Arnar Ingi Guðbjartsson fæddist 11. janúar 1990. Hann lést 25. janúar 2023. Útför hans fór fram 16. febrúar 2023.

Þær eru svo margar, dýrmætu minningarnar. Ég gæti talið upp svo margt en ég minnist þess hversu traustur, hjartahlýr, duglegur og ótrúlegur faðir dóttur okkar þú varst. Ég brosi við að hugsa til þess að okkar saga byrji með saklausum dans á gamla Hverfisbarnum. Á sama tíma græt ég að þú varst tekinn frá okkur allt of fljótt elsku Arnar Ingi minn.

Ég minnist endalausra bíltúra á Imprezunni, tónlistinnarinnar, hláturskastanna, motocross, óléttunnar og alls tilfinningaskalans sem fylgdi henni. Ég minnist þess að horfa á þig með dóttur okkar í fanginu í fyrsta sinn, hvernig þú vafðir hendur þínar utan um hana, horfðir á hana og hún á þig.

Ég er svo þakklát, þakklát fyrir þig. Ég var dugleg að segja þér það. Svo er það fjölskyldan þín, hvar á ég að byrja, það er lífsins lukka að eiga þau að. Við sem eftir stöndum munum halda hópinn og hlúa vel hvert að öðru. Baldur Freyr hefur blásið í seglin þegar ég er vindlaus og hefur verið sem stoð og stytta fyrir okkur á heimilinu og mun halda áfram að vera. Systur þínar eru systur mínar og ég mun sjá til þess að englar sem eru ekki ennþá komnir til okkar munu fá að kynnast þér í gegnum mig. Þó leiðir okkar tveggja hafi skilið þá stoppar okkar saga ekki þar. Þú gafst mér það besta og mikilvægasta sem ég á, hana Fanneyju Rán.

Minning kemur upp þegar stelpan okkar fær hlaupabóluna, hún er hjá þér í góðum höndum en þú hringir og við ákveðum að ég komi yfir til þín og þar hugsuðum við um hana og vorum við til staðar fyrir hana, saman. Öll sumrin sem við mæðgur gerðum okkur ferð til að horfa á þig keppa í mótocross. Þegar þú keyrðir til Akureyrar yfir helgi þar sem ég og fjölskylda vorum í fríi með stelpuna okkar bara til að eyða tíma með henni og okkur saman.

Ég gæti lengi talið. Við vorum saman í því verkefni að vera foreldrar ljúfu stelpunnar okkar, virðingin okkar á milli og vináttan var einstök. Við skildum hvort annað svo vel og gátum talað um hlutina nákvæmlega eins og þeir voru. Mig langar að þakka Antoni, vini þínum fyrir að vera svona mikið til staðar fyrir þig og okkur öll. Einstakur vinur og ég veit að hann gaf þér mikinn styrk.

Ég held fast í allar minningarnar og ævintýrin, ég er byrjuð og mun halda áfram að skrifa þær í bók fyrir Fanneysín.

Hugarfar þitt og styrkur var engu öðru líkt og gat borið þig eins langt og mögulegt var.

Sorgin er mikil og sár, þú sýndir mér hversu miklum styrk er hægt að búa yfir og ég mun taka það til fyrirmyndar.

Við sjáumst aftur seinna.

Elska þig ávallt.

Þín

Sóldís Dröfn

Kristinsdóttir.