40 ára Sigurður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík en býr nú í Kópavogi. Hann lauk B.Sc.-gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og síðan meistaragráðu í nanótækni frá Tækniháskólanum Chalmers í Gautaborg í Svíþjóð

40 ára Sigurður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík en býr nú í Kópavogi. Hann lauk B.Sc.-gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og síðan meistaragráðu í nanótækni frá Tækniháskólanum Chalmers í Gautaborg í Svíþjóð. Frá því að hann kom heim úr náminu 2008 hefur hann starfað hjá Mannviti en svo kláraði hann einnig meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá HÍ.

„Ég er núna meðal annars að hanna metankerfi fyrir Malbikstöðina til að nýta metan í malbiksframleiðslu á Esjumelum,“ segir Sigurður aðspurður. „Það er umhverfisvænt og hagkvæmt enda framleiðir Sorpa metanið í næsta nágrenni í Álfsnesi.“

Sigurður hefur verið ritari í stjórn Bridgesambands Íslands frá 2019. Hann var efnilegur skákmaður en hefur snúið sér meira að bridsinu. „Stuttu eftir að ég kom heim, 2009 líklega, þá ákváðum við nokkrir félagar að læra brids og fórum á námskeið og höfum verið að spila það síðan. Við reynum að vera með á sem flestum mótum og höfum gaman af þessu. Ég hef því verið minna í skákinni en tek þó nokkrar skákir á hverju ári á Íslandsmóti skákfélaga.“ Sigurður æfði fótbolta með KR upp í þriðja flokk og spilaði svo með Val í öðrum flokki. Hann er í píluliði og spilar golf á sumrin.


Fjölskylda Sigurður er í sambúð með Heiðu Kristínu Helgadóttur, f. 1986, kennaramenntuð en er rekstrarstjóri á Stuðlum. Foreldrar Sigurðar eru hjónin Steindór Guðmundsson, f. 1952, hljóðverkfræðingur hjá Verkís, og Inga Jóna Jónsdóttir, f. 1954, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þau eru búsett í Kópavogi.