Slys Hvorki menn né hross sakaði þegar bíll forstjórans fór út af.
Slys Hvorki menn né hross sakaði þegar bíll forstjórans fór út af. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hvorki menn né hesta sakaði þegar bíll Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, fór út af á Hellisheiði um miðjan dag á laugardag. Bergþóra segir þau hafa farið út af veginum þar sem búið er að laga vegöxlina og það hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Hvorki menn né hesta sakaði þegar bíll Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, fór út af á Hellisheiði um miðjan dag á laugardag. Bergþóra segir þau hafa farið út af veginum þar sem búið er að laga vegöxlina og það hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr.

Vegur sem er fyrirgefandi

„Ég þekki þennan veg nú mjög vel, ég keyrði hann á hverjum degi í tólf ár. Við vorum þarna í hálkuskilyrðum og með hestakerru. Það sem ég er þakklát fyrir ekki síst, er að þetta er ein af þeim vegöxlum sem búið að laga. Þetta er dæmi um veg sem er fyrirgefandi. Maður rennur þarna út af honum og er þar og fer ekki í mikla kollhnísa. Við höfum lagt áherslu á það að það séu fleiri slíkir staðir,“ segir Bergþóra, spurð hvort óhappið veki spurningar um vetrarþjónustu á vegum.

Bergþóra segir þau hafa fengið mikla hjálp frá lögreglunni og einnig mörgum vegfarendum sem voru boðnir og búnir að hjálpa. „Það kom þarna kona sem gat aðstoðað okkur með hrossin. Þannig að þetta leystist allt á nokkrum klukkustundum. Mikilvægast er að allir sluppu heilir,“ segir Bergþóra.

Hún segir snjóruðningstæki Vegagerðarinnar hafa farið um veginn á meðan þau leystu úr sínum málum. „Það gekk á með éljum og hitastigið var upp og niður. Þannig að við vorum þarna í erfiðum skilyrðum. Ég get nú ekki kennt Vegagerðinni um þetta,“ segir Bergþóra.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir