Samtök brasilískra bænda höfðu í síðustu viku betur í dómsmáli sem þeir höfðuðu gegn þýska efna- og lyfjarisanum Bayer árið 2017.
Sættu bændurnir sig ekki við að greiða fyrir afnot af fræjum erfðabreyttra sojabaunaplantna sem þróuð voru af bandaríska efna- og líftæknifyrirtækinu Monsanto sem Bayer eignaðist árið 2018. Hafa bændurnir haldið því fram að einkaleyfi Bayer á erfðabreyttu fræjunum sé ógilt þar eð erfðabreytingin feli ekki í sér nýnæmi í skilningi laganna.
Féllst hæstaréttardómari á rök bændanna og úrskurðaði að Bayer skyldi endurgreiða þær þóknanir sem sojabændurnir hafa greitt allt aftur til ársins 2018, samtals 1,3 milljarða brasiliskra reala eða jafnvirði rúmlega 36 milljarða króna.
Hafa brasilískir bómullarbændur einnig höfðað sams konar mál gegn Bayer, vegna gjalda fyrir notkun erfðabreyttra bómullarplöntufræja.
Að sögn Reuters á Bayer þess kost að áfrýja niðurstöðunni til fjölskipaðs hæstaréttar. Í tilkynningu upplýsti félagið að ekki hefði verið tekin ákvörðun um áfrýjun en að endurgreiðslufjárhæðin yrði lögð inn á vörslureikning.
ai@mbl.is