Persónulegt „Það sem gerir Játningarnar svo sérstakar á sínum tíma er hvað hann gengur nærri sér,“ segir Pétur.
Persónulegt „Það sem gerir Játningarnar svo sérstakar á sínum tíma er hvað hann gengur nærri sér,“ segir Pétur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Rithöfundurinn Pétur Gunnarsson tók á laugardag við Íslensku þýðingaverðlaununum 2023 fyrir þýðingu úr frönsku á Játningunum eftir Jean-Jacques Rousseau. Bandalag þýðenda og túlka stendur að verðlaununum ásamt Rithöfundasambandi Íslands og Félagi íslenskra bókaútgefenda

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Rithöfundurinn Pétur Gunnarsson tók á laugardag við Íslensku þýðingaverðlaununum 2023 fyrir þýðingu úr frönsku á Játningunum eftir Jean-Jacques Rousseau. Bandalag þýðenda og túlka stendur að verðlaununum ásamt Rithöfundasambandi Íslands og Félagi íslenskra bókaútgefenda. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin á Gljúfrasteini.

Í dómnefnd verðlaunanna sátu Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason og í umsögn nefndarinnar segir meðal annars:

„Þýðanda er mikill vandi á höndum en Pétri bregst ekki bogalistin. Þýðing hans stendur undir væntingum allra þeirra sem láta sig varða íslenskt mál og möguleika þess til tjáningar. Í fyrstu bók Játninganna ritar Rousseau þetta: „Dómsdagslúðurinn má gjalla þegar honum líst og ég mun mæta mínum æðsta dómara með þessa einu bók í hendi.“ Með þessa góðu þýðingu Játninganna getur Pétur Gunnarsson mætt sínum æðsta dómara og fengið sér sæti við hlið Rousseau.“

Vann í rúman áratug

„Það er náttúrulega alltaf gaman að fá verðlaun,“ segir Pétur, sérstaklega þar sem hann hafi unnið að þýðingunni í langan tíma. Verkið sé yfir sex hundrað síður og hann hafi verið með það á borðinu í rúman áratug. „Það var svo sem engin pressa á mér, enginn skilafrestur eða svoleiðis, svo ég gaf mér bara allan tímann í heiminum til þess að þýða þetta verk.“

Pétur lærði heimspeki í Frakklandi, vann þar lokaverkefni um Rousseau og kynntist því verkum hans vel sem mörg hver ollu aldahvörfum í vestrænum menningarheimi. Aðeins eitt þessara verka, Samfélagssáttmálinn, var til í íslenskri þýðingu Más Jónssonar. „Reyndar höfðu Íslendingar spurnir af Rousseau í dönskum þýðingum, svo sem Magnús Stephensen og Jón Espólín á átjándu öld og Baldvin Einarsson á þeirri nítjándu. Þannig að áhrifa Rousseaus var tekið að gæta strax þá, en í nokkuð útvatnaðri mynd og mér fannst mikilvægt að við ættum aðgang að sjálfum frumgögnunum.

Það er mikill kostur við Játningarnar að þar segir Rousseau skýr deili, bæði á sér en líka þeim verkum sem hann hafði verið að skrifa. Þannig að maður fær skyndikúrs í öllu hans höfundarverki með því að lesa Játningarnar.“

Texta Rousseaus segir Pétur ekki vera tyrfinn og Játningarnar aðgengilegt verk. „Hann er mikill stílisti og skrifar mjög skemmtilegt, fallegt og tilþrifamikið mál sem gaman er að reyna að snúa yfir á íslensku.“

Nafnlaust níðrit

Rousseau var fæddur í Genf í Sviss þar sem ríkti mótmælendatrú og borgaralegt samfélag, en flutti til hins rammkaþólska Frakklands aðeins sextán ára gamall þar sem aðallinn ríkti einráður. Hann átti erfitt uppdráttar því borgarar áttu að sögn Péturs ekki upp á pallborðið í Frakklandi á tímum aðalsins. „Svo það var talsverð barátta hjá honum að hasla sér völl, en honum lánast það um síðir og getur sér frægð bæði sem hugsuður og höfundur. Á einu saman árinu 1762 sendir hann frá sér þrjú verk sem öll ollu aldahvörfum: Samfélagssáttmálann, Uppeldisritið um Emil og skáldsöguna Júlíu eða Héloísu hina nýju.“

Uppeldisritið um Emil varð að sögn Péturs tímamótaverk í uppeldismálum á Vesturlöndum. Þar kemur Rousseau fram með þá róttæku hugmynd að menntun barna eigi að taka mið af þroska barnsins, í stað ítroðslu ríkjandi sjónarmiða. Í kjölfarið kom út nafnlaust níðrit þar sem Rousseau var harðlega gagnrýndur fyrir að gera sig breiðan um uppeldismál þegar hann sjálfur hafði gefið öll sín börn nýfædd til kirkjunnar. Höfundur níðritsins reyndist vera enginn annar en Voltaire, samtímamaður og keppinautur Rousseaus. „Ég líki þeim stundum við Halldór Laxness og Þórberg, það hafi verið svipuð spenna þeirra á milli.“

Dregur ekkert undan

Níðritið segir Pétur að hafi verið sannkallað reiðarslag fyrir Rousseau. „Það varð upptakturinn að því að hann sest niður við að skrifa Játningarnar. Hann hugðist leiða í ljós hvernig þetta atvikaðist allt, að hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að láta frá sér börnin.

Það sem gerir Játningarnar svo sérstakar á sínum tíma er hvað hann gengur nærri sér. Hann játar á sig alls konar vammir og skammir og talar um hluti sem voru tabú á þessum tíma svo sem sjálfsfróun og ýmis afbrigðilegheit í kynlífi. Hann dregur ekkert undan og tekur þá áhættu að gera sjálfan sig hlægilegan. En það er auðvitað þessi hreinskilni sem gerði verkið svo frægt.“

Spurður hvort Játningarnar eigi erindi við lesendur samtímans segir Pétur: „Ef maður les sambærileg verk frá fyrri tímum þá er maður jafnframt að spegla sinn eigin tíma. Við vitum ekki hver við erum nema í samanburði við eitthvað annað. Það er svo margt í okkar tíma sem við sjáum skýrar í samanburði við 18. öldina. Svo er gaman að eiga þetta við hliðina á íslenskum verkum frá svipuðum tíma,“ segir Pétur og nefnir sem dæmi ævisögu eldklerksins, Jóns Steingrímssonar, sem einnig var rituð á 18. öld.

Eins og að moka skurð

Pétur segir það fara einkar vel saman að vera þýðandi og rithöfundur. Hann hafi þann háttinn á að frumsemja fyrir hádegi en þýða eftir hádegi.

„Þegar maður er að frumsemja þá eru það ótrúlega mikil heilabrot og manni er alltaf að mistakast og þarf að byrja upp á nýtt aftur og aftur. Að þýða er meira eins og að moka skurð, verkið er þegar til staðar og bíður þolinmótt eftir að maður hefjist handa.“

Þess má geta að Gunnar Þorri Pétursson, sonur Péturs, hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin í fyrra fyrir verkið Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlönu Aleksíevíts. „Það væri vandræðalegt ef þetta færi að leggjast í ættir,“ segir Pétur en viðurkennir að þeim feðgum þyki þetta mjög skemmtilegt.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir