24 Rashford reimar vart á sig takkaskó án þess að skora mörk.
24 Rashford reimar vart á sig takkaskó án þess að skora mörk. — AFP/Oli Scarff
Manchester United vann gífurlega öruggan heimasigur á Leicester City, 3:0, þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Marcus Rashford skoraði tvívegis og Jadon Sancho eitt mark

Manchester United vann gífurlega öruggan heimasigur á Leicester City, 3:0, þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Marcus Rashford skoraði tvívegis og Jadon Sancho eitt mark. Rashford hefur skorað 24 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

Arsenal endurheimti toppsæti deildarinnar með frábærum endurkomusigri gegn Aston Villa á útivelli, 4:2.

Bukayo Saka og Oleksandr Zinchenko skoruðu fyrir Arsenal auk þess sem sem Emi Martínez, markvörður Villa, skoraði sjálfsmark í uppbótartíma og Gabriel Martinelli bætti við í blálokin. Ollie Watkins og Philippe Coutinho skoruðu mörk Villa.

Ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City hefðu getað endurheimt toppsætið með sigri gegn nýliðum Nottingham Forest en náðu aðeins jafntefli, 1:1. Bernardo Silva kom City yfir áður en Chris Wood jafnaði metin með sínu fyrsta marki fyrir Forest.

Liverpool vann sterkan útisigur á Newcastle United, 2:0, og hefur nú unnið tvo deildarsigra í röð. Newcastle hefur tapað tveimur deildarleikjum á tímabilinu, báðum gegn Liverpool.

Darwin Núnez og Cody Gakpo skoruðu mörk Liverpool snemma leiks áður en Nick Pope, markvörður Newcastle, fékk að líta beint rautt spjald fyrir að handleika knöttinn viljandi fyrir utan vítateig um miðjan fyrri hálfleikinn.

Tottenham lagði West Ham, 2:0, með mörkum frá Emerson og Son Heung-Min. Með sigrinum fór Tottenham upp fyrir Newcastle í fjórða sætið.