Þorvaldur Þorvaldsson fæddist á Selfossi 29. september 1955. Hann lést eftir stutta baráttu við krabbamein á heimili sínu 10. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Arnheiður Helgadóttir, f. 1928, d. 2019, og Þorvaldur Þorleifsson, f. 1925, d. 1955. Bróðir hans er Helgi, f. 1954.

Maki Þorvaldar er Erlín Kristín Karlsdóttir, f. 1955. Börn þeirra eru: 1) Arnheiður Sigríður, f. 1973, maki Einar Logi Sigurgeirsson. Börn: a) Kristín Eva, maki Sigurður Kristmundsson. Eiga þau Elmu Katrínu og Loga Stein. b) Sólveig Arna, unnusti Pálmi Eiríkur Gíslason. c) Ragnheiður Björk, unnusti Ragnar Magni Sigurjónsson. d) Þorvaldur Logi, unnusta Malin Andersson. 2) Karl Þór, f. 1975, maki Ósk Sveinsdóttir. Börn þeirra eru Karen Eva og Kristófer Darri. Karl Þór á einnig Matthías Hrafn með Örnu Björk Halldórsdóttur. 3) Katrín, f. 1988, maki Egill Jóhannsson. Eiga þau dótturina Ronju Kristínu.

Þorvaldur vann allan sinn starfsaldur hjá Rafveitu Selfoss, síðar HS Veitum. Hann lauk námi í rafveituvirkjun með vinnu og starfaði síðustu árin sem verkstjóri á starfsstöð HS Veitna í Árborg.

Útför Þorvaldar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 20. febrúar 2023, klukkan 13.30.

Elsku pabbi, það er mjög skrýtið og óraunverulegt að skrifa minningargrein um þig... Þú varst ekki bara pabbi minn heldur líka vinur og félagi í svo mörgu. Þú hafðir mikil áhrif á mig og kenndir mér svo margt. Ég leit mjög mikið upp til þín, þú gast gert allt og ekkert verkefni var of flókið fyrir þig. Þú hjálpaðir mér að byggja mitt fyrsta hús. Við eyddum heilu ári saman í því verkefni nánast upp á hvern einasta dag. Sá tími er mér mjög dýrmætur. Svo voru það veiðiferðirnar okkar, allt frá því að ég var smágutti fékk ég að elta þig um fjöll og firnindi. Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir landinu okkar og bráðinni sem við vorum að elta. Öll samtölin og pælingar á leiðinni til og frá veiðistað. Tónlist var mjög stór partur af lífi okkar beggja. Þú kenndir mér að hlusta á Pink Floyd, Jethro Tull og fleiri bönd frá þessum tíma, þær voru ófár stundirnar sem við sátum í herberginu mínu og hlustuðum á plötur. Seinna þegar ég hafði búið til mína eigin tónlist fannst mér mikilvægt að þér líkaði tónlistin. Þú reyndist börnunum mínum líka vel, sem nú syrgja afa sinn og ótal minningar sem við eigum saman. Þau tala um þegar þau fóru að skoða heiminn með afa, sem var skoðunarferð um húsið og bílskúrinn. Ég sakna þín gríðarlega mikið elsku pabbi „Wish You Were Here“.

Þinn sonur,

Karl Þór Þorvaldsson og fjölskylda.

Elsku pabbi minn. Þetta er allt svo óraunverulegt og óskiljanlegt. Lífið verður aldrei eins án þín. Sorgin og söknuðurinn eru svo mikil og ég kem því ekki í orð. Þú varst tekinn alltof fljótt frá okkur. Það sem hjálpar mér á þessum tímum er að hugsa um allar góðu, yndislegu og hlýju minningar mínar um þig og með þér og fallega brosið þitt. Þú varst yndislegur pabbi, tengdapabbi og afi. Við munum halda minningu þinni á lofti því það er svo ótal margt sem minnir okkur á þig og við verðum dugleg að segja Ronju Kristínu frá þér. Takk fyrir allt elsku pabbi.

Enn eitt tár

Allt er öðruvísi og breytt

af er það sem áður var.

Þú ert ekki lengur hér.

