Mæðgin Kristrún Friðsemd og Benjamín Bjartur í fríi heima á Íslandi.
Mæðgin Kristrún Friðsemd og Benjamín Bjartur í fríi heima á Íslandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Starfið gefur möguleika til að koma mörgu góðu til leiðar í mikilvægum verkefnum. Ungt fólk sem býðst að fara í störf á fjarlægar slóðir á ekki að hika við að grípa tækifærin, sem eru ótrúlega þroskandi,“ segir Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir. Hún hefur að undanförnu starfað fyrir Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna á landsskrifstofu samtakanna í Síerra Leóne í Vestur-Afríku. Staðan er ungliðastaða styrkt af utanríkisráðuneytinu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Starfið gefur möguleika til að koma mörgu góðu til leiðar í mikilvægum verkefnum. Ungt fólk sem býðst að fara í störf á fjarlægar slóðir á ekki að hika við að grípa tækifærin, sem eru ótrúlega þroskandi,“ segir Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir. Hún hefur að undanförnu starfað fyrir Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna á landsskrifstofu samtakanna í Síerra Leóne í Vestur-Afríku. Staðan er ungliðastaða styrkt af utanríkisráðuneytinu.

Frjósemisheilsa og uppræta barnahjónabönd

Um þessar mundir kynnir Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sérfræðistörf sem ungum Íslendingum bjóðast á vegum Sameinuðu þjóðanna um víða veröld, svokallaðar JPO-ungliðastöður (Junior Professional Officer Programme). Í dag eru sex Íslendingar í slíkum störfum, það er í Líbanon, Suður-Súdan, Kenía, Simbabve, Malaví og Síerra Leóne, samanber að þungi þróunarstarfs SÞ er einmitt í Afríku. Verkefni taka eðlilega mið af menningu í hverju landi og eins einbeita ólíkar stofnanir Sameinuðu þjóðanna sér að mismunandi verkefnum.

Mannfjöldasjóður beinir sjónum sérstaklega að kyn- og frjósemisheilsu. Í starfi sjóðsins eru þrjú meginmarkmið, það er að binda enda á mæðradauða, kynbundið ofbeldi og skaðlegar hefðir gegn stúlkum. Þriðja markmiðið er svo að allar stúlkur og konur fái að velja hvort og hvenær þær eignist börn. Helstu verkefnin sem Friðsemd sinnir í landinu, í samstarfi við stjórnvöld og félagasamtök, eru því að uppræta barnahjónabönd og innleiða kynfræðslu í skólum.

Menning og félagsstaða

„Þetta eru verkefni sem taka á viðkvæmum málum sem eru oft fléttuð inn í menninguna og félagsstöðu fólks í landinu. Það er því mikilvægt að hafa menningarlegt innsæi, ætla ekki að ýta sínum hugmyndum á aðra heldur að koma inn með opinn hug og tilbúinn að hlusta og læra af fólkinu sem finnur þessi vandamál á eigin skinni,“ segir Friðsemd og bætir við að menntun sín í mannfræði nýtist afar vel í þessu starfi.

Síerra Leóne er skilgreint sem lágtekjuland þar sem innviðir eru takmarkaðir. Að flatarmáli er ríkið um 2/3 af flatarmáli Íslands en þó eru íbúarnir um 8 milljónir. Þjóðin samanstendur af mörgum ólíkum hópum sem tala hver sitt tungumál og búa að ólíkri menningu. Þá er meirihluti landsmanna múslimar, en einnig fjölmargir sem aðhyllast kristna trú. Rík hefð er í landinu fyrir trúfrelsi. Yfir 40% þjóðarinnar lifa undir fátæktarmörkum, það er í landi þar sem tæpast er til neitt sem heitir velferðarkerfi. Átök í landinu fyrr á árum hafa tafið að landið komist á skrið efnahagslega. Faraldrar E-bólu og Covid-19 hafa sömuleiðis haft áhrif, að sögn Friðsemdar, sem bætir við:

