Markverðir Fram og ÍBV, þær Hafdís Renötudóttir og Marta Wawrzykowska, áttu báðar stórleiki fyrir lið sín þegar 17. umferð úrvalsdeildarinnar í handknattleik, Olísdeildarinnar, fór fram í heild sinni á laugardag.
Hlutskipti þeirra reyndist þó ólíkt. Hafdís varði 18 skot og var með 44 prósenta markvörslu þegar ríkjandi Íslandsmeistarar Fram máttu sætta sig við tap, 22:24, fyrir toppliði Vals.
Markahæst í leiknum var Þórey Anna Ásgeirsdóttir með sex mörk fyrir Val.
Valur styrkti þannig stöðu sína á toppnum og er nú með 30 stig, tveimur stigum fyrir ofan ÍBV í öðru sæti, sem á auk þess leik til góða. Fram heldur kyrru fyrir í fjórða sæti með 19 stig.
ÍBV gerði góða ferð í Kópavoginn og vann þar botnlið HK örugglega, 27:17.
Marta gerði sér lítið fyrir og varði 18 skot líkt og Hafdís. Pólski markvörðurinn gerði þó gott betur og var með hvorki meira né minna en 62 prósenta markvörslu, sem er hlutfall sem sést sannarlega ekki á hverjum degi.
Sunna Jónsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir ÍBV.
Stjarnan fékk KA/Þór í heimsókn í Garðabæinn og hafði betur, 19:16, í ansi markalitlum leik.
Stjarnan styrkti með sigrinum stöðu sína í þriðja sæti þar sem liðið er með 25 stig.
Haukar lögðu nýliða Selfoss að velli, 35:30, í fjörugum leik í Hafnarfirðinum.
Haukar eru í fimmta sæti með 12 stig líkt og KA/Þór, sex stigum fyrir ofan Selfoss í sjöunda sæti.