Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um þróun efnahagsmála á Srí Lanka en eins og lesendur muna hrundi hagkerfi eyríkisins í sumar. Sérfræðingar segja vandann ekki nýtilkominn og að hrunið hafi ekki síst verið afleiðing ógáfulegra ákvarðana stjórnvalda a.m.k. undanfarna tvo áratugi, sem birtust m.a. í verðlagsstjórnun og mikilli skuldasöfnun.
Þúfan sem velti hlassinu var hörmuleg árás hryðjuverkamanna á páskadag 2019 sem varð til þess að straumur ferðamanna snarminnkaði en í kjölfarið kom kórónuveirufaraldurinn og hurfu ferðamenn þá nærri því með öllu. Ekki bætti úr skák misheppnuð tilraun stjórnvalda vorið 2021 með að banna innflutning á tilbúnum áburði sem leiddi til uppskerubrests og tapaðra útflutningstekna. Varð efnahagshrunið til þess að gengi srílönsku rúpíunnar helmingaðist og mun stór hluti landsmanna búa við einkar bág lífskjör þar til ástandið skánar.
Í október síðastliðnum ræddi blaðið við viðskiptafulltrúa ræðismanns Íslands í Colombo og er honum mjög í mun að efla viðskipti á milli landanna, báðum þjóðum til hagsbóta. Standa vonir til að jafnvel megi skipuleggja heimsókn íslenskrar sendinefndar sem myndi kynna sér viðskipta- og fjárfestingartækifæri á eyjunni. Eru viðskipti á milli þjóðanna ekki mikil, en að sögn Vajirapanie Bandaranayake flytur Ísland þó inn töluvert magn af fatnaði sem framleiddur er á Srí Lanka, og var innflutningurinn um 3,5 milljóna dala virði árði 2020.
Skoði sjávarútveg og ferðaþjónustu
Vajirapanie leiðir markaðsrannsóknasvið NDB Securities. Félagið sérhæfir sig í fjárfestingum og verðbréfaviðskiptum og er dótturfélag NDB Capital Holdings sem er stærsti fjárfestingarbanki Srí Lanka.
Hún segir fjárfestingaumhverfið á Srí Lanka hagfellt á marga vegu og að stjórnvöld hafi jafnt og þétt reynt að stíga skref í átt að því að frelsa hagkerfið og gera það aðlaðandi fyrir erlenda fjárfestingu, m.a. með bættum innviðum og með skattaívilnunum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. „Hvað snertir tækifæri sem ættu að vekja sérstakan áhuga Íslenskra fyrirtækja má nefna sjávarútveginn sem á mjög mikið inni en líður m.a. fyrir vöntun á nauðsynlegum innviðum, s.s. kæligeymslum.“
Srí Lanka ætti líka að höfða til íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja sem áhugaverður áfangastaður og segir Vajirapanie að þó svo að stjórnvöld hafi m.a. þurft að skammta eldsneyti þegar ástandið var hvað verst eftir efnahagshrunið þá sé daglegt líf óðara að komast í eðlilegt horf og að fyrirtæki sem þjónusta ferðamenn njóti sérstakra undanþága frá hvers kyns skömmtunum. „Langar biðraðir heyra í dag sögunni til og ferðaþjónustugeirinn er þegar farinn að taka við sér og í janúarmánuði 2023 sáum við metfjölgun í komum ferðamanna til eyjunnar.“
Atvinnulífið á Srí Lanka er fjölbreytt og segir Vajirapanie menntunarstig eyjunnar nokkuð hátt sem sjáist m.a. í örum vexti hugbúnaðar- og upplýsingatæknifyrirtækja á undanförnum tíu árum.
Þá segir Vajirapanie vert að skoða almenn fjárfestingartækifæri á Srí Lanka og bendir hún á eignaflokka sem erlendir aðilar geta fjárfest í hjá NDB, s.s. hlutabréf, skuldabréf, og ómarkaðshæfar eignir (e. distressed assets): „Það má vænta þess að um leið og stjórnvöld hafa fullnægt skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagsaðstoð verði ör viðsnúningur í fjárfestingaumhverfi Srí Lanka,“ útskýrir hún og bætir við að vonast sé til að AGS samþykki að veita Srí Lanka aðstoð á fyrri hluta þessa árs.
Spurð um viðskipta- og vinnustaðamenninguna í Srí Lanka, og mögulegar áhyggjur fjárfesta af spillingu, bendir Vajirapanie á að þegar kemur að stærri verkefnum hafi vissulega orðið vart við spillingu að einhverju marki en stjórnvöld vinni að því að koma á strangari löggjöf og þau leiti leiða til að auka gagnsæi. Hefur AGS m.a. bent á að innleiða verði sterkari varnir gegn spillingu og vinna stjórnvöld með sjóðnum að því að koma á bættri umgjörð. Má heyra á Vajirapanie að ekki þarf að búast við að spilling eða skrifræði geti orðið að mikilli hindrun fyrir erlenda fjárfesta og erlend fyrirtæki. „Stjórnvöld hafa lagt sig fram við að gera viðskiptaumhverfið sem þægilegast. Til dæmis innleiddi fjárfestingaráð landsins nýverið eina samhæfða gátt sem þjónustar fjárfesta með skilvirkum og hnökralausum hætti samhliða því að einfalda leyfisferla og samhæfa aðkomu ólíkra stofnana.“
Um skrifaðar og óskrifaðar reglur, siði og venjur segir Vajirapanie að fjöldi opinberra frídaga komi útlendingum stundum á óvart: „Það er að minnsta kosti einn opinber frídagur í hverjum mánuði og yfir árið eru þeir á bilinu 24 til 30 talsins. Hugsunarháttur fólksins ber keim af því að við búum á eyju þar sem náttúran og veðurfarið hefur hagað því þannig til fólk hefur ekki endilega þurft að hafa mikið fyrir því að bera nóg á borð fyrir sig og sína. Er stundum haft á orði að ef þú borðar ávöxt á Srí Lanka og hendir frá þér kjarnanum þá spretti upp ávaxtatré þar sem kjarninn lenti.“
Þá bendir Vajirapanie á að þó að ólík þjóðarbrot búi á eyjunni og finna megi leifar stéttaskiptingar innan hvers hóps, þá verði þess ekki vart í atvinnulífinu: „Í reynd eru allir jafnir, og er það helst þegar kemur að þáttum er varða makaval fólks að greina megi línur á milli þjóðarbrota. Sjáum við það hjá unga fólkinu að þau leggja æ minna upp úr þess háttar skiptingu.“