Fórnir Úkraínskir fánar blakta hér yfir leiðum fallinna hermanna í kirkjugarðinum í Kramatorsk í Donetsk-héraði, þar sem harðir bardagar geisa.
Fórnir Úkraínskir fánar blakta hér yfir leiðum fallinna hermanna í kirkjugarðinum í Kramatorsk í Donetsk-héraði, þar sem harðir bardagar geisa. — AFP/Yasuyoshi Chiba
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að kínversk stjórnvöld væru nú að íhuga að senda hergögn til Rússa til þess að aðstoða þá við innrásina í Úkraínu. Varaði Blinken Kínverja við því að öll slík aðstoð við Rússa myndi valda „alvarlegum vandamálum“.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að kínversk stjórnvöld væru nú að íhuga að senda hergögn til Rússa til þess að aðstoða þá við innrásina í Úkraínu. Varaði Blinken Kínverja við því að öll slík aðstoð við Rússa myndi valda „alvarlegum vandamálum“.

Blinken sagði í fréttaskýringaþættinum Face the Nation á CBS-sjónvarpsstöðinni bandarísku að á meðal þess sem Kínverjar væru að íhuga væri að senda allt frá skotfærum til vopnanna sjálfra.

Blinken var staddur í München um helgina, þar sem hann sótti öryggisráðstefnuna þar. Hann fundaði þar með Wang Yi, utanríkisráðherra Kínverja, og ræddi þar við hann um bæði njósnabelgsmálið sem og mögulega aðstoð Kína við Rússland.

Sagði Blinken við bandaríska fjölmiðla í gær að hann hefði varað Wang við því að ef Kínverjar veittu Rússum aðstoð, hvort sem væri í formi hergagna eða vista, eða reyndu að hjálpa Rússum að komast undan áhrifum refsiaðgerða vesturveldanna, myndi það hafa afleiðingar í för með sér.

Blinken sagði jafnframt að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði varað Xi Jinping, forseta Kína, við því að senda vopn til Rússa þegar í mars á síðasta ári. Hefðu Kínverjar gætt sín mjög á því síðan að fara ekki yfir það strik.

Myndu kaupa far með Titanic

Öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Lindsey Graham sótti einnig öryggisráðstefnuna. Graham sagði við fréttakonuna Mörthu Raddatz á ABC-sjónvarpsstöðinni að Kínverjar myndu fremja alvarleg mistök ef þeir styddu við Rússa nú með vopnasendingum.

Sagði Graham að það væri sér í lagi varasamt að styðja við Rússa nú þegar hann hefði sjálfur aldrei verið bjartsýnni á að Úkraína myndi fara með sigur af hólmi í stríðinu. „Ef þú hoppar á Pútín-lestina ertu heimskari en mold,“ sagði Graham og vísaði þar í bandarískt tungutak. „Það væri eins og að kaupa sér far með Titanic eftir að þú ert búinn að sjá bíómyndina.“

Graham, sem þykir haukur í bandarískum utanríkismálum, gaf einnig til kynna að hann hefði fengið vísbendingar um að brátt yrði tilkynnt um að Bandaríkjastjórn myndi þjálfa úkraínska flugmenn. Sagði Graham að það væri mjög mikilvægt að Úkraína fengi F-16-orrustuþotur og að það skipti meginmáli að Úkraína myndi vinna stríðið. „Það sem er undir er réttarríkið, mannlegt siðferði og alþjóðakerfið.“

Fordæma stríðsglæpi Rússa

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, ávarpaði öryggisráðstefnuna á laugardaginn. Sagði hún þar að Bandaríkin hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Rússar væru að fremja glæpi gegn mannkyni í Úkraínu. „Gjörðir þeirra eru árás á sameiginleg gildi okkar, árás á sameiginlega mannúð okkar,“ sagði Harris og hét því að Bandaríkjastjórn myndi aðstoða Úkraínumenn við að rannsaka stríðsglæpi Rússa.

Graham tók undir orð Harris, og skoraði hann á Bandaríkjastjórn að lýsa því yfir að Rússland yrði sett á lista yfir hryðjuverkaríki, en slík aðgerð myndi gefa stjórninni lagaheimild til að beita refsiaðgerðum gegn þjóðum sem veita þeim aðstoð í innrásinni.

Demókratinn Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður fyrir Connecticut, talaði einnig fyrir því á öryggisráðstefnunni að Rússar yrðu settir á svarta listann. Rússar myndu þar vera með Kúbu, Íran, Norður-Kóreu og Sýrlandi á lista ef sú tillaga yrði samþykkt. Þá hafa demókratinn Joe Manchin og repúblikaninn Shelley Moore Capito lagt fram ályktunartillögu í öldungadeildinni um að innrás Rússa verði viðurkennd sem þjóðarmorð.

Sóknin sögð þegar hafin

Harðir bardagar geisuðu áfram í austurhluta Úkraínu um helgina. Óstaðfestar fregnir í gær hermdu að Úkraínuher hefði látið stórskotahríð dynja á stórskotaliði Rússa í þorpum skammt austan Bakhmút í Donetsk-héraði, þar sem helstu orrustur stríðsins fara nú fram. Þá bárust einnig óstaðfestar fregnir um að Úkraínuher hefði náð að leggja í eyði eina af bækistöðvum Wagner-málaliðahópsins í nágrenni borgarinnar.

Einnig var hart barist um þorpið Berkhívka, um 10 km norðan við Bakhmút, en sagt var að það hefði skipt að minnsta kosti tvisvar um hendur um helgina, þar sem Rússar og Úkraínumenn skiptust á að sækja.

Hernaðarsérfræðingurinn Michael Kofman sagði á Twitter í gær að sér virtist sem Rússar hefðu þegar hafið vetrarsókn sína fyrir um þremur vikum. Hefði sóknin skilað litlum árangri til þessa fyrir Rússa, þar sem gæði herliðsins, sem og skortur á lægra settum herforingjum, skotfærum og búnaði, setti takmörk á hvaða árangri sóknir Rússa gætu náð.

Sagði Kofman að Rússar reyndu nú að sækja fram á 5-6 mismunandi stöðum, frekar en að beita herliði sínu á einum stað. Hefði þeim orðið lítt ágengt, en þó taldi Kofman auknar líkur á því að Úkraínuher myndi hörfa frá Bakhmút á næstunni og taka sér aðra varnarstöðu ögn vestar.

Hins vegar sæi hann fá merki um að Rússar hefðu getu til þess að hefja harðari sókn á næstunni, þar sem sá mannskapur sem þeir hefðu safnað saman væri nú nýttur til þess að fylla skarð þeirra sem hafa fallið á síðustu vikum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson