannst látinn undir rústum byggingar í Hatay í Tyrklandi eftir jarðskjáltann sem reið yfir fyrr í mánuðinum. Murat Uzunmehmet, umboðsmaður Atsu, staðfesti tíðindin um liðna helgi. Atsu er fyrrverandi leikmaður ensku knattspyrnuliðanna Newcastle United, Everton og Chelsea en hann lék síðast fyrir Hatayspor í Tyrklandi. Atsu lék auk þess á ferlinum 65 A-landsleiki fyrir Gana.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, hafnaði í 51.-56. sæti á Thailand Classic-mótinu í Bangkok í Taílandi. Mótinu, sem er hluti af Evrópumótaröðinni, þeirri næststerkustu í Evrópu, lauk í gærmorgun. Guðmundur Ágúst lék lokahringinn á 70 höggum, tveimur undir pari vallarins, og náði því sama árangri og á fyrstu tveimur hringjunum. Hann lék hringina fjóra á samtals 282 höggum (70, 70, 72 og 70) eða á 6 höggum undir pari Amata Spring-vallarins.

Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti í gærkvöldi Íslandsmet sitt í kúluvarpi innanhúss er hún varpaði kúlu 17,92 metra á svæðismeistaramóti í Bandaríkjunum. Bætti hún eigið tveggja vikna gamalt Íslandsmet um 22 sentímetra. ÍR-ingurinn er hefur átt ótrúlegu gengi að fagna á árinu, því hún var að bæta metið í þriðja sinn í ár.

Íslendingalið Lyngby náði í gær 1:1-jafntefli við topplið Nordsjælland á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Stefndi allt í sigur Nordsjælland en Alfreð Finnbogason skoraði jöfnunarmark Lyngby í uppbótartíma. Markið er það fyrsta sem Alfreð skorar fyrir Lyngby, en hann kom til félagsins fyrir áramót. Alfreð kom inn á sem varamaður á 69. mínútu og þetta var hans 300. deildaleikur á ferlinum. Kolbeinn Birgir Finnsson kom inn á tíu mínútum fyrr í sínum fyrsta keppnisleik fyrir liðið og Sævar Atli Magnússon lék fyrstu 80 mínúturnar. Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby.

Óðinn Þór Ríkarðsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti enn einn stórleikinn í öruggum sigri Kadetten á Kreuzlingen, 34:21, í svissnesku úrvalsdeildinni í handknattleik á laugardag. Óðinn skoraði átta mörk úr tíu skotum og var markahæstur í leiknum. Kadetten er í öðru sæti deildarinnar með 34 stig, fimm stigum á eftir toppliði Kreins. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten.

Íslendingalið Norrköping hafði betur gegn GAIS á útivelli í sænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær, 1:0. Arnór Ingvi Traustason, Arnór Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason voru allir í byrjunarliði Norrköping og skoraði Arnór Ingvi sigurmarkið á 41. mínútu. Nafnarnir léku allan leikinn en Ari fór meiddur af velli á 24. mínútu. Andri Lucas Guðjohnsen var allan tímann á varamannabekknum hjá Norrköping.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, fór mikinn fyrir Magdeburg þegar liðið hafði betur gegn Hamburg, 32:28, í þýsku 1. deildinni í gær. Skoraði hann átta mörk og gaf tvær stoðsendingar að auki. Magdeburg er í fjórða sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Füchse Berlín og Rhein-Neckar Löwen í efstu tveimur sætunum og á tvo leiki til góða.

Kolstad vann sex marka sigur á Kristiansand, 33:27, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Íslensku landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson voru áberandi hjá Kolstad. Janus skoraði átta mörk og Sigvaldi gerði sjö. Kolstad er með mikla yfirburði í norsku deildinni þar sem liðið er með fullt hús stiga eftir 17 leiki, sex stigum fyrir ofan ríkjandi Noregsmeistara Elverum.