Öryggisráðstefnan í München var haldin í 59. sinn nú um helgina. Þetta er áhugaverður vettvangur þar sem fulltrúar fjölda ríkja koma saman til að ræða öryggismál í víðu samhengi, jafnt með formlegum erindum og samtölum sem send eru út, sem og óformlegri samtölum og einkafundum, sem er oft það sem mestu skilar á slíkum samkomum.
Að þessu sinni vakti einna mesta athygli fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, og aðstoðarutanríkisráðherra Kína, Wang Yi, um loftbelginn sem Bandaríkjamenn skutu niður eftir að hafa horft á hann svífa þvert yfir Bandaríkin.
Afstaða hvorugs virðist hafa breyst við þetta samtal, en við því var út af fyrir sig ekki að búast, í það minnsta ekki opinberlega. En það er yfirleitt gagnlegt þegar menn setjast niður og tala saman og þarna áttu þessir menn klukkustundar langan fund þar sem fram fóru hreinskiptnar umræður, að því er sagt er.
Blinken, sem hætti við heimsókn til Kína þegar sást til loftbelgsins, ítrekaði þá afstöðu stjórnvalda í Washington að Kínverjar yrðu að láta af þeirri „óábyrgu hegðun“ að senda njósnabelgi yfir Bandaríkin. Blinken sagði að Bandaríkin mundu ekki láta þetta yfir sig ganga aftur, þó að ekki sé fyllilega ljóst hvað í því felst.
Wang sagði á móti að samskipti landanna hefðu versnað vegna óhóflega harkalegra viðbragða Bandaríkjanna við belgnum, sem hefði ekki verið njósnabelgur heldur veðurbelgur. Kínverjar hafa þó ekki enn útskýrt hvers vegna þeir létu hjá líða að upplýsa Bandaríkjamenn um að saklaus veðurbelgur á þeirra vegum væri á leið yfir hernaðarlega viðkvæm svæði í Bandaríkjunum.
Wang sakaði Bandaríkin líka um að hafa ranghugmyndir um Kína og að reyna að spilla ímynd Kína gagnvart öðrum ríkjum. Það verður þó að segjast eins og er að Kína er ekki að hjálpa ímynd sinni með atvikum eins og loftbelgnum, hvers eðlis sem hann var, eða með leyndarhjúpnum sem sleginn var um uppruna kórónuveirunnar og starfsemi rannsóknarstofunnar í Wuhan. Leynimakk er ítrekað vandamál í samskiptum við Kína og þar geta Kínverjar sjálfum sér um kennt ef ímyndin skaðast. En þeim er líka í lófa lagið að gera úrbætur í þeim efnum.
Annað sem áhyggjum veldur og rætt var í München um helgina eru samskipti Kínverja og Rússa sem af einhverjum ástæðum virðast hafa batnað mjög við, eða rétt fyrir, innrás Rússa í Úkraínu. Og á ráðstefnunni sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, að Kína fylgdist náið með til að sjá hvað innrásin mundi kosta Rússland, eða hvernig Rússland yrði verðlaunað fyrir hana. „Það sem er að gerast í Evrópu í dag gæti gerst í Austur-Asíu á morgun,“ sagði Stoltenberg og vísaði þar vitaskuld til yfirgangs stjórnvalda í Peking gagnvart Taívan. Þá sagði hann að innrás Rússa í Úkraínu hefði afhjúpað hættuna sem stafaði af alræðisríkjum og því hve háð Evrópa væri þeim. Menn þyrftu að draga lærdóm af innrásinni í þessum efnum og vísaði hann til samskipta við Peking í því sambandi. „Við megum ekki gera sömu mistök gagnvart Kína og öðrum alræðisríkjum,“ sagði hann.
Stoltenberg var ekki einn um það á ráðstefnunni í München að telja miklu skipta að Rússar töpuðu stríðinu í Úkraínu. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, lýsti sömu skoðun í viðtali í framhaldi af ráðstefnunni, en tók sérstaklega fram að hann vildi ekki að Rússland yrði brotið á eftir. Það hefði ekki verið og yrði aldrei markmið Frakklands.
Á ráðstefnunni voru einnig andófsmenn frá Rússlandi sem vildu ganga lengra en Macron. Skákmeistarinn Garry Kasparov sagði til að mynda að sigur Úkraínu á Rússlandi væri forsenda þess að koma á lýðræði í Rússlandi. „Frelsi frá fasima Pútíns liggur í gegnum Úkraínu,“ sagði Kasparov, sem bætti því við að Rússar lifðu einangraðir í eigin heimi og kæmust ekki út úr honum nema hugmyndin um heimsveldi hryndi og til þess þyrfti hernaðarlegan ósigur.
Hernaðarlegur ósigur innrásaraðilans væri óskastaða, en það er ekki þar með sagt að hún sé raunhæfur kostur. Rússar safna nú upp miklum her og undirbúa stórsókn. Hvernig til tekst veit enginn, en varasamt er að gera ráð fyrir að sú sókn verði ekki í besta falli gríðarlega þungbær íbúum Úkraínu sem þegar hafa mátt þola tæpt ár af hörmungum. Eina leiðin til að Úkraína eigi möguleika er að hún fái meira af hergögnum og enn öflugri hergögn. Treglega hefur þó gengið að verða við öllum þeim óskum og því miður hæpið að það breytist hratt.