Einar Ómar Eyjólfsson fæddist 14. ágúst 1938. Hann lést 26. janúar 2023. Útförin fór fram 17. febrúar 2023.

Kær vinur okkar Einar er látinn. Árin færast yfir og vinirnir kveðja einn af öðrum.

Við kynntumst Einari í Kaupmannahöfn árið 1959 vorum þar kærustupar á ferð og hittum þau Bergþóru, en við Bergþóra vorum skólasystur úr Verslunarskólanum, og þar var annað kærustupar á ferð.

Þar hófst vinátta okkar sem stóð óslitin í yfir 60 ár og áttum við margar góðar stundir gegnum lífið.

Svo var lífsbaráttan, koma upp heimili og börnum. Bergþóra og Einar voru fljót að koma sér upp fallegu heimili þar sem alltaf var gott að koma og tekið á móti manni af mikilli gestrisni. Þau hjónin munaði ekki um að lána okkur íbúðina sína í Álfheimum eitt sinn er við biðum eftir að komast í hálfklárað húsið okkar og þau stödd erlendis.

Fyrsta útilegan okkar var 1960 er við fórum og tjölduðum á Þingvöllum.

Við fórum margar ferðir eftir það, ýmist sumarbústaðaferðir eða í tjaldi, seinna í tjaldvagni um landið okkar.

Þegar við áttum 25 ára brúðkaupsafmæli, höfðum gift okkur 1960, fórum við saman í ferð, byrjuðum í Kaupmannahöfn og keyrðum þaðan um Þýskaland.

Þetta var bara byrjunin á utanlandsferðum okkar.

Fórum með saumaklúbbnum er við í klúbbnum urðum 60 ára fyrst í Evrópuferð, fjögurra landa sýn, síðan til Kúbu. Eftir það margar ferðir og síðustu árin oft í sólarlandaferðir.

Síðasta ferðin var farin sumarið 2021 hringinn um Ísland og gist í sumarhúsum og hótelum. Það var dásamleg ferð og veðrið lék við okkur allan tímann.

Einar var sérstakt snyrtimenni, góður gestgjafi og félagi, hafði mjög gaman af að dansa. Við skemmtum okkur oft ýmist heima eða annars staðar og nutum lífsins saman.

Einar sagði oft „hvað væri lífið án góðra vina“ og nú finnum við söknuðinn eftir góðum vini.

Sendum Bergþóru okkar, dætrunum Guðrúnu, Gunnhildi, Jóhönnu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Halla og Örn.