Anna Ingibjörg Benediktsdóttir, Dúfnahólum 4, fæddist 30. desember 1946 í Reykjavík. Hún lést 28. janúar 2023 lést á líknadeild Landspítalans í Kópavogi eftir snarpa viðureign við krabbamein. Anna bjó lengst af í Mosfellsbæ og Grindavík, sem hún bar miklar taugar til.

Foreldrar Önnu voru hjónin Guðleif Ágústa Nóadóttir tónskáld, nefnd Lúlla, f. 2. ágúst 1920, d. 6. desember 1966, ættuð frá Ytri-Njarðvík og Fljótshlíð, og Benedikt Jóhannsson, f. 13. september 1912, d. 16. janúar 1978, innheimtumaður og margfaldur Íslandsmeistari í bridge, ættaður úr Laxárdal í Dalasýslu. Anna átti einn bróður, Nóa Jóhann, f. 18. mars 1953.

Anna giftist Kristbirni Árnasyni, húsgagnasmiði og síðar kennara, 12. desember 1964 með forsetaleyfi. Þau skildu árið 1994. Börn þeirra eru: 1) Reynir, kvæntur Anne Guðmundu Gísladóttur, sem á tvö börn og fimm barnabörn. 2) Hrönn Fonseca, sem var gift Kjartani Hilmissyni og á með honum börnin Ragnhildi Önnu, gift Árna Böðvari Barkarsyni, Kristbjörn Hilmi, í sambúð með Jenný Kristínu Sigurðardóttur, þau eiga börnin Unnar Jaka og óskírða dóttur, Þorvarð Bergmann, kvæntur Alinu Vilhjálmsdóttur, og Bergdísi Lind, í sambúð með Kristjáni Arnfinnssyni. Seinni eiginmaður Hrannar er José Manuel Duarte Da Fonseca. 3) Benedikt Árni, kvæntur Sigríði Maríu Eyþórsdóttur, þau eiga börnin Alexander Hrafnar og Auði Líf. 4) Katrín Guðleif, hún á dæturnar Ástrós Baldursdóttur, sem á dótturina Alexöndru Kristel með barnsföður sínum Martin Gancarcík, Kristínu Júlíönu Baldursdóttur og Önnu Ingibjörgu. Núverandi sambýlismaður Katrínar er Ragnar Þorláksson, sem á börn og barnabörn frá fyrri sambúð. Anna giftist seinni eiginmanni sínum, Sigbirni Jóni Bjarna Jóhannssyni, hinn 13. júlí 1994. Hann átti fyrir dótturina Ásmundu.

Útför Önnu Ingibjargar fór fram í kyrrþey hinn 15. febrúar 2023.

Elsku mamma mín. Þín verður sárt saknað og að geta ekki hringt í þig á hverjum degi – stundum oft á dag. Við töluðum um það að þegar ég hugsa til þín þá gæfirðu mér merki um að þú værir til staðar hjá mér, þangað til við hittumst síðar.

Eins og ég sagði við þig mamma mín: Þú ert best!

Þín dóttir,

Hrönn Fonseca Kristbjörnsdóttir.

Mig langar til þess að kveðja móður mína með þessum fátæklegu orðum.

Móðir mín ólst upp hjá foreldrum sínum á Bjarnarstíg 9 í Reykjavík, í sama húsi og amma hennar og afi, Anna Guðbjörg Jónína Ágústsdóttir og Nói Kristjánsson, sem henni þótti einstaklega vænt um. Það voru ófá skiptin sem hún heimsótti þau á æskuárunum. Frá þeim og foreldrum sínum fékk hún það fararnesti sem einkenndi líf hennar: heiðarleika, guðstrú, umhyggju og gestrisni.

Móðir mín missti móður sína 19 ára gömul. Nói bróðir hennar var þá 13 ára, og hún gekk honum nánast í móðurstað. Þau urðu því mjög samrýmd. Tveimur vikum áður hafði hún misst Nóa afa sinn.

Móðir mín missti föður sinn 1978 og varð því foreldralaus 32 ára gömul. Tveimur árum síðar missti hún ömmu sína, sem móðir mín sýndi mikla alúð og umhyggju. Það voru ófáar heimsóknirnar sem ég man eftir til langömmu minnar eða þegar hún kom heim til okkar.

Föðuramma og –afi Önnu voru bæði látin áður en hún fæddist.

Móðir mín hafði gott samband við föðurfólk sitt alla sína ævi, sérstaklega frænkurnar sem skiptust á reglulegum heimboðum. Síðasta frænkuboðið var örfáum vikum áður en móðir mín lést. Hnallþórurnar hennar og brauðtertur voru umtalaðar í fjölskyldunni.

Móðir mín gekk aldrei menntaveginn. Hún var orðin fjögurra barna móðir rúmlega þrítug. Hún sinnti mörgum störfum. Byrjaði ung sem sendill bankastjóra Landsbankans á Laugavegi, vann við blómaskreytingar, fiskvinnslu, verslunarstörf, ræstingar, var þjónn í mörg ár á stærstu hótelum Reykjavíkur, ætlaði að verða bakari og var sjúkraliði í mörg ár. Hún var hamhleypa til vinnu og hafði oftar en ekki mörg hlutastörf samtímis.

Móðir mín hafði mörg áhugamál. Hún var virk í kirkjukórum og kvenfélögum bæði í Mosfellsbæ og Grindavík. Hún var einnig virk í fyrsta foreldrafélagi Skólahljómsveitar Mosfellssveitar, þar sem ég spilaði í mörg ár. Karlakór Keflavíkur, þar sem seinni maður hennar söng í mörg ár, naut síðar krafta hennar. Karlakórinn sýndi henni þá virðingu að flytja mörg sönglög í útför hennar.

Hannyrðir voru mikið áhugamál hjá móður minni. Hún var fyrst áhugasöm um útsaum, en hugurinn færðist fljótlega yfir í prjónaskapinn. Hún prjónaði hverja lopapeysuna af annarri. Það eru margir fjölskyldumeðlimir og vinir sem hafa notið góðs af. Það eru margir ferðamenn sem hafa gengið í peysunum hennar. Sjálfur hef ég notið góðs af. Fengið ófáar lopapeysurnar og ekki síst lopavettlingana sem ég týndi alltof oft.

Hugur móður minnar var ávallt hjá niðjum sínum og ættingjum. Sérstaklega var sambandið náið milli hennar og Írisar frænku hennar, en þær töluðu í síma nánast hvert kvöld síðan í árslok 1966.

Móðir mín kom nokkrum sinnum í heimsókn til Danmerkur, þar sem ég og fjölskylda mín búum. Sérstaklega minnist ég þess þegar við tókum hana með til Óslóar og þegar hún kom í brúðkaupið okkar.

Ég er svo heppinn að hafa átt góða móður sem ávallt tók á móti mér og fjölskyldu minni með opnum örmum, sem við værum konungbornir gestir, þegar við heimsóttum hana.

Reynir

Kristbjörnsson.

Á meðal minna fyrstu minninga sem barn var Anna Ingibjörg frænka mín sem alltaf var til staðar í lífi móðurfjölskyldu minnar. Mamma mín og Anna Ingibjörg voru systkinadætur og miklar vinkonur, og mér eru minnisstæðar heimsóknir hennar til foreldra minna og jafnframt ferðir heim til hennar í Mosfellsbæinn. Þessar minningar af frænku minni einkennast af lífsgleðinni sem hún tileinkaði sér og smitandi hlátri hennar. Hjá Önnu Ingibjörgu var glasið alltaf hálffullt en aldrei hálftómt.

Ein gæfa mín í lífinu var að búa um tíma sem ung kona hjá móðurömmu minni, Ásu Jóhannsdóttur. Auk þess að kynnast henni upp á nýtt sem fullorðin kona fylgdi með sá bónus að kynnast líka betur þeim mörgu og frábæru gæðakonum sem umvöfðu líf hennar. Ein þeirra var Anna Ingibjörg sem ávallt hafði vakandi augu með stórfjölskyldunni og þá sérstaklega þeim eldri. Anna Ingibjörg hafði að geyma óendanlega hlýju til samferðafólks síns og skipti þá engu hversu vel hún þekkti það. Iðnaðarmenn sem unnu einhver viðvik fyrir hana fengu hlýjar lopaflíkur ofan á greidd laun en Anna var með einsdæmum hæfileikarík hannyrðakona. Sjálf eigum við fjölskyldan lopapeysur til að grípa til þegar kuldinn sækir á og þær eru enn hlýrri en ella sökum þess að Anna Ingibjörg prjónaði þær handa okkur af svo miklum kærleik.

Eftir að Ása amma mín dó árið 2003 langaði mig að halda tengslum við þessar gæðakonur sem að henni stóðu og úr varð árlegt frænkuboð í kringum áramótin. Þar á meðal gesta, og hrókur alls fagnaðar, var auðvitað hún Anna Ingibjörg. Þetta er eitthvað það besta og skemmtilegasta sem ég hef fundið upp á. Þessar frænkur mínar voru, og eru, skemmtilegustu kvöldverðargestir sem hægt er að ímynda sér enda djömmuðum við oftast langt inn í nóttina. Þar skoraði Anna Ingibjörg flest stigin með sínum yndislega húmor og einlæga hlátri. Hún sagði ótal margar skopsögur um daglegt amstur sitt og allt skopið var ávallt á hennar eigin kostnað enda hallaði hún aldrei orði á neinn mann. Það eru til tugir og jafnvel hundruð ljósmynda af okkur frænkunum tárvotum af hlátri. Þessar skemmtilegu minningar munu ylja mér alla mína ævi.

Um síðustu áramót var Anna Ingibjörg orðin alvarlega veik og ljóst að næsta frænkuboð yrði að taka mið af því. Hádegisverður á Jómfrúnni varð fyrir valinu og ég er innilega þakklát að Anna Ingibjörg skyldi geta komið með okkur. Sem fyrr var hún sjálfri sér lík; gantaðist við okkur frænkurnar þótt við værum allar meðvitaðar um hvað væri framundan.

Anna Ingibjörg, ásamt Jónsa, hefur deilt með okkur Jóni Smára stórum áföngum í lífi fjölskyldunni okkar og við munum sakna nærveru hennar.

Undanfarnir mánuðir hafa verið erfiðir fyrir Jónsa, börn Önnu Ingibjargar og fjölskyldur þeirra. Missir þeirra er stór. Við Jón Smári og synir okkar, Hendrik Daði og Úlfar Smári, vottum þeim öllum okkar innilegustu samúð.

Hjördís

Hendriksdóttir.

Traust, þrautseig, úrræðagóð, umhyggjusöm og margir aðrir kostir koma upp í hugann þegar ég hugsa um hana Önnu Ben., eins og hún kaus að kalla sig. T.d. bakstur og hvers konar handavinna, allt lék í höndum hennar, svo eftir var tekið.

En fyrst og fremst var hún góð vinkona til margra ára.

Hún gekk í gegnum erfið veikindi undanfarin ár, en bar sig alltaf vel og vonaði að sjálfsögðu að hún næði bata.

Það eru margir sem eiga eftir að sakna hennar Önnu, hún var einstök á svo margan hátt.

Hugurinn er hjá þeim sem syrgja, en minningin um góða konu lifir áfram.

Vilborg St.

Sigurjónsdóttir.