Enn eitt tárið féll í dag.

Tilfinningin undarleg,

farið allt á annan veg,

þú ert ekki lengur hér.

Enn eitt tárið féll með þér.

Engu betri, engu nær,

engu betri en í gær.

Af er það sem áður var,

enn eitt tárið féll í dag.

Ljósa ljósið, það ert þú

farinn burtu frá mér nú.

Ljós í myrkri ertu mér.

Enn eitt tárið féll með þér

(KK)

Þín dóttir,

Katrín Þorvaldsdóttir og fjölskylda.

Elsku afi minn.

Ég er búinn að hugsa mikið til þín síðustu daga, allar ljúfu minningarnar um þig. Það er gott og notalegt en líka sorglegt því ég vildi óska þess að þær hefðu fengið að vera fleiri.

Þær eru svo ótal margar minningarnar sem ég á með þér og ömmu þannig það er í raun erfitt að byrja einhvers staðar. Þið voruð besta ömmu- og afa-kombó sem maður gat hugsað sér. Ást ykkar og umhyggja var augljós og fordæmisgefandi. Þú varst alltaf mjög stoltur af fjölskyldustóðinu þínu og lést okkur vita reglulega af því.

Við systkinin elskuðum að koma í ömmu- og afahelgi til ykkar ömmu. Þið gerðuð alltaf eitthvað skemmtilegt með okkur. Við fórum í fjöruferð, gönguferðir og í þó nokkrar útilegur. Þær eru margar góðar minningarnar úr útilegum með ykkur þar sem þið gjörsamlega dekruðuð við okkur.

Þegar ég var í grunnskóla átti ég alltaf mjög erfitt með stærðfræði og algebru. Ég man mjög vel eftir því að þú gafst mér alla þína þolinmæði og tíma til þess að hjálpa mér þangað til að ég var svona nokkurn veginn komin með þetta. Mér þótti svo vænt um það.

Ég man líka að frá unga aldri varstu að láta mig hlusta á „alvöru tónlist“ eins og Bítlana, Led Zeppelin, Rolling Stones, Pink Floyd og Eric Clapton þannig að með árunum var þetta tónlist sem maður hlustaði sjálfur á við og við. Svo sýndir þú manni alltaf spenntur myndbönd af tónleikum sem þið amma fóruð á þegar maður kom í heimsókn.

Eftir að litlu börnin fóru að hrannast inn í fjölskylduna sá maður skýrt stoltið og væntumþykjuna sem þú hafðir til fólksins þíns. Þú varst mikill barnakarl og gafst þeim óskipta athygli þína og þegar þau komu í heimsókn til þín fórstu alltaf með þeim um húsið ykkar og sýndir þeim klukkuna, bjölluna og fjölskyldumyndavegginn. Svo á endanum var varla hægt að koma í heimsókn án þess að þessi rútína yrði tekin, börnin kröfðust þess og þér fannst það gaman.

Eftir að við Siggi fluttum í Haga og tókum við búinu hafðir þú alltaf mikinn áhuga á öllu sem við vorum að brasa. Alltaf þegar þú komst í heimsókn stóðst þú fyrir framan eldhúsgluggann og varst að dást að útsýninu með kaffibolla. Ég er glöð að við náðum allavega einni fjallgöngu upp í Hagafjall í sumar áður en þú fórst. Þá áttum við saman góða helgi.

Takk afi, fyrir að vera alltaf til staðar og vera besti afi sem nokkurt barn gat hugsað sér að eiga. Ég mun alltaf geta heyrt hláturinn þinn og séð fyrir mér brosið þitt í huga mínum og ég ætla að halda fast í þá minningu. Ég mun líka alltaf hugsa til þín þegar ég poppa afapopp í potti. Það var best í heimi.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Elska þig.

Þín

Kristín Eva.

Mig langar í fáeinum orðum að minnast Þorvaldar mágs míns, heiðursmanns sem látinn er langt fyrir aldur fram. Það eru nokkru fleiri en fimmtíu ár frá því Tobbi fór að slá sér upp með Erlínu systur minni. Þessi prýðispiltur kom vel fyrir og var honum strax mjög vel tekið af fjölskyldunni og átti hann alltaf í góðu sambandi við foreldra mína. Um tíma bjuggu þau í nágrenni við þau í Fossheiðinni og samgangur því alltaf talsverður.

Við Kristín vorum að rifja það upp að parið unga, Ella og Tobbi, opinberaði raunar trúlofun sína í giftingarveislunni okkar í desember árið 1972. Það gerði þann atburð jafnvel enn eftirminnilegri. Fleiri góðar minningar koma upp í hugann, svo sem sameiginleg ferð okkar með ungu fjölskyldunni til Danmerkur, en þá voru Adda Sigga og Kalli komin til sögunnar og Sirrý dóttir okkar Kristínar. Tobbi og Ella voru raunar alla tíð afar dugleg að ferðast innanlands og var það oft sem Sirrý fékk að fljóta með þeim í þau ferðalög.

Við Tobbi fórum líka allnokkrum sinnum til rjúpna saman á haustin og þar var hann svo sannarlega á heimavelli. Sennilega finnst mér þó best að lýsa Þorvaldi sem traustum rólyndismanni. Það var ekki asinn á honum og jafnan hafði hann ýmis ráð um hvernig mætti vinna úr þeim verkefnum sem upp komu. Það er sárt að sjá á bak slíkum heiðursmönnum á besta aldri, sárastur er þó missirinn fjölskyldu Tobba, sem hann sinnti ætíð af alúð svo eftir var tekið.

Við Kristín vottum Ellu, börnum hennar og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Bogi Karlsson.

Það er með sorg í hjarta sem ég minnist elsku Þorvaldar með nokkrum fátæklegum orðum.

Við frændsystkinin Helgi, Þorvaldur og ég ólumst upp eins og syskini þegar mæður okkar bjuggu sér heimili saman eftir að Þorvaldur faðir þeirra bræðra varð bráðkvaddur. Fyrstu minningar mínar um Þorvald eru frá því að hann var ungbarn og mér fannst ég vera stóra stelpan sem átti að líta eftir þeim bræðrum. Þorvaldur sem síðar var alltaf kallaður Tobbi er í mínum minningum rólegur, athugull, grúskari og mikill ljúflingur. Við áttum ljúfa æsku þó eflaust hafi stundum verið þröngt í búi hjá mæðrum okkar sem bösluðu einar með okkur á þessum tíma. Við fórum einnig oft í sveitina austur að Ey þar sem afi okkar og frændfólk bjó. Þar var stór krakkahópur og ýmislegt skemmtilegt brallað og margs að minnast. Svona flugu árin og Tobbi var orðinn síðhærður unglingur. Hann byrjaði að hlusta á Bítlaplöturnar mínar og varð strax mikill Bítlaaðdáandi alla tíð síðan. Tobbi og Ella voru ung þegar þau byrjuðu að skjóta sér saman og fljótlega áttu þau von á sínu fyrsta barni. Mér fannst þau óttalegir krakkar og sagði víst: Ætlar barnið að fara að eignast barn? Fannst ótrúlegt að hann væri farinn langt fram úr mér í þroska. Tobbi og Ella voru sérstaklega samhent og góð saman alla tíð. Passlega ólík en bættu hvort annað upp á svo fallegan hátt. Tobbi svo laghentur og duglegur að búa vel að fjölskyldunni sinni. Hann hafði unun af allri útivist, útilegum, jeppaferðum og skotveiði svo eitthvað sé nefnt og nutum við þessa fjölskyldan mín með honum á árum áður. Tónlist var einnig snar þáttur í lífi hans og margir tónleikar voru sóttir, t.d. fóru þau Ella á Rolling Stones sem var mikið ævintýri.

Tobbi var traustur starfsmaður og vann hjá Rafveitunni í um 50 ár. Menntaði sig á sviði rafiðna og gegndi ábyrgðarstöðu á sínum vinnustað.

Tobbi var mikill fjölskyldumaður, ákaflega stoltur af stóra hópnum sínum og fólkið hans var alltaf í fyrsta sæti. Börnin hans og fjölskyldur þeirra nutu þess að hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa og styðja við hvað eina sem gera þurfti.

