Þungt er yfir félagsmönnum FFR, Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, í yfirstandandi kjaradeilu og ekki útilokað að stefni í yfirvinnubann, náist ekki sættir sem fyrst. Kjarasamningur FFR við Samtök atvinnulífsins vegna Isavia rann út 1. nóvember.
„Við höfum ekkert gefið út ennþá, eigum eftir að fara betur yfir með félagsmönnum hvernig næstu skref verða, en það er klárt mál að það er þungt í okkur hljóðið,“ segir Unnar Örn Ólafsson, formaður FFR. Haldinn var félagsfundur á föstudag og vinnufundur félagsmanna verður í dag.
Kveður hann línur munu skýrast frekar síðdegis í dag eða á morgun en deiluaðilar funda með ríkissáttasemjara á morgun.
Ljóst er að verði af yfirvinnubanni gæti flug raskast. „Yfirvinnubann að vetri til er auðvitað mjög slæmt. Það er mikil yfirvinna hjá flugvallarþjónustunni,“ segir Unnar en flugvallarþjónustan sér meðal annars um að halda flugbrautum auðum af snjó og ís sem kann að myndast að vetri til.
Mikil áhrif á flugsamgöngur
Félagsmenn FFR lögðu niður störf vorið 2014 í verkfalli sem stóð yfir í um þrjár vikur. Hafði verkfallið veruleg áhrif á flugsamgöngur og ferðir þúsunda röskuðust til og frá landinu auk þess sem þjóðarbúið varð af miklum tekjum.
Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjari mun sækja fundinn á morgun fyrir hönd ríkissáttasemjara. Kveðst hún ekki vilja tjá sig um deiluna að öðru leyti en að hún vonist til þess að fundurinn skili árangri.
„Það verður bara að koma í ljós. Þeir voru ekkert rosalega sáttir við stöðuna þegar þeir fóru frá okkur síðast, en við fáum að vita stöðuna frekar þegar þeir koma aftur í hús.“ ari@mbl.is