Frjálsar
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Daníel Ingi Egilsson úr FH náði frábærum árangri á Meistaramóti Íslands innanhúss þegar hann vann örugglega í þrístökki í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal á laugardag og sló í leiðinni Íslandsmetið í greininni.
Daníel Ingi stökk lengst 15,49 metra og sló þannig Íslandsmet Kristins Torfasonar frá árinu 2011, sem var 15,27 metrar.
Í fyrsta stökki sínu jafnaði Daníel Ingi mótsmet Kristins, 15,23 metra og í þriðja stökkinu sló hann Íslandsmetið með því að stökkva 15,35 metra.
Daníel Ingi lét ekki þar við sitja og stökk 15,30 metra í fjórða stökki og í sjötta og síðasta stökki sínu stórbætti hann eigin árangur enn á ný og sló þannig aftur Íslandsmetið. Stökk Daníel Ingi þar með lengra en 12 ára gamalt Íslandsmet Kristins í þrígang.
Hann á enn nokkuð langt í land með að slá Íslandsmetið utanhúss. Vilhjálmur Einarsson stökk 16,70 metra fyrir 62 árum, þegar ekki var keppt innanhúss í þrístökki. Lengst hefur Daníel Ingi stokkið 15,31 metra utanhúss í greininni.
Daníel Ingi keppti einnig í langstökki á mótinu í gær og reyndist sömuleiðis hlutskarpastur þar. Stökk hann lengst 7,23 metra.
Irma vann tvöfalt
Irma Gunnarsdóttir úr FH reyndist hlutskörpust í tveimur greinum, þrístökki og langstökki.
Í þrístökkinu á laugardag hjó hún afar nærri eigin Íslandsmeti er hún stökk lengst 13,34 metra og setti mótsmet. Rúmlega viku gamalt Íslandsmet hennar í greininni er 13,36 metrar.
Irma stökk þá lengst 6,27 metra í langstökkinu í gær og vann með yfirburðum.
Kolbeinn setti mótsmet
Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH bar sigur úr býtum í bæði 60 metra og 200 metra hlaupi.
Í 60 metra hlaupinu á laugardag kom hann fyrstur í mark á 6,80 sekúndum og setti um leið mótsmet. Íslandsmet hans í greininni er 6,68 sekúndur.
Í 200 metra hlaupinu í gær hljóp Kolbeinn Höður á 21,79 sekúndum, sem er töluvert frá tveggja vikna gömlu Íslandsmeti hans, 21,03 sekúndum.
Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk sprettharðastar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR kom fyrst í mark í 200 metra hlaupi á meðan liðsfélagi hennar Tiana Ósk Whitworth bar sigur úr býtum í 60 metra hlaupi.
Í 200 metrunum hljóp Guðbjörg Jóna á 24,41 sekúndu í gær. Íslandsmet hennar í greininni er 23,98 sekúndur. Tiana Ósk tók ekki þátt í 200 metra hlaupinu vegna meiðsla sem hún varð fyrir á laugardag.
Í 60 metrunum á laugardag kom Tiana Ósk fyrst í mark á 7,62 sekúndum. Guðbjörg Jóna, sem á Íslandsmetið í greininni, 7,35 sekúndur, tók ekki þátt.