Elsku hjartans Ella, Adda Sigga. Kalli Þór, Kata og fjölskyldur, missir ykkar er mikill. Veikindi Tobba komu snögglega og voru þung og erfið. Þið báruð gæfu til að annast Tobba svo einstaklega fallega. Umvöfðuð hann með svo mikilli nánd, ást og samveru. Það var ekki eins og að koma að sjúkrabeði, miklu fremur eins og notaleg samvera. Mér fannst það einstakt. Sorgin og söknuðurinn eru sár en allar yndislegu minningarnar munu hjálpa ykkur að aðlagast þessari nýju tilveru.

Blessuð sé minning Þorvaldar Þorvaldssonar.

Anna Þóra, Halldór Ingi og fjölskylda.

Þorvaldur lést í byrjun febrúar eftir skamma sjúkdómslegu. Ég kynntist honum fyrir rúmlega 40 árum en við kvæntumst systrum. Þorvaldur var hæglátur maður sem flíkaði ekki tilfinningum sínum. Hann var farinn að huga að starfslokum og ætlaði að fara að sinna áhugamálum sínum. Þá voru barnabörnin honum mjög kær og naut hann samvista með þeim. Það er dapurt þegar menn sem eru að búa sig undir lokakafla lífsins, njóta samvista við barnabörn og barnabarnabörn, falla frá. Þorvaldur var mikill fjölskyldumaður og undi sér hvergi betur en umvafinn fjölskyldumeðlimum.

Það er erfitt að rekja lífshlaup manna í örstuttri minningargrein, en Þorvald prýddu þeir mannkostir sem eru hvað eftirsóknarverðastir, heiðarleiki og vinnusemi. Hann vann hjá sama vinnuveitanda bróðurpart lífs síns sem segir margt um hæfileika hans að umgangast fólk af nærgætni og sýna öllum tillitssemi. Hann gat unnið með öllum og kom sér alls staðar vel. Aldrei heyrði ég Þorvald leggja illt orð til nokkurs manns. Ef einhverjum varð eitthvað á þá brosti hann og sagði: þetta bjargast allt saman. Þorvaldur var farsæll maður hvort heldur í starfi eða einkalífi.

Þorvaldur og kona hans Erlín Kristín byggðu sér stórt raðhús á Selfossi sem þau seldu fyrir þremur árum og keyptu sér einbýlishús á einni hæð. Allt var þetta gert eins og áður sagði til að búa í haginn fyrir efri árin. Þorvaldur var fyrirhyggjusamur og gerði ekkert að óathuguðu máli. Þau hjónin eignuðust þrjú mannvænleg börn sem erft hafa mannkosti foreldranna og eru þau vinnusöm og er fjölskyldan einstaklega samheldin. Væntumþykja barnanna til foreldranna er aðdáunarverð. Þau viku vart frá dánarbeði föður síns vikum saman og saman stóð fjölskyldan eins og klettur og umvafði hvert annað á erfiðum tímum.

Kolbrún og ég kveðjum góðan dreng sem skilaði góðu ævistarfi og vottum Erlínu Kristínu, börnum þeirra, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar dýpstu samúð.

Jóhannes

Ásgeirsson.

Lífið getur verið hverfult, eina stundina ertu meðal vina sem þú gerir ráð fyrir að fylgi þér alla tíð og þá næstu er einn úr hópnum hrifinn á brott. Skjótt gerðist það með Þorvald Þorvaldsson, rafveituvirkja, sem við kveðjum nú sameiginlega. Aðdragandinn var stuttur og læknavísindin ekki með svör sem dugðu.

Kynni okkar hófust er ég tók við starfi framkvæmdastjóra Selfossveitna sumarið 1989, en Þorvaldur var þá í litlum samheldnum hópi fagmanna sem lögðu sig fram við að byggja upp traust og áreiðanlegt raforkukerfi í þéttbýli Árborgar á miklu vaxtarskeiði byggðar. Þorvaldur átti sinn þátt í því að fagmannlega var unnið í hvívetna og skörulega gengið til verka. Hann var hæglátur en um leið kvikur og röskur og leysti verkefnin af kostgæfni og natni og var umhugað um að skila góðu dagsverki.

Hjá Selfossveitum var góður starfsandi, vísir að fjölskylduanda sem kom vel fram í samverustundum starfsmanna. Skapaðist góður vinskapur meðal margra sem haldist hefur gegnum tíðina. Þorvaldur og Ella létu ekki sitt eftir liggja við að skapa góða stemningu og leggja grunn að traustri vináttu. Aldrei var slegið af glaðværðinni og við lá í einni sjóferð okkar í Salou á Spáni að við kæmumst ekki frá borði, svo mikið var hlegið.

Þótt við værum ekki á sama vinnustað hin síðari ár þá hafa vináttuböndin ekki slaknað. Vorum við rétt byrjuð að feta vegferð sem við Jóhanna vonuðumst til að ætti eftir að standa mörg, mörg ár.

Tobbi hafði næmt eyra fyrir tónlist. Alltaf þegar við hittumst bárust í tal tónleikar sem annar hvor hafði upplifað. Við Jóhanna sögðum Tobba og Ellu frá konsert sem við fórum á með Rolling Stones í Stokkhólmi árið 2017, að það væri eiginlega ekki hægt að sleppa að upplifa meistarana. Tobbi tók til höndum og þau Ella enduðu á tónleikum Stones í Amsterdam seinna á árinu sem veitti þeim mikla ánægju og ég veit að Tobbi mat mikils. Stuttu fyrir uppgötvun veikinda Tobba í vetur skelltum við okkur á Stuðmenn og áttum saman frábært kvöld. Í bígerð var að upplifa Jethro Tull á næstu tónleikum, en það verður að bíða seinni tíma að sjá þá saman, þegar allir eru komnir á endastað.

Síðasta vor fórum við saman ásamt fleiri vinum í litla ferð til Hálanda Skotlands þar sem við áttum eftirminnilegar stundir saman. Sáum við fram á að á þeim slóðum væri efniviður í fleiri ferðir og þar sem ekki verður af því, þá var sú ferð enn mikilvægari fyrir vinskap okkar.

Ekki var ónýtt að koma til Tobba og Ellu og borða saman. Þau voru miklir höfðingjar heim að sækja, bæði miklir matgæðingar og lunknir kokkar og Tobbi gætti þess að allir hefðu það notalegt og nóg af öllu sem var í boði og þar skorti ekkert á.

Tobbi og Ella voru sérlega samheldin og samrýnd og bæði afar stolt af glæsilegum börnum sínum og barnabörnum. Að missa ástvin svo snögglega er sárt. Hugur okkar Jóhönnu er hjá ykkur öllum sem Tobba var svo annt um. Kveðjum við góðan vin með þökkum í hjarta, góðar minningar í huga og óskum þess að allt gott hjálpi ykkur á erfiðum tímum, elsku Ella og fjölskylda.

Ásbjörn Blöndal.

Í dag kveðjum við góðan vin, Þorvald Þorvaldsson.

Minningarnar leita á okkur og það er margs að minnast eftir svo langa vináttu. Við erum jafnaldrar og vinir frá barnsaldri.

Strax og bílprófið var í höfn var þeyst landshorna á milli um helgar eða lengri tíma í senn. Ekkert látið standa í vegi fyrir því að ferðast, hvorki holur á malarvegum né þreyttir bílar. Það þurfti reyndar oft að stoppa og leggjast undir bílana og laga eitt og annað en það þótti bara hið eðlilegasta mál, við vorum jú öll á gömlum bílum.

Þetta voru góðir tímar þar sem við gátum valið tjaldstæði hvar sem var úti í náttúrunni, fundið góðan læk og þokkalega slétta flöt.

Svo bættust börnin við eitt og eitt og þá varð hópurinn stærri sem var að ferðast, fararskjótar og ferðabúnaður breyttust með tímanum, utanlandsferðir bættust við seinna. Ferðuðumst við ýmist með þeim eða saumaklúbbnum sem var stofnaður fyrir um fimmtíu árum af skóla- og æskufélögum sem fékk nafnið Sælan og erum við enn að hittast.

Það var alltaf gaman að vera með Tobba og Ellu, mikið spjallað og hlegið. Þau voru dásamleg og samheldin hjón sem sáu alltaf spaugilegu hliðarnar á lífinu.

Við höfum verið vinir og búið í nágrenni alla tíð. Þvílík lífsgæði að fá að verða samferða vinum frá æsku.

Það var því mikið högg þegar við fréttum af veikindum Tobba. Það var erfitt að trúa því að hraustur maður á besta aldri væri lagður að velli á svo stuttum tíma, en krabbamein getur verið miskunnarlaust.

Ég trúi því að það verði fjölskyldunni huggun í þessum mikla harmi að Tobbi fékk að kveðja heima í faðmi fjölskyldunnar sem var búin að hjúkra honum af mikilli ást og umhyggju.

Það væri hægt að segja frá svo mörgu eftir svo langan vinskap en við látum þetta nægja, okkur er orða vant í þessari miklu sorg.

Innilegar samúðarkveðjur elsku Ella, Adda, Kalli, Kata og fjölskyldur ykkar.

Megi umhyggja og ást umvefja ykkur alla tíð, blessuð sé minning Tobba.

Nú veit ég að sumarið sefur í sál hvers einasta manns.

Eitt einasta augnablik getur brætt ísinn frá brjósti hans,

svo fjötrar af huganum hrökkva sem hismi sé feykt á bál,

uns sérhver sorg öðlast vængi og sérhver gleði fær mál.

(TG)

Kristinn (Kiddi) og Bryndís (Bimbý) og fjölskyldur.

Kær vinur okkar Þorvaldur Þorvaldsson lést 10. febrúar 2023. Þorvaldur var heill og góður vinur sem lést allt of fljótt. Vinátta okkar Tobba hófst á unglingsárunum og saman fórum við í makaleit og enduðum með bekkjarsystur okkar sem eiginkonur, ásamt tveimur öðrum bekkjarbræðrum okkar sem líka náðu í góðar konur í bekknum, og endast þessi hjónabönd öll enn. Við áttum svo eftir að vera saman í saumaklúbbnum Sælunni frá stofnun hans til dagsins í dag, en nú verðum við Sæluvinir að kveðja Tobba, eins og allir kölluðu hann, og er hans sárt saknað.

Á tímabili ferðuðumst við oft saman og fórum í félagsskap, sem við kölluðum Öræfasýn, í fjölmargar fjallaferðir, fórum fáfarna slóða sem voru oftast farnir á haustin þegar minnka tók í ánum og jörð var frosin. Þessi hópur var uppistaðan úr Sælunni og nánir vinir okkar sem fjölgaði með hverju árinu og eru margar góðar minningar sem reika um kollinn nú þegar við minnumst vinar okkar. Alltaf gengu þessar ferðir okkar vel og engin utanvegaspor eru til sem við eigum. Bílarnir voru líka miklu betri en þegar við vorum að leika okkur í Varmánni á Moskvítsum sem við áttum báðir lengi.

Tobbi fór alltaf varlega í þessum ferðum og alltaf komum við heilir heim þó að sækja þyrfti varahluti til byggða í sumum ferðunum enda varð hópurinn stærri með hverju árinu sem leið og fjölgaði tegundum sem komu með í ferðirnar og sumar þeirra áttu bara ekki að fara langt frá verkstæðum sínum og umboðum!

Seinna þegar aldurinn færðist yfir suma í hópnum breyttist þetta í Sæluútilegur og búnaður og tæki urðu önnur en félagarnir þeir sömu og aldrei langt í skop og grín í hópnum. Tobbi var yngstur okkar Sæluvina og við áttum ekki von á að hann þyrfti að fara svo snemma í þessa för.

Minningin lifir um góðan vin okkar Sæluvina sem er nú fallinn frá. Við vottum Ellu og börnum hennar og barnabörnum ásamt fjölskyldum þeirra samúð okkar, með kveðju frá okkur.

Agnes og Leifur.