Kynbundið ofbeldi algengt

„Menningin er karllæg að mörgu leyti og hallar mjög á konur þó slíkt sé að breytast nú. Kynbundið ofbeldi er stórt vandamál sem birtist til dæmis í hárri tíðni kynferðisofbeldis gegn stúlkum og konum, tíðni barnahjónabanda og umskurði kynfæra kvenna sem er sterk hefð í samfélaginu. Umfang starfs mannfjöldasjóðs er mikið og málin sem við hjá mannfjöldasjóðnum vinnum að eru stór. Fjölmörg önnur hjálpar- og grasrótarsamtök, meðal annars alþjóðleg, starfa í landinu og sem betur fer er mikill pólitískur vilji hjá stjórnvöldum að efla kynjajafnrétti og staða mannréttinda í landinu er að þróast í jákvæða átt.“

Tíðni mæðradauða er há í Síerra Leóne. Lélegt heilbrigðiskerfi og skortur á heilbrigðisstarfsfólki í landinu eru helstu ástæðurnar þó vandamálið sé flókið. „Mannfjöldasjóður vinnur ötult að því að draga úr tíðni mæðradauða, meðal annars með menntun ljósmæðra í landinu og því að flytja inn nauðsynleg lyf sem tengjast kyn-, frjósemis- og mæðraheilsu. „Sú staðreynd að margar stúlkur hefja barneignir alltof snemma og takmörkuð kynfræðsla; úr þessu öllu þarf að bæta,“ segir Friðsemd og ennfremur:

„Við eigum til dæmis virk samtöl við trúarleiðtoga og aðra leiðtoga, sem og við drengi og karlmenn til þess að fá þá til að vera jákvæðar fyrirmyndir og virkja fleiri í baráttunni. Íslenska utanríkisráðuneytið styður mannfjöldaskólann í verkefni gegn fæðingarfistli, vandamál sem þekkist varla á Vesturlöndum en er sorgleg afleiðing vandkvæða við fæðingar í Afíku. Ég er stolt af íslenskri þróunarsamvinnu fyrir að koma að svo heildstæðu verkefni í vandamáli sem svo oft hefur fylgt skömm.“

Afvanist lúxusnum

Friðsemd kom til starfa í Síerra Leóne í nóvember árið 2021 og verður ytra væntanlega fram í þann sama mánuð á þessu ári. Hún kveðst hafa fengið góðar móttökur að öllu leyti í landinu og uni sér þar vel, þótt aðstæður séu gjörólíkar því sem gerist á Íslandi.

„Ég fór utan ein með með fjögurra ára syni mínum og ég viðurkenni að fyrstu skrefin voru erfið. Maður þarf að afvenjast vestrænum lúxus, ef svo má segja. En í þessu fjarlæga landi hef ég eignast góða vini og Sameinuðu þjóðirnar gæta starfsfólks síns vel, ekki síst hvað varðar öryggi í vinnu og á heimili. Ég ferðast reglulega út á land til að sinna fræðslu og fleiri verkefnum, en annars búum við mæðginin í Freetown sem er einstaklega lifandi bog. Umferðin er kaótísk en fólkið opið og vingjarnlegt og stutt í fallegar strendur sem við mæðginin njótum saman.“

Hver er hún?

Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir er fædd árið 1990, er frá Vík í Mýrdal en uppalin í Hafnarfirði. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík, er með BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslandi og lauk mastersnámi í hnattrænni heilsu við Maastricht-háskóla í Hollandi árið 2017. Friðsemd á soninn Benjamín Bjart Richardsson.

Áður hefur Friðsemd dvalið í Úganda þar sem hún vann að bættri kyn- og frjósemisheilsu stúlkna og kvenna, ásamt því að hafa í nokkur ár verið sjálfboðaliði og formaður stjórnar CLF á Íslandi sem stuðlar að menntun barna í Úganda.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson