Anna Jónasdóttir fæddist á Nefstöðum, Stíflu í Fljótum 20. október 1934. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 28. janúar 2023.
Foreldrar hennar voru Hólmfríður Guðleif Jónsdóttir, f. 1913, d. 1971, og Jónas Guðlaugur Antonsson, f. 1909, d. 1983. Þau tóku að sér fósturbarn, Margréti Helgadóttur. Þau fluttu til Ólafsfjarðar þegar Anna var eins árs og ólst hún þar upp.
Anna giftist árið 1954 Páli Guðbjörnssyni rafvirkjameistara, f. 23. febrúar 1929, d. 28. apríl 1990. Þau eignuðust þrjár dætur: Jónu Björgu, Fríðu Björk og Elvu Björt. Börn Jónu og Grétars eru Anna Gréta, Páll Hólmar, Sara Rós og Lena Dúa. Börn Fríðu og Gylfa eru Harpa Dögg og Aron Páll og börn Elvu eru Sigríður Birna og Þórdís Anna. Langömmubörnin eru Tómas Emil, Einar, Karólína Silfá, Hazel Rós, María Björk og Anna Guðrún.
Hún fór á Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði og þar eignaðist hún margar góðar vinkonur sem hún hélt sambandi við alla tíð. Hún var heimavinnandi meðan börnin bjuggu heima, síðan fór hún að vinna við þrif í skóla og að því loknu vann hún í þvottahúsi Landspítalans.
Útför Önnu fór fram í Árbæjarkirkju 16. febrúar 2023 í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Elsku mamma, við kveðjum þig með einu af uppáhaldslögunum þínum, Liljunni:
Ég leit eina lilju í holti,
hún lifði hjá steinum á mel.
Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk
en blettinn sinn prýddi hún vel.
Ég veit það er úti um engin
mörg önnur sem glitrar og skín.
Ég þræti ekki um litinn né ljómann
en liljan í holtinu er mín.
Þessi lilja er mín lifandi trú,
þessi lilja er mín lifandi trú.
Hún er ljós mitt og von mín og yndi.
Þessi lilja er mín lifandi trú.
Og þó að í vindinum visni,
á völlum og engjum hvert blóm.
Og haustvindar blási um heiðar,
með hörðum og deyðandi róm.
Og veturinn komi með kulda
og klaka og hríðar og snjó.
Hún lifir í hug mér sú lilja
og líf hennar veitir mér fró.
Þessi lilja er mér gefin af guði
hún grær við hans kærleik og náð,
að vökva hana ætíð og vernda
er vilja míns dýrasta ráð.
Og hvar sem að leiðin mín liggur
þá liljuna í hjartastað ber,
en missi ég liljuna ljúfu
Þá lífið er horfið frá mér.
(Þorsteinn Gíslason)
Þínar dætur sem elska og sakna þín mikið.
Elva Björt
og Fríða Björk.
Ég trúi ekki þú sért farin svona fljótt, þetta er svo óraunverulegt. Mamma var alltaf vön hringja til mín og nú sakna ég þess. Ég frétti alltaf svo margt frá henni, hún leyfði mér að fylgjast með. Það er svo tómlegt að heyra ekki frá henni. Hún skildi mig svo vel á sinn hátt. Mig langaði að segja henni svo margt, sem er ekki hægt lengur og það er svo sárt. Nokkrum dögum eftir andlátið dreymdi mig að það kæmi ljós til mín og færi smátt og smátt í burtu eins og hún væri að kveðja. Hún var búin að mikið veik en alltaf reis hún upp aftur. Ég hef grátið mikið og það er erfitt að missa mömmu. Ég kveð þig með söknuði.
Ég elska þig, mamma, núna ertu komin til pabba.
Þín dóttir,
Jóna Pálsdóttir.
Anna amma var og verður alltaf mikil fyrirmynd í okkar lífi. Sterk kona með bein í nefinu þótt róleg væri. Ekkert fór fram hjá ömmu og það var hægt að treysta henni fyrir öllu enda var hún ávallt einn af okkar bestu stuðningsmönnum.
Það var alltaf gott að koma til ömmu í Hraunbæinn, þar tók á móti okkur hin mikla ást og hlýja sem alltaf stafaði frá ömmu.
Amma hélt mikið upp á bláa litinn og þegar við hugsum til ömmu koma upp minningar um hana sitjandi í bláa hægindastólnum að horfa á sjónvarpið og borða ísblóm.
Við eyddum mörgum stundum í Hraunbænum þegar við vorum litlar, horfðum á Heiðu-þættina á spólum og spiluðum á spil með ömmu. Með árunum þróaðist það yfir í kaffibolla og spjall við eldhúsborðið þar sem alltaf var hægt að leita ráða hjá ömmu sem þekkti okkur svo vel, oft betur en við sjálfar.
Í dag erum við þakklátar fyrir allar góðu stundirnar með ömmu. Bílferðirnar norður í land með heimagert nesti úti í náttúrunni að hætti ömmu. Allar gistinæturnar hjá ömmu og búðarferðirnar í Bónus. Öll jólin sem við fengum að hafa ömmu hjá okkur og hve glöð og ánægð hún var með síðustu jólin sín hjá okkur, það mun aldrei gleymast.
Við kveðjum ömmu með söknuð í hjarta en á sama tíma fullar af þakklæti. Hvíldu í friði elsku Anna amma og megi Guð geyma þig og afa.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson frá Presthólum)
Betri ömmu er erfitt að hugsa sér. Við yljum okkur við yndislegar minningar um þig í gegnum árin og þökkum þér fyrir að hafa alltaf verið til staðar, í gegnum súrt og sætt.
Elsku amma mín.
Ég veit að afi tekur vel á móti þér þarna uppi. Ætli hann komi ekki skíðandi og taki þér opnum örmum. Nú getur þú svo sannarlega haft augu með öllum þeim sem standa þér næst, úr besta sætinu í húsinu. Ég mun sakna þess að hlæja með þér, borða konfekt með þér og ræða um lífið og tilveruna með þér. Það er ekki hægt að hugsa sér betri ömmu en þig og næstu ár verða erfið án þín. Þú varst alltaf til staðar þegar á þurfti að halda og það var alltaf stutt í grínið. Tímarnir fyrir framan túbusjónvarpið að horfa á Heidi, með kakó í hendinni er eitthvað sem ég mun seint gleyma. Það var ómögulegt að segja nei við þig og maður kom oftar en ekki mörgum kílóum þyngri heim – af sælgæti og sætindum – úr heimsóknum hjá þér. Það súmmerar þig líka svolítið upp, þér leið ekki vel nema öllum í kringum þig liði vel. Þótt þú sért farin frá okkur þá muntu lifa að eilífu í hjörtum okkar allra og komandi kynslóðum. Ég mun hugsa til þín í hvert sinn sem ég elda mér hafragraut, í hvert skipti sem ég sé bláan Moomin bolla eða Nissan Micru. Þú passar upp á Bláskjá fyrir mig!
Hvíldu í friði elsku amma mín. Þinn
Aron.
Já, hvar á maður að byrja. Mikið eigum við margar góðar minningar að ylja okkur við, nú þegar þú ert farin frá okkur. Það var alltaf indælt að koma í heimsókn til þín. Ef þú varst ekki að gauka að manni nammi og kökum og djúsi í bláu glasi, þá vor það peningar. Þú vildir alltaf gera allt sem þú gast til að hjálpa. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég gisti hjá þér þegar ég var yngri. Þá fékk ég alltaf kvöldkaffi fyrir svefninn sem samanstóð alltaf af sama matnum, ristuðu brauði með osti (skorinn með rifflaða ostaskeranum) og kakói, hituðu í eldgamla örbylgjuofninum sem þurfti að ýta á um sex takka til að setja í gang. Það var svo gott að tala við þig og eiga sem sannkallaðan trúnaðarvin. Þú varst svo einlæglega áhugasöm um hvað var í gangi í okkar lífi og hafðir einnig þínar áhyggjur af okkur. En mikið var indælt að þú hafðir okkur alltaf með í þínum bænum. Þín verður sko sárt saknað, elsku amma okkar, en núna ertu þó sameinuð afa aftur, eftir alltof langan aðskilnað.
Elska þig og sakna þín. Þín
Harpa.
Harpa Dögg
og Aron Páll.
Það eru svo margar minningar sem ég get huggað mig við að eiga um hana, frá Garðsenda til Hrafnistu. Það sem kemur alltaf fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um hana er hve mikið hún elskaði og saknaði Palla afa, og allar sögurnar sem hún sagði mér af honum og lífi þeirra í Ólafsfirði og Fljótunum.
Amma var voða vanaföst og ákveðin, en það var alltaf stutt í brosið og heimili hennar var alltaf opið fyrir vini og vandamenn að hittast yfir kaffibolla (eða djúsi) og kexi og kökum. Hún var alltaf að föndra eitthvað og ég sýni margt af því með stolti á hillunum í litla húsinu mínu í Bandaríkjunum.
Hvíldu í friði elsku Anna amma, loksins aftur við hlið Palla afa.
Sara Rós Frazier.
Anna átti auðvelt með að umgangast fólk og var mjög viðræðugóð. Í samskiptum sínum við okkur beindist athygli hennar ávallt að viðmælandanum og hvernig hann hefði það en ekki að henni sjálfri, en væri hún spurð þá hafði hún það gott, kvartaði aldrei og var afar stolt af sínu fólki. Anna var bráðgreind og hefði svo sannarlega getað notið sín og átt frama á vinnumarkaðinum hefði hún haft tækifæri til þess en hún var af þeirri kynslóð þar sem hæfileikar og styrkleikar kvenna voru vannýttir og tækifæri þeirra til frama mun færri en gerist í dag.
Tengsl mín við Önnu voru þannig að hún og pabbi voru þremenningar en hún var líka æskuvinkona móður minnar. Þær kynntust fárra ára gamlar á Ólafsfirði, þegar Þorvaldur pabbi mömmu sá um bókhald fyrir Jónas pabba Önnu. Vinátta þeirra mömmu og Önnu var skólabókardæmi um sanna vináttu. Minningar um þá vináttu munu áfram lifa og vera fyrirmynd okkur sem fengum að upplifa þessi hreinskiptnu, hlýju og fallegu samskipti. Mikill samgangur var á milli fjölskyldna þeirra þó þær væru búsettar hvor í sínum landshlutanum eftir að þær komust á fullorðinsár. Eiginmenn þeirra voru miklir mátar og fjölskyldurnar ferðuðust saman um landið. Ógleymanlegar eru árlegar ferðir okkar Ólafsfjarðarfjölskyldunnar til Önnu og Palla, en á þeim árum bjuggu þau í Vallargerði í Kópavogi og síðar í Garðsenda í Reykjavík. Þau hjónin voru einstaklega gestrisin og veigruðu sér ekki við að hýsa og fæða fjölskylduna að norðan, stundum svo vikum skipti. Þó svo samverustundum mömmu og Önnu hafi fækkað allra síðustu ár, meðal annars vegna Covid-takmarkana, héldu þær eftir sem áður áfram að skiptast á mörgum og oft á tíðum löngum símtölum, sem verða því miður ekki fleiri.
Ekki er hægt að minnast á vinskap þeirra Önnu og mömmu án þess að geta þeirra Sibbu og Stínu. Þessar fjórar æskuvinkonur frá Ólafsfirði hafa haldið hópinn alla tíð, síðastliðin 80 ár, og hafa ávallt hugsað hvor um aðra eins og bestu systur. Það birtist ekki síst í þeirri miklu gleði og fjöri sem einkenndi samverustundir þeirra, þær stundir gátu verið á við heila leiksýningu fyrir aðra sem voru viðstaddir.
Við Arna minnumst með hlýju allra samverustundanna með Önnu og þökkum af einlægni alla þá umhyggju sem hún sýndu okkur, sonum okkar og fjölskyldunni allri.
Við fjölskyldan sendum afkomendum Önnu Jónasar, öðrum aðstandendum og vinkonunum fyrir norðan okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Bernharð
Hreinsson.